Starfendarannsóknir sem leið í starfsþróun og mótun starfskenningar

Háskóli Íslands

Starfendarannsóknir sem leið í starfsþróun og mótun starfskenningar

2. október kl. 13:45 til 15:15 Smelltu til að taka þátt á ZOOM!

RannSTARF (Rannsóknastofa um starfendarannsóknir)

Hafdís Guðjónsdóttir

Þróun starfskenninga í gegnum starfendarannsóknir

Hafdís Guðjónsdóttir, prófessor, MVS, HÍ

Í erindinu mun ég fjalla um starfendarannsóknir í meistaraverkefnum. Tilgangur rannsóknarinnar var að fá yfirlit um starfendarannsóknir meistaranema. Markmiðið var að greina hvernig starfendarannsóknir styðja kennara og kennaranema við að þróa starfskenningu sína. Starfstengd sjálfsrýni (e. self-study of educational practices) var notuð til að skoða hvernig meistaranemar hafa nýtt sér starfendarannsóknir til að efla sig í starfi og vinna starfskenningu sína. Rýnihópaviðtöl voru tekin við meistaranema og meistararitgerðir voru skoðaðar. Frá árinu 2012 hafa 35 meistaranemar á öllum skólastigum gert starfendarannsóknir með leiðsögn hjá mér. Rannsóknarniðurstöður sýna að verkefnin hafa verið fjölbreytt en allir nemendur hafa lagt áherslu á að þróa starf sitt, ýmist með fókus á afmörkuð verkefni, almenna starfsþróun eða á starfskenningu sína. Meistaranemum fannst vinnan ekki auðveld og sumir voru um það bil að gefast upp en hópleiðsögn hjálpaði þeim í gegnum vinnuna því það var alltaf gott að hitta aðra sem voru á svipuðum stað í ferlinu. Áhugaverð skilaboð má sjá bæði í niðurstöðum meistaraverkefna og í viðtölum við meistaranema um að vinnan við rannsóknina hafi eflt þá í starfi, styrkt sem fagmenn og að rödd þeirra hafi heyrst. Niðurstöður gefa til kynna að starfendarannsóknir geti verið góð leið fyrir kennara sem vilja þróa starf sitt og greina starfskenningu sína.

Að ýta undir skóla án aðgreiningar: Starfendarannsókn um að ýta undir kennslu án aðgreiningar á milli starfsmanns sérkennsluteymis og starfsmanna inni á deild

Bjarki Dalsgaard Sigurþórsson, leikskólakennari, Leikskóli Seltjarnarness og Edda Óskarsdóttir, lektor, MVS, HÍ

Tilgangur þessarar rannsóknar er að auka þekkingu mína, sem sérkennara á leikskóla, um það hvernig ég get unnið með öðrum til þess að efla starf án aðgreiningar á leikskólanum. Markmið rannsóknarinnar er að auka upplýsingagjöf og samstarf á milli sérkennsluteymis og starfsmanna deildar. Stefnt er að því að upplýsingagjöf fari í báðar áttir og að með markvissri ráðgjöf starfsmanna sérkennsluteymis til starfsmanna deildar sé hægt að stuðla að því að stuðningsbörn verði virkari hluti af barnahópi deildarinnar. Verkefnið stýrist af tveimur rannsóknarspurningum: „Hvernig get ég, sem fulltrúi sérkennsluteymis, komið á upplýsingaflæði á milli mín og deildar og þannig stuðlað að skóla án aðgreiningar?” og „Hvaða leiðir get ég, sem fulltrúi sérkennsluteymis, farið til að þróa ráðgjöf á milli mín og deildar sem stuðla að skóla án aðgreiningar?” Rannsóknin var starfendarannsókn með eigindlegum gagnaöflunaraðferðum. Gögn rannsóknarinnar voru fyrst og fremst rannsóknardagbók rannsakanda en einnig var gagna aflað með rýnihópaviðtölum. Rannsóknarvinur var notaður til þess að efla gildi rannsóknarinnar. Sex þátttakendur tóku þátt í rannsókninni að mér meðtöldum.

Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu fram á það hvernig samrýning gæti orðið að samstarfi, hvernig ég náði að koma á fót upplýsingagjöf og hvernig ég fékk hina þátttakendurna til þess að eigna sér verkefnið. Niðurstöður sýna að sú ráðgjöf sem ég veitti starfsmönnum Stjörnukots ýtti undir skóla án aðgreiningar en slíkt ferli krefst samstarfsvilja allra þátttakenda. Að lokum sýndu niðurstöðurnar fram á hvernig fagmennska mín þróaðist.

Starfsþróun kennara og kennsluskipulag í íslensku sem öðru tungumáli í grunnskóla

Anna Guðrún Júlíusdóttir, grunnskólakennari, Landakotsskóli, Svanborg Rannveig Jónsdóttir, prófessor, MVS, HÍ og Hafdís Guðjónsdóttir, prófessor, MVS, HÍ

Mikilvægt er að skipulag kennslu nemenda sem hafa íslensku sem annað tungumál í grunnskólum sé vandað. Þetta erindi fjallar um rannsókn sem unnin var frá árin 2015–2017. Tilgangur hennar var að efla kennslu og nám nemenda með íslensku sem annað mál í grunnskólum með því að gera starfendarannsókn í samvinnu við annan kennara. Stuðst var við hugmyndir um markvissa samkennslu í einum bekk. Markmið rannsóknarinnar var að varpa ljósi á hvernig samkennsla tveggja kennara með ólík þekkingarsérsvið, umsjónarkennara og kennara í íslensku sem öðru máli, getur eflt nám og kennslu nemenda með íslensku sem annað mál. Rannsóknin var starfendarannsókn, fagleg sjálfsrýni og liður í starfsþróun minni. Gögnum var safnað með rannsóknardagbók, tölvupóstum til leiðbeinenda, fundargerðum, viðtölum við samkennara, námsgögnum, ljósmyndum og gögnum í endurliti. Niðurstöður rannsóknarinnar eru flokkaðar í þrjú meginþemu sem greind voru í gögnum rannsakanda. Þau voru: Sjálfsrýni, samvinna í þróunarferli og nýting sérfræðiþekkingar. Helstu ályktanirnar sem dregnar voru af úrvinnslunni undirstrika þemu og undirþætti sem einkenndu rannsóknartímabilið og reynslu mína: Sjálfsrýni, stöðug greining og jákvætt sjónarhorn í starfi og samvinnu opnar á tækifæri. Vikulegir fundir eru mikilvægir og skipta sköpum um jákvæða þróun samkennslunnar. Markvissir kennsluhættir í almennum bekk eru mikilvægir þættir til að efla nám nemenda með íslensku sem annað mál. Auk þess er nauðsynlegt að annars máls kennsla sé skipulögð á stundaskrá sem sérstakt fag, íslenska sem annað mál, vegna þess að þar þurfa að vera aðrar áherslur en í kennslu íslensku sem móðurmáls.

Mundu að hafa húmor – og plan B: Fagleg starfskenning í mótun

Valgerður Ósk Einarsdóttir, framhaldsskólakennari, Framhaldsskólinn á Tröllaskaga, Hafdís Guðjónsdóttir, prófessor, MVS, HÍ og Svanborg Rannveig Jónsdóttir, prófessor, MVS, HÍ

Tilgangur rannsóknarinnar var að átta mig á hvernig fagleg starfskenning mín hefði þróast frá því að ég hóf störf í framhaldsskóla árið 2004 og markmið hennar var að fara í gegnum kennsluferil minn og skrá reynslu mína og bera kennsl á þá atburði sem fengu mig til þess að endurskoða kennsluna og/eða þær kennsluaðferðir sem ég notaði. Starfstengd sjálfsrýni varð fyrir valinu sem rannsóknaraðferð og til þess að umbreyta minningum og frásögnum í trúverðug gögn studdist ég við aðferðir til að vinna með minni og sjálfsviðtöl. Ég skoðaði kennsluferil minn og safnaði saman gögnum sem ég fór svo í gegnum skipulega, eftir tímabilum, og bar þannig kennsl á og skrásetti atriði og aðstæður sem fengu mig til að endurskoða starf mitt og starfshætti. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að fagleg starfskenning mín hafi þróast mest í samskiptum og samstarfi við aðra kennara. Í gegnum samræðuna hef ég rökstutt val mitt á kennsluaðferðum og séð hvar breytinga er þörf. Í aðstæðum þar sem ég hef starfað gegn faglegri starfskenningu minni, hef ég gert mér grein fyrir gildum mínum og séð hvaða áhrif þau hafa haft á starfið og val á aðferðum. Þessi rannsókn hefur sannfært mig um mikilvægi þess að kennarar ræði saman um starf sitt, um hvað þeir gera í tíma, hvaða fræðum þeir byggja starf sitt á og hvaða gildi þeir hafa. Þeim mun meira sem kennarar ræða faglega starfskenningu sína þeim mun betri verða þeir í því.