Skólakerfið og COVID-19 heimsfaraldurinn

Samheldni og umburðarlyndi kom okkur í gegnum COVID-19

Hjördís Sigursteinsdóttir, dósent, HA og Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, prófessor, FVS HÍ

Fyrri rannsókn á heilsu og líðan íslenskra leikskólakennara leiddi í ljós versnandi heilsu og líðan þeirra í kjölfar efnahagshrunsins á haustdögum 2008. Einnig kom í ljós að á árunum 2019 til 2021 jókst hlutfall leikskólakennara sem haldnir voru vinnutengdri streitu, fór úr 20% í 26%, og hlutfall með alvarleg kulnunareinkenni fór úr 26% í 30%. Markmið rannsóknarinnar er að öðlast dýpri skilning á því hvað það er í starfi leikskólakennara sem veldur aukinni streitu og kulnun í starfi. Tekin voru sex hálf stöðluð einstaklingsviðtöl við leikskólastjóra frá tveimur sveitarfélögum. Notuð var þemagreining til að greina gögnin. Helstu niðurstöður sýna að komin er mikil þreyta, bæði líkamleg og andleg, í leikskólakennara en þó virðist gæta ákveðinnar tilhlökkunar um að fara inn í eðlilegt skólastarf að sumarfríi loknu. Samheldni og umburðarlyndi er það sem kom leikskólakennurunum í gegnum þessi síðustu tvö ár sem COVID-19 hefur staðið yfir. Leikskólakennararnir unnu í minni hópum og þar mynduðust góð tengsl og margir urðu nánari fyrir vikið. Stjórnendur telja almennt að leikskólastigið eigi við mönnunarvanda að stríða, yngra starfsfólkið staldri stutt við og sé ekki eins helgað í starfi og þeir sem hafa menntað sig til starfsins. Hrós er mikilvægt og að umbuna fyrir vel unnin störf.  Rannsóknin sýnir mikilvægi jákvæðs hugarfars og að hrósa og umbuna fyrir vel unnin störf. Niðurstöðurnar geta orðið ávinningur sveitarfélaganna með tilliti til vinnuverndar og tengist ekki einungis efnahagskreppum eða alheimsfaröldrum, því álykta má að aukið álag og óöryggi vegna ýmissa annarra þátta geti alið af sér sambærilegt ástand.

Tengsl COVID-19 við heilsu og líðan grunnskólakennara

Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, prófessor, FVS HÍ og Hjördís Sigurjónsdóttir, dósent, HA

Rannsóknir hafa sýnt fram á viðvarandi starfsbundna streitu meðal grunnskólakennara. Heilsa og líðan þessa hóps er gríðarlega mikilvæg, ekki einungis fyrir kennarana sjálfa, heldur einnig nemendur þeirra og fjölskyldur.  Að stuðla að vinnutengdri vellíðan kennara er því mikilvægt menntapólitískt mál. Meðan á COVID-19 faraldrinum stóð voru kennarar oft í kastljósinu vegna vinnuaðstæðna þeirra.  Því er mikilvægt að rannsaka hvort faraldurinn hafi tengsl við vinnutengda líðan kennara. Tilgangur rannsóknarinnar er að skoða sjálfmetna heilsu og líðan grunnskólakennara frá 12 íslenskum sveitarfélögum rétt fyrir og rúmu ári eftir að COVID-19 faraldurinn kom upp. Við spyrjum: Hver var sjálfmetin streita meðal grunnskólakennara árið 2021 samanborið við árið 2019? Urðu breytingar á sjálfmetinni andlegri og líkamlegri heilsu grunnskólakennaranna á þessum tíma? Urðu breytingar á sjálfmetnum andlegum og líkamlegum einkennum? Rafrænn spurningalisti var sendur grunnskólakennurum árin 2019 og 2021. Sömu einstaklingum var fylgt eftir á þessu tímabili og þannig hægt að sjá þróun svara. Alls 920 grunnskólakennarar svöruðu báðum spurningalistunum. Helstu niðurstöður panelrannsóknarinnar sýna aukna streitu, versnandi andlega og líkamlega heilsu og aukin andleg og líkamleg einkenni árið 2021 samanborið við 2019. Niðurstöðurnar sýna einnig að hærra hlutfall kvenna en karla segist upplifa mikla streitu. Kynjamynstur fyrir andlega og líkamlega heilsu eru óljósari. Niðurstöðurnar sýna þannig að COVID-19 faraldurinn hafði neikvæð tengsl við heilsu og líðan grunnskólakennara. Sú ályktun er dregin að mikilvægt sé fyrir yfirvöld menntamála, hagsmunasamtök kennara og sérhvern grunnskóla að hafa vakandi auga með velferð og líðan kennara í kjölfar COVID-19 heimsfaraldursins. Einnig að stutt sé markvisst við heilsueflandi þætti starfsins.

Skyggnst í reynslu og umboð skólameistara og aðstoðarskólameistara framhaldsskólanna til nýrra afskipta í heimsfaraldri

Guðrún Ragnarsdóttir, dósent, MVS HÍ og Jón Torfi Jónasson, prófessor emeritus, MVS HÍ

COVID-19 faraldurinn hefur haft víðtæk áhrif á skólastarf um allan heim og skólastjórnendur hafa verið undir miklu álagi. Markmið erindisins er að öðlast skilning á verkefnum og samstarfi skólameistara og aðstoðarskólameistara við ólíka hagaðila úr ytra og innra umhverfi framhaldsskólanna á fyrsta ári faraldursins og spegla niðurstöðurnar í umboði þeirra til aðgerða. Stuðst er við gögn úr tveimur spurningalistakönnunum frá Menntavísindastofnun ásamt sex viðtölum við skólameistara og aðstoðarskólameistara úr þremur framhaldsskólum. Gögnin voru greind út frá nýstofnanakenningum (e. neo-institutional theories). Niðurstöðurnar sýna að vissir þættir skólastarfs afstofnanavæddust og breyttust mikið í faraldrinum. Í því samhengi juku skólastjórnendur umboð sitt til áhrifa. Áherslur ytri hagaðila styrktu aftur á móti stofnanaumgjörð skólanna og sem aftur dró úr umboði þeirra til áhrifa annarra þátta skólastarfsins. Mikið álag var á skólastjórnendum á tímabilinu. Samskiptaform milli ólíkra aðila breyttust og verkefni og verkaskipting þróuðust eftir því sem á leið. Samhliða auknu ákalli um kennslufræðilegan stuðning af hálfu kennara tóku stjórnendur forystu um vissa tæknilega skipulagsþætti kennslunnar. Þeir gengu þó ekki lengra en umboð þeirra náði. Þannig báru þeir virðingu fyrir faglegu sjálfstæði kennara. Viss gjá myndaðist á milli stjórnenda og annarra, einkum í upphafi faraldursins, sem aftur ýtti undir einangrun stjórnenda í starfi. Niðurstöðurnar draga athygli að eðli skóla sem stofnana annars vegar og skipulagsheilda hins vegar og vekja áleitnar spurningar m.a. um álag, verkaskiptingu og umboð stjórnenda til aðgerða. Að auki dregur rannsóknin fram veikleika í samskiptum á milli ólíkra hópa utan og innan skólasamfélagsins í faraldrinum.