Starfstengd leiðsögn, starfsþróun og ráðgjöf

Háskóli Íslands

Starfstengd leiðsögn, starfsþróun og ráðgjöf

2. október kl. 15:30 til 17:00 – Smelltu til að taka þátt á ZOOM!

Rannsóknarstofa um þróun skólastarfs

Svava Björg Mörk

Starfsþróun kennara og stjórnenda í Fjölbrautaskóla Suðurnesja: Starfstengd leiðsögn og jafningjaráðgjöf

Guðmundur Grétar Karlsson, framhaldsskólakennari, Fjölbrautaskóli Suðurnesja

Fjölbrautaskóli Suðurnesja hefur tekið þátt í þróunarverkefni um stoðkerfi við starfsþróun frá árinu 2018. Samstarfsráð um starfsþróun kennara og skólastjórnenda stendur að verkefninu. Stoðkerfi við starfsþróun merkir í raun fyrirkomulag eða skipulag sem styður við starfsþróun og er í þessu þróunarverkefni m.a. verið að prófa leið að stuðningi háskóla við starfsþróun kennara og skólastjórnenda. Kennarar þurfa góðar aðstæður og möguleika til stöðugrar og fjölbreyttrar menntunar og starfsþróunar. Í Fjölbrautaskóla Suðurnesja hefur verið starfandi hópur starfsmanna sem vinnur að þróunarverkefnum, hittist sá hópur einu sinni í mánuði og ber saman bækur sínar. Þessir fundir eru hugsaðir sem jafningjastuðningur þar sem starfsmenn geta fengið ráð og leiðsögn í sínum verkefnum. Ráðgjafi frá HÍ hefur svo mætt á fundina, verið starfsmönnum og verkefnastjóra innan handar og gefið ráð. Meðfram þessu eru möguleikar starfsmanna til starfsþróunar kortlagðir innan skólans og nýjar leiðir prófaðar sem hópurinn hefur tekið þátt í að prófa. Má þar nefna lestur og umræður greina sem tengjast starfinu og heimsóknir í kennslustundir. Markmiðið með þessu er að þróa starfsþróunarmódel sem gæti mögulega nýst öðrum skólum.

Á milli steins og sleggju: Mikilvægi menntunar og fagþróunar leikskólakennaranema í vettvangsnámi

Svava Björg Mörk, aðjúnkt, MVS, HÍ og Arna H. Jónsdóttir, dósent, MVS, HÍ

Samstarf á milli háskóla og leikskóla í vettvangsnámi kennaranema er mikilvægur þáttur í fagþróun tilvonandi kennara. Leiðsögn sem kennaranemar fá meðan á vettvangsnámi stendur skiptir máli og einnig hefur fagmál leiðsagnarkennara áhrif á nám nemanna. Á Íslandi vinnur meirihluti leikskólakennaranema með náminu, fáir leikskólakennarar starfa á vettvangi og því eru ekki margir með leiðsagnarkennaramenntun. Markmið rannsóknarinnar var að varpa ljósi á upplifun þátttakenda af vettvangsnámi í leikskólakennaranámi. Rýnihópaviðtöl voru tekin við hagsmunaaðila í leikskólakennaramenntun; leikskólakennaranema, leiðsagnarkennara, leikskólastjóra og háskólakennara í leikskólakennaranámi. Í gagnaúrvinnslu kom mikilvægi leiðsagnar berlega í ljós. Nemendur spegluðu reynslu sína og mikilvægi leiðsagnar í vettvangsnáminu. Þeir voru sammála um að leiðsagnarkennarar hefðu mikil áhrif á nám þeirra, hvort sem þeir hefðu lítinn eða mikinn áhuga á eigin starfi eða leiðsagnarhlutverki. Nemendur sögðu að færir leiðsagnarkennarar hefðu mikil áhrif á færni þeirra til að rýna í reynslu sem þeir fengu á vettvangi. Nemendur ræddu einnig glímuna við að vera bæði nemendur og í starfi með námi. Aðrir hagsmunaaðilar ræddu um mikilvægi leiðsagnarkennarans, hæfni hans til að leiðbeina og styðja við nám leikskólakennaranemans. Þeir ræddu einnig glímuna sem nemendur standa frammi fyrir að vinna með námi. Rannsóknin er mikilvægt framlag til leikskólasamfélagsins og eykur skilning á tilgangi leiðsagnar í menntun leikskólakennaranemenda.