Skólinn – Starfsþróun

Háskóli Íslands

Skólinn – Starfsþróun

1. október kl. 13:45 til 15:15 – Smelltu til að taka þátt á ZOOM!

Margrét S. Björnsdóttir

Stefnumótun um starfsþróun framhaldsskólakennara – „kennarar geta sízt allra, menntað sig til starfs í eitt skipti fyrir öll“

Anna María Gunnarsdóttir, framhaldsskólakennari og varaformaður Kennarasambands Íslands

Framhaldsskólinn á sér margs konar rætur og því hefur reynst erfitt að móta heildstæða stefnu fyrir hann. Að sama skapi hafa framhaldsskólakennarar ólíkan bakgrunn og fagmennska þeirra hefur löngum einkum tengst ákveðnum kennslugreinum. Markmið þessa erindis er að varpa ljósi á áhrif opinberrar stefnumótunar á starfsþróun framhaldsskólakennara. Tímabilið sem fjallað er um hefst með lögverndun á starfsheiti kennara árið 1986 og nær til nýrrar lagasetningar um menntun kennara sumarið 2019. Rannsóknaraðferðin er orðræðugreining á fyrirliggjandi gögnum frá stjórnvöldum og kennarasamtökum um stefnumótun í málum sem varða starfsþróun framhaldsskólakennara. Rannsóknargögn eru 51 skjal af fernum toga. Fyrsta flokknum tilheyra lög, lagafrumvörp og þingsályktanir. Í öðrum flokknum eru reglugerðir og aðalnámskrár sem tengjast framhaldsskólastiginu. Þriðji flokkurinn geymir stefnumótunarskjöl úr Mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Í fjórða flokknum eru kjarasamningar og skjöl frá samtökum kennara sem varða stefnumótun um starfsþróun framhaldsskólakennara. Sjónum er beint að hugmyndum yfirvalda um starfsþróun á hverjum tíma og hvaða samband er á milli starfsþróunar kennara og opinberrar stefnu um skólaþróun. Niðurstöðurnar gefa til kynna að margt hefur áhrif á opinbera stefnu um starfsþróun kennara. Samráð hefur skort milli þeirra sem setja stefnuna og þeirra sem fjármagna skólana. Stefnumótun um starfsþróun framhaldsskólakennara hefur af þessum sökum verið ómarkviss. Framhaldsskóli nútímans hefur fjölþættar þarfir fyrir skipulega starfsþróun kennara. Styðja þarf við lærdómssamfélag framhaldsskólans og starfsumhverfi þar sem starfsfólk lærir hvert með öðru og hvert af öðru.

Leiðsagnarnám og námskraftur nemenda

Hjördís Þorgeirsdóttir, framhaldsskólakennari, Menntaskólinn við Sund

Kynnt verður starfendarannsókn félagsfræðikennara í framhaldsskóla þar sem markmiðið er að efla mig faglega í starfi með því að innleiða námsmenningu um leiðsagnarnám og námskraft nemenda. Byggt er á aðferðafræði Jean McNiff um starfendarannsóknir. Rannsóknaraðferðir mínar eru kannanir á meðal nemenda, samræður við nemendur, verkefni nemenda og rannsóknardagbók mín. Hugtakarammi starfsemiskenningar Yrjö Engestöm er hafður til hliðsjónar og mikilvægi þess að beina athygli að togstreitu í starfinu. Kenning Dylan Wiliam um lykilþætti leiðsagnarmats er höfð að leiðarljósi við innleiðingu matsins og kenning Guy Claxton um námskraft við innleiðingu námsmenningar um námskraft nemenda. Helstu niðurstöður eru að ég er byrjuð að innleiða leiðsagnarnám í mína kennslu með fjölbreyttum verkefnum, setja markmið með öllum verkefnum og prófum, gátlistum fyrir mat á stærri verkefnum, munnlegri endurgjöf, einstaklingsmiðuðu námsmati og hópviðtölum við nemendur. Námsmenning um námskraft nemenda byggist á að hafa samtímis í huga innihald náms samkvæmt áfangalýsingu, meðnám og námsumhverfi. Aðferðir mínar eru m.a. kynning á hugmyndafræðinni um námskraft, veggspjöld um námskraftinn, hópavinna byggð á námsvinum og dagbókum námsvina. Ég hef upplifað ýmsa kosti við leiðsagnarnámið, t.d. aukna virkni nemenda, betri hópanda og jákvæð viðbrögð nemenda við breytingunum. Ég hef þó einnig upplifað togstreitu í starfinu, sérstaklega við að veita munnlega endurgjöf, hversu tímafrek samning og yfirferð skriflegra verkefna er og erfiðleika við jafningjamat nemenda. Þegar ég tengdi saman viðmið í áfangalýsingu og markmið með verkefnum komst ég að þeirri niðurstöðu að þekkingar-, leikni- og hæfniviðmið nægja ekki því það vantar viðmið tengd námsferlinu sjálfu. Úr varð að ég bætti við flokknum námsviðmið.

 

Aftur í kennslu? Starfsþróun í sumarformi

Margrét S. Björnsdóttir, aðjúnkt, MVS, HÍ og Kristín Jónsdóttir, dósent, MVS, HÍ

Grunnskólakennarinn 2020 er eitt fjölmargra sumarnámskeiða sem ákveðið var að bjóða fram á vegum Háskóla Íslands. Með því skapaðist kærkomið tækifæri fyrir námskeið sem einungis er ætlað grunnskólakennurum sem eru að snúa aftur í kennslu á komandi hausti. Samhliða var ákveðið að kanna hvers konar stuðningur hentar þeim og meta jafnframt hvernig þeim líkar það námskeiðsform sem lagt var upp með. Rafrænn spurningalisti var lagður fyrir þátttakendur námskeiðsins að lokinni fyrstu lotu þess sem var snemma í júní. Annar spurningalisti var lagður fyrir við námskeiðslok í byrjun september. Spurt var um gagnsemi helstu efnisþátta, um kennsluskipulagið og verkefnin sem lögð voru fyrir. Í fáeinum opnum spurningum var leitað eftir væntingum þátttakenda og hvað þeim þætti brýnast að fjalla um. Í erindinu verður greint frá helstu niðurstöðum en þá liggja fyrir svör úr fyrri og seinni spurningakönnun. Fyrstu niðurstöður gefa þó vísbendingar um að þátttakendum líki vel að hafa mætt tvo heila daga í upphafi. Jafnframt virðast efnisþættirnir hæfniviðmið, leiðsagnarmat og notkun upplýsingatækni hafa höfðað vel til þessa hóps. Þátttakendur lýstu líka verulegum áhuga á efnisþáttum seinni lotunnar í ágúst og komu með góðar ábendingar sem nýtast til að þróa námskeiðið á meðan það stendur yfir. Að hefja störf sem kennari í grunnskóla eftir nokkurt hlé er mikil áskorun og þátttakendur töldu að námskeiðið gæti orðið þeim stuðningur í því.

 

Hreyfanleiki nýnema á höfuðborgarsvæðinu á tímum markaðsinnritunar í framhaldsskóla

Þorlákur Axel Jónsson, aðjúnkt, HA

Innritun í framhaldsskóla er viðvarandi umfjöllunarefni. Á höfuðborgarsvæðinu giltu á tíunda áratugnum ákvæði um forgang nemenda af skilgreindum upptökusvæðum inn í tiltekna framhaldsskóla. Eftir aldamótin voru þau ákvæði afnumin og frjáls markaðsinnritun tók við þar sem einkunnir á samræmdum prófum grunnskólans voru yfirlýst viðmið innritunar. Viðleitni stjórnsýslu menntamála nokkrum árum síðar til þess að innleiða á ný slíka svæðaskiptingu bar ekki tilætlaðan árangur. Gerð var tölfræðileg athugun á muninum á þeirri innritun í framhaldsskóla haustið 2006 sem raunin var á og kjörmynd hinnar aflögðu svæðaskiptingar (N=2127). Tilgangurinn var að greina krafta sem voru að verki í innritunarferlinu. Notuð voru gögn um skiptingu Reykjavíkur í þrjú innritunarsvæði, skiptingu höfuðborgarsvæðisins í sveitarfélög, einkunnir nýnema á samræmdum prófum, viðhorf þeirra, þjóðfélagsstöðu og kyn, ásamt gögnum um innritun í einstaka framhaldsskóla. Fram kom að sá helmingur nemenda sem samkvæmt nánari skilgreiningu má segja að „færði sig“ milli innritunarsvæða hafði sterkari stöðu en hinn; hærri þjóðfélagsstöðu, hærri einkunnir og jákvæðara viðhorf til skóla. Frekar var um að ræða stúlkur en pilta. Ekki munaði miklu á hópunum í heild en fyrir einstaka framhaldsskóla munaði miklu í þessum samanburði. Markaðsinnritun virðist nýtast stúlkum sem ekki hafa tiltakanlega háa þjóðfélagsstöðu en ná góðum námsárangri í grunnskóla. Markaðsinnritun styrkti stöðu þeirra framhaldsskóla sem höfðu sterka stöðu fyrir. Rætt verður um þýðingu stefnu yfirvalda menntamála fyrir félagslega aðgreiningu í innritunarferlinu.