Skólastarf frá ýmsum sjónarhornum 

Kl. 10:10-11:40

Anna María Gunnarsdóttir

Tengsl mismunandi skólastarfs í fræðsluumdæmum og frammistöðu nemenda á PISA 2018

Þorlákur Axel Jónsson, aðjúnkt, HA  

Mismunandi frammistaða nemenda eftir búsetu á PISA-prófum rannsóknarverkefnis Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD), sem Menntamálastofnun hefur lagt fyrir á þriggja ára fresti, hafa þótt sýna að námsárangur sé meiri á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni. Niðurstöður samræmdra prófa hafa þótt benda til þess sama. Sé tekið tillit til efnislegrar, félagslegrar og menningarlegrar stöðu nemenda virðist sem muninn megi frekar rekja til ólíkrar félagslegrar samsetningar búsetusvæða en mismunandi skólastarfs á þessum svæðum. Er það svo? Er munur á skólastarfi milli fræðsluumdæma í ólíkum landshlutum og hver eru tengsl þess við frammistöðu nemenda á PISA, að teknu tilliti til þjóðfélagsstöðu og kyns nemenda? Unnið er með gögn úr PISA 2018 á Íslandi. Gerð var fjölstigagreining á mun milli fræðsluumdæma. Greinarmunur er gerður á þáttum sem lúta að einstaka nemendum og þeim sem snúa að skólastarfi. Fræðsluumdæmi eru borin saman. Niðurstöður verða kynntar í erindinu og rætt hvaða ályktanir megi draga af þeim.  

 

Raddir af vettvangi: Hvað segja kennarar í grunn- og framhaldsskólum og skólastjórnendur um margvísleg gögn tengd skólastarfi 

Anna María Gunnarsdóttir, varaformaður Kennarasambands íslands; Valgerður S. Bjarnadóttir, nýdoktor, MVS HÍ og Jón Torfi Jónasson, prófessor emeritus, MVS HÍ 

Rannsóknin varpar ljósi á hlutverk gagna í skólastarfi. Leitað verður svara við spurningunni hvernig margvísleg gögn hafa leiðsagnargildi í skólastarfi og tengjast hugmyndum kennara og stjórnenda um gæði skólastarfs. Gögnum var safnað í þremur hópviðtölum vorið 2021. Viðtöl voru tekin við kennara úr grunnskólum, framhaldsskólum og skólastjóra úr grunnskólum. Þátttakendur voru fjórir til sex í hverju viðtali. Í viðtölunum var notaður hálfopinn spurningarrammi sem var aðlagaður að hverjum hóp. Mikill tími fer í margs konar mat á skólastarfi, stundum án sýnilegs tilgangs. Á báðum skólastigum fer leiðsagnar- og símat vaxandi og gagnasöfnun um árangur og hæfni nemenda er fyrirferðarmikil. Sammerkt er að þátttakendum finnst samræmd próf tilgangslítil. Þeir telja þau ekki góðan mælikvarða á getu nemenda og skorta tengingu við námskrá. Viðmælendum fannst að leiðsagnargildi bæði innra og ytra mats væri takmarkað á báðum skólastigum. Kennarar nýta námsmat til rökstuðnings og til að tryggja sig, m.a. gagnvart nemendum og foreldrum, en voru einhuga um að komast mætti að svipaðri niðurstöðu með minni gagnaöflun. Gegnumgangandi var umhyggja fyrir velferð nemenda og gengi þeirra. Nokkuð skortir á samtal og skilning milli skólastiga og hugmyndir eru á reiki um hlutverk og vinnubrögð á „hinu“ skólastiginu. Gagnasöfnun og mat í skólastarfi er sumpart í þágu kerfisins frekar en nemenda og menntun nemenda líður fyrir kröfur um gagnasöfnun. Umræða um próf og samræmt námsmat ræðst af því er virðist af gildi mats og prófa fyrir kerfið fremur en gildi prófa fyrir nám nemenda. Mikilvægustu gögnin grundvallast á reynslu og verða til í samtali við nemendur. 

 

Að skapa sameiginlega merkingu, Leiðsagnarkennari gerir starfendarannsókn á leiðsögn sinni 

Dóra Marteinsdóttir, grunnskólakennari, Háteigsskóla 

Leiðsögn getur verið áhrifavaldur þegar kemur að því að styðja við bakið á kennaranemum og nýliðum. Mikilvægt er að kennaranemar/nýliðar fái góða upplifun og reynslu sem nýtist þeim í framtíðinni þar sem þeir eru að taka sín fyrstu skref í átt að ævistarfi sínu. Tilgangur rannsóknar minnar var að efla mig sem leiðsagnarkennari með aðferðum samvinnuleiðsagnar sem og að efla færni mína og fagmennsku sem leiðsagnarkennari með því að tengja saman fræði, framkvæmd, formlegt og óformlegt nám. Ritgerðin var byggð á starfendarannsókn en hún tók rúmlega eina önn í framkvæmd. Gögnin samanstanda af rannsóknardagbók og óstöðluðum einstaklingsviðtölum. Niðurstöður byggja á þemagreiningu á gögnunum. Helstu niðurstöður mínar eru þær að með því að vinna markvisst að því að byggja upp gott samstarf innan teymis hafi orðið til lítið námssamfélag sem byggði á grunni samvinnuleiðsagnar. Þemagreining leiddi í ljós hvað tímaskortur kennara hefur mikil áhrif og hversu erfitt er að forgangsraða leiðsögninni meðfram öðrum verkum. Einnig kemur fram hvernig aðstæður innan skólans geta haft mikil áhrif á tíma leiðsagnarkennara til að sinna störfum sínum. Breytingar eru einnig stór þáttur í niðurstöðum rannsóknarinnar. Má þar meðal annars nefna hvaða áhrif samkomutakmarkanir höfðu og að kennaranemi hafi fengið starf við skólann. Í niðurstöðum kom engu að síður fram að COVID-19 heimsfaraldurinn 2020-2021 hafi ekki haft eins mikil áhrif og ætla mætti. Í rannsóknarferlinu myndast samstarf á milli leiðsagnarkennara, samstarfskennara og kennaranema sem verður að námssamfélagi. Þar ná leiðsagnarkennari, samstarfskennari og kennaranemi að ræða saman um og ígrunda skólastarf.