Stafræn námsgögn og rými til samvinnu, leikja og náms

Kl. 10:10-11:40

RANNUM: Rannsóknarstofa í upplýsingatækni og miðlun

Sólveig Jakobsdóttir

Kennsluefni í forritun og stærðfræði á unglingastigi: Tilraunir um framsetningu og miðlun á vef

Brynjar Marínó Ólafsson, skólastjórnandi, Snælandsskóla og Torfi Hjartarson, lektor, MVS HÍ

Fjallað verður um þróun á kennsluvef sem ætlað er að hjálpa nemendum að dýpka skilning sinn á stærðfræði. Lýst er hvernig blandað nám getur stutt við einstaklingsmiðun í námi og gefið nemendum tækifæri til að hafa áhrif á eigin námshraða og efnisval. Rætt er um hvað þarf að hafa í huga þegar ætlunin er að nýta tölvur, forrit og upplýsingatækni til að dýpka skilning nemenda í stærðfræðinámi og skoðað hvernig nýta má upplýsingatækni við efnismiðlun og kennslu í stærðfræði. Bent er á leiðir til að nýta tölvur og forrit sem viðbót í náminu. Á kennsluvefnum er að finna dæmi um ólíkar leiðir til að fást við stærðfræði með aðstoð tækni og tölvuforrita og eru sett fram nokkur verkefni í hverjum flokki miðlunarkosta sem þar er að finna. Þeir nefnast Töflureiknir, Reiknigripplur, Forritun, GeoGebra, Rafbækur, Kennslumyndbönd, Þöglar myndir og Samvinna. Markmið með vefnum er að búa til vettvang fyrir kennara til að sjá og greina möguleika við að nýta tölvur og tækni í stærðfræðinámi og þannig hvetja þá til að vinna áfram með tæknina í stærðfræðikennslu. Efnistök og framsetning eru með því móti að nemendur geti unnið að miklu leyti sjálfstætt í efni á vefnum og stýrt því sjálfir hvar og hvenær þeir vinna í efninu eða hversu hröð yfirferð þeirra er. Kennsluvefurinn er opinn öllum og vonast er eftir að hann geti nýst kennurum og nemendum sem vilja nýta upplýsingatækni markvisst í stærðfræðinámi í efri bekkjum grunnskóla. Vefurinn ber heitið Tölvunotkun og stærðfræði og er að finna á slóðinni http://www.namsvefir.wixsite.com/stae.

 

Opnar kennslubækur, opin bókaskrif – Geta nemendur í háskólanámi skrifað eða endurblandað eigin námsbækur?

Salvör Gissurardóttir, lektor, MVS HÍ

Markmið rannsóknar er að skoða hvort og á hvern hátt opið menntaefni (OER) á ýmiss konar formi geti komið í stað hefðbundinnar kennslubókar, hvort og hvernig þátttaka nemenda í að útbúa opin námsgögn í samvinnu við aðra valdefli nemendur sem og hvaða tól og búnaður til slíkra skrifa sé við hæfi nemenda. Lýst er starfendarannsókn á hvernig opið kennsluefni (OER) og þá sérstaklega opnar kennslubækur er notað sem einn þáttur á tveimur háskólanámskeiðum 2021 sem námsgögn, til samvinnuskrifa og til að valdefla nemendur. Nemendur unnu bæði með wikikerfi (wikibooks) og útgáfukerfi ( Pressbooks) og opna hugbúnaðinn H5P til að búa til gagnvirk verkefni. Flestir nemendur náðu allgóðu valdi á verkfærum/útgáfukerfum til að skrifa opnar kennslubækur. Lokuð útgáfukerfi til bókaskrifa (Pressbooks) virtust hafa nokkra kosti fram yfir opin kerfi (Wikibooks). Nemendur náðu færni í að skrifa námsefniskafla í Pressbooks og gera gagnvirkar æfingar í H5P en vegna takmarkana á uppsetningu gátu þeir ekki tengt slíkt saman. Nemendur nýttu lítið möguleika til að endurblanda texta frá öðrum en nýttu myndir og ýmiss konar innfellt efni í sín verk.

 

Stafræn sköpunarsmiðja í Minecraft: Notkun sýndarveruleika í skólastarfi 

Skúlína Hlíf Kjartansdóttir, aðjúnkt, MVS HÍ og Gísli Þorsteinsson, prófessor, MVS HÍ

Rannsóknin fjallaði um notkun Minecrafts sem sýndarveruleikanámsumhverfis í grunnskóla. Þátttakendur voru sjö ára grunnskólanemendur í Stykkishólmi ásamt kennara þeirra. Gögnum var safnað í formi myndskeiða og upptökum af viðtölum við nemendur og kennara þeirra og fylgst var með kennslunni. Grunduð kenning var notuð við úrvinnslu gagnanna. Kennsluáætlun og athafnamöguleikar nemendanna innan sýndarheimsins sköpuðu skilyrði fyrir markbærum námsferlum. Meginmarkmið rannsóknarinnar var að öðlast skilning á samhengi náms og kennslu með því að skoða hugmyndaauðgi nemendanna og getu þeirra til að birta hugmyndir sínar í heiminum í samræmi við athafnakosti hugbúnaðarins. Nám nemendanna fór fram í gegnum leik sem hjálpaði þeim að nýta reynsluheim sinn við birtingu hugmynda sinna. Myndskeið sýndu hvernig margbreytileg samskipti nemenda studdu við hönnunarvinnu þeirra og efldu félagsfærni þeirra. Að geta byggt með sýndarefni gaf þeim einnig möguleika að prófa hugmyndir sínar við birtingu þeirra í heiminum. Nemendur studdu við vinnu hver annars í námsferlinu og kennarinn var oftast í hlutverki stuðningsaðila. Verkefnið er framlag til rannsókna á námi er byggir á leik og fer fram í sýndarveruleikanámsumhverfi.