Stjórnun og forysta. Kennsluhættir, starfsþróun og menning

Háskóli Íslands

Stjórnun og forysta. Kennsluhættir, starfsþróun og menning

2. október kl. 13:45 til 15:15 – Smelltu til að taka þátt á ZOOM!

Rannsóknarstofa um þróun skólastarfs

Börkur Hansen

„Ég vil bara vera hér“. Um hlutverk stjórnenda í mótun skólamenningar í þremur grunnskólum í Reykjavík og nágrenni

Sigríður Nanna Heimisdóttir, skólastjórnandi, Hagaskóli, Reykjavík og Börkur Hansen, prófessor, MVS, HÍ

Fræðimönnum ber saman um að jákvæð og sterk skólamenning sé mikilvægur hlekkur í skólaþróun og farsælli skólagöngu nemenda. Erindi þetta byggir á niðurstöðum rannsóknar þar sem skólamenning í þremur grunnskólum er skoðuð og hvaða leiðir skólastjórnendur fara í mótun hennar. Tilgangur rannsóknarinnar var að afla upplýsinga um reynslu skólastjórnenda og kennara, greina hana og reyna að skilja hvað er gert til að stuðla að því að skapa gott umhverfi sem einkennist af jákvæðri skólamenningu. Rannsóknin var eigindleg tilviksrannsókn. Gögnum var safnað með viðtölum við skólastjóra, kennara í rýnihópi, vettvangsathugunum auk skjalarýni haustið 2019. Helstu niðurstöður benda til þess að fjórir þættir séu áberandi í leiðum skólastjóranna í að byggja upp jákvæða skólamenningu: Fyrsti þátturinn snýr að leiðum sem þeir fara til að veita forystu; annar þáttur snýr að mikilvægi þess að stjórnendur hafi skýra og sterka sýn; þriðji hverfist um áherslur og tekur m.a. til hefða og samstarfs; og að lokum þáttur sem tekur til kennslu og væntinga til nemenda. Skólastjórnendur þurfa að vera meðvitaðir um skólamenningu stofnunarinnar sem þeir standa í forsvari fyrir, þekkja veikleika og styrkleika hennar. Á þann veg er líklegra að gæðakennsla fari fram og að nemendum og starfsfólki líði vel.

Eymennt – Lærdómssamfélag í þróun

Ingileif Ástvaldsdóttir, aðjúnkt, MVS, HÍ

Erindið byggir á stöðumati sem gert var á samstarfsnetinu Eymennt haustið 2018. Samstarfinu er ætlað að efla starfsþróun kennara og skólastjórnenda við Eyjafjörð með því að halda reglulega menntabúðir um notkun upplýsingatækni í skólastarfi. Eymennt er samstarfsnet sex skóla við Eyjafjörð um starfsþróun kennara og skólastjórnenda með það að markmiði að auka fjölbreytni í námsaðstæðum nemenda með notkun upplýsingatækni. Tilgangur stöðumatsins var að safna saman gögnum um menntabúðirnar og meta hvernig þær hefðu gagnast bæði kennurum og nemendum. Gögnum stöðumatsins var aflað með viðtölum við kennara og skólastjórnendur úr samstarfsskólunum, könnun á meðal þátttakenda í menntabúðum Eymenntar ásamt að rýnt var í dagskrár og þátttakendalista menntabúðanna frá upphafi. Niðurstöður matsins benda til þess að kennarar telji menntabúðirnar gagnast bæði sér og nemendum. Kennarar segjast geta nýtt lærdóminn í menntabúðunum í kennslu sinni. Þeir nefna einnig að með þátttöku í menntabúðunum stækki tengslanet þeirra og það styrkist. Kennarar kunna að meta jafningjafræðsluna sem menntabúðirnar byggja á. Af niðurstöðum matsins má álykta að menntabúðir geti verið verkfæri við að byggja upp og þróa lærdómssamfélag fagmanna. Það sýnir einnig að finna þurfi leiðir til að fjölga þátttakendum í hópi leik- og framhaldsskólakennara og hópi stjórnenda. Niðurstöður sýna að þörf er á frekari skoðun á hvers konar áhrif lærdómur kennaranna á menntabúðum Eymenntar hefur á kennsluhætti þeirra til framtíðar.

Starfshættir í opinni skólastofu

Björg Gunnarsdóttir, meistaranemi, MVS, HÍ og Lilja M. Jónsdóttir, lektor, MVS, HÍ

Í þessu erindi er fjallað um rannsókn á starfsháttum í opnum skólastofum (opnum rýmum). Meginmarkmiðið var að varpa ljósi á stöðu hugmyndafræðinnar um opna skólastofu í grunnskólum um þessar mundir. Haft var í huga hvernig skipulagningu skólans og skólastofunnar er háttað, hvernig kennsla er skipulögð, hvort um teymiskennslu sé að ræða, hvaða kennsluaðferðir eru notaðar og hvernig rýmin hafa þróast. Opin skólastofa átti nokkurn sess í skólamálaumræðu og skólastarfi á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar en rannsóknir benda til þess að þessir starfshættir hafi vikið fyrir annars konar kennsluháttum. Um er að ræða tilviksrannsókn þar sem tekin voru fjögur hálfopin viðtöl við kennara í opnum skólastofum og framkvæmdar vettvangsathuganir. Gagnaöflun fór fram í þremur skólum á höfuðborgarsvæðinu. Þátttakendur voru valdir með markmiðsbundnu úrtaki en allir eiga það sameiginlegt að hafa starfað í því sem mætti kalla opna skólastofu. Meginniðurstöður sýna að starfshættir í þátttökuskólunum eru nokkuð fjölbreyttir og í anda opinnar skólastofu en einnig er haldið í hefðbundna kennsluhætti. Þá leiddu niðurstöður í ljós að hugtökin opin skólastofa og opinn skóli hafa lítt eða alls ekki verið notuð hin síðari ár heldur hafa önnur hugtök tekið yfir sömu eða svipaða hugmyndafræði; þ.e. fyrst einstaklingsmiðað nám í upphafi þessarar aldar, síðan nemendamiðað nám og nú síðast teymiskennsluskóli. Með hliðsjón af lýsingum á hvernig skólastarf er í svokölluðum teymiskennsluskólum, t.d. út frá kennsluháttum, samvinnu kennara og skipulagningu skólastarfs, má draga þá ályktun að það sé nýjasta hugtakið yfir það sem var áður kallað opin skólastofa og opinn skóli.

Á vitundargrunduð menntun erindi í skólastarf á Íslandi?

Ari Halldórsson, framhaldsskólakennari og Börkur Hansen, prófessor, MVS, HÍ

Markmið þessa rannsóknarverkefnis var að kanna hvort menntunaraðferð sem nefnist vitundargrunduð menntun (e. consciousness based education) geti komið að gagni í íslenskum framhaldsskólum og brúað betur bilið á milli þeirra menntunarmarkmiða sem felast í Aðalnámskrá framhaldsskóla og raunverulegs árangurs af þeim. Vitundargrunduð menntun felur í sér að hugrænni tækni, þ.e. innhverfri íhugun, er bætt inn í hefðbundið skólastarf tvisvar á dag. Aðferðin hefur verið þróuð og notuð í skólastarfi víða um heim í áratugi. Hátt á fjórða hundrað ritrýndar rannsóknir á lykilþáttum hennar hafa birst reglulega í vísindatímaritum frá árinu 1970. Rannsóknirnar sýna meðal annars að dagleg iðkun þessara aðferða í nokkrar mínútur meðal kennara og nemenda eykur greind, athygli, sköpunarhæfni, minni og námsárangur, auk þess að stuðla að margvíslegum persónuleikaþroska, draga úr streitu, kvíða og þunglyndi. Í verkefninu eru dregin fram atriði í markmiðum grunnþátta menntunar í Aðalnámskrá framhaldsskóla auk helstu áskorana sem framhaldsskólar á Íslandi glíma við og þetta tvennt tengt viðeigandi rannsóknum á vitundargrundaðri menntun. Niðurstaðan er sú að áratuga rannsóknir á vitundargrundaðri menntun bendi til að hún geti í senn verið gagnleg leið til að uppfylla öll almenn markmið aðalnámskrár og á sama tíma leið til að bregðast við áskorunum í íslenskum framhaldsskólum. Því má draga þá ályktun að vitundargrunduð menntun eigi brýnt erindi í skólastarf á Íslandi, ekki síst sem mótvægi við sívaxandi streitu, kvíða og þunglyndi ungs fólks.