Skóli án aðgreiningar og félagsleg staða fatlaðs fólks

Háskóli Íslands

Skóli án aðgreiningar og félagsleg staða fatlaðs fólks

1. október kl. 13:45 til 15:15 – Smelltu til að taka þátt á ZOOM!

Öráreitni og ableismi: Félagsleg staða fatlaðs fólks í almennu rými

Embla Guðrúnar Ágústsdóttir, meistaranemi, MVS, HÍ og Ásta Jóhannsdóttir, lektor MVS, HÍ

Mannleg samskipti geta verið flókin og ófyrirsjáanleg en flest okkar taka þátt í þeim daglega án mikillar umhugsunar. Fjöldi félags- og mannfræðinga hafa gert félagsleg samskipti í almennum rýmum að rannsóknarefni sínu en í gegnum tíðina hefur lítið verið horft til áhrifa fötlunar á slík samskipti. Markmið erindisins er að rýna í áhrif fötlunar á félagslega upplifun í almennu rými ásamt að skoða hvernig öráreitni birtist í daglegu lífi fatlaðs fólks. Til þess að draga það fram verður notast við skilgreiningar Keller og Galgay um birtingarmyndir öráreitni gagnvart fötluðu fólki og kenningar Goffman um félagslegan stöðugleika. Fyrri rannsóknir og fræðileg skrif hafa sýnt fram á að fatlað fólk upplifir gjarnan að komið sé fram við það með sérstökum hætti vegna fötlunar þess, einkum af ófötluðu fólki, þó svo hugtakið öráreitni sé ekki alltaf notað til að skilja og skýra framkomuna og viðmótið. Niðurstöður okkar benda til þess að þó almennt sé gengið út frá félagslegum stöðugleika í mannlegum samskiptum einkennist félagslegur veruleiki fatlaðs fólks af félagslegu uppnámi og óreiðu vegna öráreitni (e. microaggressions) og ableisma. Skilgreiningar Keller og Galgay eiga því ágætlega við íslenskan veruleika. Uppnám og óreiða eru hluti af hinum daglega hversdagsleika fatlaðs fólks en ekki tilfallandi atburður líkt og kenningar Goffman hafa gert ráð fyrir. Í þessari óreiðu endar fatlað fólk sjálft milli steins og sleggju og upplifir sig bera ábyrgð á að endurskapa félagslegan stöðugleika á sama tíma og því er jafnvel misboðið vegna hegðunar ófatlaðs fólks.

Milliliður, stuðningsaðili eða hlutlaus fylgdarmaður. Hlutverk aðstoðarfólks í námi fólks með þroskahömlun sem þarf mikinn stuðning

Helle Kristensen, sérkennari í fullorðinsfræðslu, Fjölmennt, símenntunar- og þekkingarmiðstöð

Í erindinu er fjallað um eigindlega viðtalsrannsókn sem unnin var 2018–2019. Tilgangur rannsóknarverkefnisins var að fá innsýn í hvernig aðstoðarfólk úr búsetuþjónustu fólks með þroskahömlun sem þarf mikinn stuðning sér fyrir sér hlutverk sitt í námi fólksins sem það aðstoðar. Þátttakendur í rannsókninni voru sex aðstoðarmenn sem höfðu reynslu af því að fylgja fólki sem tjáði sig með óhefðbundnum tjáskiptaaðferðum og þurfti mikinn stuðning á námskeið hjá Fjölmennt, símenntunar- og þekkingarmiðstöð. Rannsóknin byggir á félagslegum tengslaskilningi á fötlun, hugmyndafræðinni um sjálfstætt líf og hugmyndum um aðstæðubundið sjálfræði. Gögnin voru skoðuð í ljósi kenninga um yfirfærslu náms í fullorðinsfræðslu og hugmynda um virkan stuðning (e. active support). Í niðurstöðunum voru greind þrjú ólík hlutverk aðstoðarfólks sem nefnd eru milliliðurinn, stuðningsaðilinn og hinn hlutlausi fylgdarmaður. Í ljós kom að sjaldgæft væri að unnið væri markvisst að yfirfærslu náms á daglegt líf, að það skorti skýrari stefnu og eftirfylgni frá stjórnendum í búsetuþjónustunni og að upplýsingamiðlun og samstarf vegna námsins væri almennt ábótavant. Út frá niðurstöðunum má draga þá ályktun að bæta þurfi viðhorf til mikilvægis náms, sjálfræðis í námi og yfirfærslu náms fyrir fólk með þroskahömlun sem þarf mikinn stuðning. Auk þess þarf að bæta leiðbeiningar um hlutverk aðstoðarfólks og skapa aukinn vettvang til samstarfs. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að innleiðing nálgunar um virkan stuðning í búsetuþjónustu, ásamt breytingum á þjónustukerfinu í átt að notendastýrðri persónulegri aðstoð, geti stutt við hlutverk aðstoðarfólks í námi fatlaðs fólks og haft jákvæð áhrif á daglegt líf fólks með þroskahömlun sem þarf mikinn stuðning.

Æ sér gjöf til gjalda: Gagnkvæmni í námi og kennslu

Eiríksína Kr. Ásgrímsdóttir, rannsakandi, MVS, HÍ og Kristín Björnsdóttir, prófessor, MVS, HÍ


Í erindinu fjalla ég um niðurstöður rannsóknar sem snýr að starfi kennara á miðstigi í skólum án aðgreiningar. Um er að ræða eigindlega rannsókn þar sem tekin voru viðtöl við tólf grunnskólakennara í skólum um land allt. Markmið rannsóknarinnar var að skoða upplifun og reynslu kennara af starfi sínu í grunnskólum án aðgreiningar. Fjallað verður um niðurstöður rannsóknarinnar út frá kenningum franska fræðimannsins Marcel Mauss um gagnkvæm gjafaskipti. Niðurstöðurnar benda til þess að kennsla sé eins konar gjöf sem kennarinn gefur nemendum og samfélaginu. Á undanförnum misserum hefur orðið algengara að skólum sé líkt við fyrirtæki sem framleiða vörur, þar sem litið er á kennslu eða menntun sem vöru og nemendur sem neytendur. Vörur eru ólíkar gjöfum og hafa ekki sömu persónulegu áhrif á þann sem gefur og þann sem þiggur. Samkvæmt kenningum um gagnkvæm gjafaskipti er ætlast til þess að sá sem þiggur gjöfina endurgjaldi hana á einhvern máta. Að hafna gjöf eða að endurgjalda hana ekki getur leitt til tilfinninga sem tengjast skömm og refsingu. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að kennsla sem gjöf er oft endurgoldin með framförum, námsárangri, þakklæti nemenda og samfélags. Þegar gjöfin er endurgoldin þá hefur hún jákvæð áhrif á upplifun og reynslu kennara í starfi. Í erindinu verður sjónum einnig sérstaklega beint að því hvaða áhrif það hefur á upplifun kennara af starfi sínu þegar gjöfin er ekki endurgoldin. Rannsóknin var styrkt af Rannsóknasjóði Háskóla Íslands.

Ástríða, sekt og skömm í skólum án aðgreiningar

Kristín Björnsdóttir, prófessor, MVS, HÍ og Eiríksína Kr. Ásgrímsdóttir, rannsakandi, MVS, HÍ

Í þessu erindi verður fjallað um niðurstöður rannsóknar sem snýr að hrifum (e. affect) og hrifgjörningum (e. affected practices) í skólum án aðgreiningar. Um er að ræða eigindlega rannsókn þar sem tekin voru viðtöl við tólf grunnskólakennara í skólum um land allt. Sjónum var beint að því hvað knýr kennarana áfram, þ.e. hvað hefur áhrif á kennslu þeirra og hvernig þeir hafa áhrif á starf sitt, nemendur og samstarfsfólk. Hrifin (t.d. skömm og gleði) eru félagsleg, hafa áhrif á líðan kennara í starfi og móta vinnulag þeirra og hvernig þeir takast á við áskoranir í kennslu. Kennararnir sem tóku þátt í rannsókninni lýstu gildum sínum, starfsháttum og samskiptum við nemendur, foreldra og samstarfsfólk. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að kennslu geti fylgt tilfinningalegt erfiði (e. emotional labour). Kennarar geta þurft að bæla niður eigin tilfinningar til þess að mæta kröfum starfsins. Í samfélaginu og námskrám má greina væntingar um fjölbreytta og árangursríka kennsluhætti þar sem mæta þarf margbreytilegum nemendahópi á einstaklingsgrundvelli. Tilfinningalegt erfiði getur haft neikvæð áhrif á líðan kennara og starfsánægju þeirra auk þeirra vonbrigða sem geta skapast við að standa ekki undir væntingum sem „góður kennari“. Niðurstöður rannsóknarinnar benda einnig til þess að kennarar upplifi mikla ást á starfinu en því fylgja jákvæðar tilfinningar eða hrif sem tengjast því að vera hluti af samfélagi þar sem framlag kennara er vel metið. Í erindinu verður sjónum sérstaklega beint að innri og ytri áhrifum á störf kennara í skólum án aðgreiningar. Rannsóknin var styrkt af Rannsóknasjóði HÍ.