Skólasaga og byggðaþróun

Háskóli Íslands

Skólasaga og byggðaþróun

1. október kl. 15:30 til 17:00 – Smelltu til að taka þátt á ZOOM!

Bragi Guðmundsson

Sveitakennarar við Húnaflóa 1887-1905

Bragi Guðmundsson, prófessor, HA

Á undanförnum árum hafa birst greinar og bókarkaflar sem fjalla um skipan fræðslumála til sjávar og sveita frá því á nítjándu öld. Yfirleitt er reynt að öðlast heildarsýn yfir þróunina um land allt og í sumum tilvikum hefur tekist að greina mun á milli landshluta. Eftir stendur að fáar tilraunir hafa verið gerðar til þess að rannsaka einstök svæði ofan í kjölinn. Í þessu erindi verður greint frá nýrri rannsókn á sveitakennslu í tveimur dreifbýlum en ólíkum nágrannahéruðum, Strandasýslu og Húnavatnssýslu, á árunum 1887–1905. Tímaafmörkun rannsóknarinnar byggir á gögnum sem varðveitt eru í Þjóðskjalasafni, fyrst í óformlegum skýrslum presta og prófasta vegna styrkbeiðna kennara til landsstjórnarinnar vegna kennslu sinnar, en frá 1895 á formlegum skýrslum sem tilgreina meðal annars nöfn, aldur og fjölda barna, námsgreinar og námstíma, kennslustaði og kennslutímabil kennarans. Úr efninu má vinna margt áhugavert og hér eru það kennararnir sjálfir sem eru undir smásjá. Nöfn 102 kennara koma fram í þeim gögnum sem fyrir liggja og mörg þeirra hafa hvorki birst í Kennaratali eða öðrum prentuðum gögnum um kennara. Sagt verður frá niðurstöðum um þá einstaklinga sem nefndir eru, hver aldur þeirra og undirbúningsmenntun var og leitað verður svara við því hvað þessir einstaklingar gerðu að ævistarfi sínu. Allar niðurstöður eru kyngreindar og leitast er við að greina sam- og sérkenni með kennurum við Húnaflóa og kollegum þeirra annars staðar.

Þjóðaruppeldið og skólatíminn

Jónína Einarsdóttir, prófessor, FVS, HÍ

Inngangur: Hugtakið þjóðaruppeldi á rætur í menningarlegri þjóðernishyggju 19. aldar og var gjarnan notað í textum um æskulýðsmál á fyrri helmingi 20. aldar. Gott þjóðaruppeldi var talið undirstaða sjálfstæðis og framfara. Það náði til almenns uppeldis og formlegrar menntunar. Lögð var mismikil áhersla á mikilvægi almenns uppeldis, t.d. innrætingu siðgæðis, vinnusemi, þjóðlegrar þekkingar og vandaðs málfars, og menntun á skólabekk. Sífelld lenging skólaársins, vitnað til sem skólatímans, olli því deilum. Markmið: Skoða og greina umræðu um áhrif lengingar skólatímans á sumardvöl þéttbýlisbarna í sveit og viðbrögð við lengingu skólaársins þegar leið á 20. öldina. Aðferðafræði: Eigindleg rannsókn og greining á viðtölum við 56 einstaklinga sem fóru í sveit sem börn allt frá millistríðsárunum til líðandi stundar. Auk þess voru samtímatextar um viðfangsefnið greindir.

Niðurstöður: Samtímis sem vistarskyldunni var aflétt við lok 19. aldar fengu sveitirnar það uppeldishlutverk að innræta þéttbýlisbörnum þá háttsemi sem þar tíðkaðist. Hverju þéttbýlisbarni var talið hollt að dvelja í sveit og tileinka sér vinnusemi, læra að umgangast dýr og náttúruna og tala gott íslenskt mál. Sveitabörn fengu styttri formlega menntun en þéttbýlisbörn enda talið að vel væri staðið að uppeldi þeirra. Einnig var þörf sveitanna mikil fyrir vinnuafl sveitabarna en líka sumardvalarbarna sem fóru gjarnan í sveit áður en skóla lauk að vori og mættu í skólann eftir að skólaárið hófst að hausti. Ályktun: Sú þekking sem fylgdi sumardvöl í sveit var talin skólanámi æðri fram yfir miðja 20. öld. Eins þótti eðlilegt að verða við þörf bænda á vinnuafli á álagstímum.

Staða og hlutverk þekkingarsetra í byggðaþróun

Anna Guðrún Edvardsdóttir, rannsakandi og sérfræðingur, Háskólinn á Hólum og Rorum ehf.

Á tíunda áratug 20. aldar beindust augu stjórnvalda að uppbyggingu þekkingarsamfélagsins. Í öllum landshlutum á Íslandi eru háskólasetur og/eða rannsóknarstofnanir sem ýmist starfa sjálfstætt eða sem hluti af stærri stofnunum. Ástæða þessarar uppbyggingar er m.a. sú að það var litið svo á að svæðisbundnir háskólar, háskólasetur eða rannsóknastofnanir í dreifðum byggðum gætu stuðlað að fjölgun íbúa, skapað störf fyrir háskólamenntað fólk og dregið úr brottflutningi, sérstaklega meðal ungs fólks og kvenna, með því að bjóða ýmsar námsleiðir í fjarnámi. Einnig var litið til hagrænna áhrifa ofangreindra stofnana. Í fyrirlestrinum verður fjallað um rannsóknarverkefnið Staða og hlutverk þekkingarsetra í byggðaþróun en að því verkefni standa þrjú þekkingarsetur. Verkefnið fékk styrk frá Byggðarannsóknasjóði, Mennta- og menningarmálaráðuneytinu og Sveitarfélaginu Hornafirði. Tilgangur verkefnisins var að rannsaka stöðu, hlutverk, árangur og áhrif þekkingarsetranna á nærsamfélagið. Gagna var aflað með einstaklings- og rýnihópaviðtölum auk rafrænnar spurningakönnunar og var bæði eigindlegri og megindlegri aðferðafræði beitt við greiningu gagnanna. Niðurstöður eru m.a. þær að setrin þrjú eru ekki ólík í uppbyggingu. Mismunandi áherslur eru í skipulagi og starfsemi setranna en þau starfa öll á sama sviði; þ.e. menntun, menningu, rannsóknum og nýsköpun. Staða þeirra í samfélögunum er sterk og orðræðan um þau er jákvæð en niðurstöður benda til þess setrin hafi ekki náð að tengjast ákveðnum hópum íbúa í nærsamfélaginu. Þjónusta við háskóla og fjarnema auk símenntunar er sá þáttur starfseminnar sem íbúar þekkja best en vitneskja íbúa um rannsóknir og nýsköpun er takmörkuð. Í fyrirlestrinum verður fjallað um rannsóknina, greint frá niðurstöðum og kynntar tillögur til úrbóta.

Meistarar og lærisveinar: Lærdómstextar og dídaktík miðalda

Arngrímur Vídalín, aðjúnkt, MVS, HÍ

Í þessum fyrirlestri verður fjallað um tvær kennslubækur frá miðöldum, aðra þýdda úr latínu (Elucidarius, eftir Honorius Augustodunensis, upphaflega samin á 11. öld), hina frumsamda á forníslensku í Noregi (Konungs skuggsjá, frá miðri 13. öld). Síðarnefnda ritið, sem er kennslubók fyrir verðandi konunga, þiggur form sitt og fræðsluaðferð frá hinu fyrrnefnda, sem er dídaktískt kristilegt fræðslurit. Áhrif Elucidarius á Konungs skuggsjá eru ótvíræð, en þau ná þó enn víðar, því samband meistara og lærisveina eins og það er sett fram í þessum ritum kemur einnig fyrir í íslenskum sagnaritum síðmiðalda. Eiríks- og Yngvars sögur víðförlu fjalla báðar um Norðmenn af góðum ættum sem leita Paradísar langt í austri. Á leið sinni kynnast þeir keisurum sem þjóna hlutverki fræðara, og nema þeir af þeim þær listir sem kennslubækurnar tvær miðla. Sá fróðleikur er að lokum það sem skilar þeim á leiðarenda og hjálpar þeim að ná markmiðum sínum. Að endingu verður drepið á hvað þessir textar geta sagt okkur um hugmyndir miðaldamanna um mikilvægi menntunar og lærdóms.