Skapandi grunnskóli – Námsefni unnið við listkennsludeild Listaháskóla Íslands

Háskóli Íslands

Skapandi grunnskóli – Námsefni unnið við listkennsludeild Listaháskóla Íslands

1. október kl. 10:45 til 12:15 – Smelltu til að taka þátt á ZOOM!

Rannsóknarstofa í listkennslufræðum

Gunndís Ýr Finnbogadóttir

Skapandi dans – handbók fyrir kennara

Ingunn Elísabet Hreinsdóttir, nemi, LHÍ

Tilgangur þessa meistaraverkefnis er að stuðla að fjölbreyttri danskennslu í grunnskólum og markmið þess að búa til verkfæri, í formi handbókar, sem kennarar geta nýtt. Handbókinni er ætlað að gefa kennurum hugmyndir að skapandi starfi í gegnum dans þannig að þeir geti búið nemendum aðstæður til þess að kynnast fjölbreytileika dansins og skapandi hliðum hans. Í handbókinni er unnið út frá skapandi dansi en það er dansform þar sem áhersla er lögð á hreyfingu sem tjáningu. Nemandinn er í aðalhlutverki og notar færni sína og reynslu til þess að skapa. Grunnstoðir handbókarinnar eru hugmyndir tveggja fræðimanna í dansi; Rudolf Laban og Anne Green Gilbert. Meginviðfangsefni þeirra er líkaminn ásamt mikilvægi hreyfingar og hvernig hún mótar skilning okkar á umheiminum. Kennslufræði bókarinnar byggir á kenningum Howard Gardner og Lev Vygotsky. Þeir lögðu báðir áherslu á einstaklingsmiðað nám með því að nýta ólíkar kennsluaðferðir til að styðja við nemendur. Í handbókinni er einnig fjallað um hvernig nemandinn lærir í gegnum líkamann með sómatískri nálgun. Höfundur kenndi handbókina í grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu, ásamt því að fá tvo danskennara sem starfa í grunnskóla til að prufukeyra efnið. Aðferðir starfendarannsókna, viðtöl og dagbókarfærslur, voru notaðar til að móta og þróa handbókina. Niðurstöður sýndu að handbókin vekur danskennara til umhugsunar um skapandi vinnu og nýtist þeim sem gagnabanki til þess að styðjast við í kennslu í skapandi dansi, ásamt því að gefa kennaranum færi á að leiðbeina og hvetja nemendur til eigin sköpunar. Hún gegnir því hlutverki sínu sem verkfæri kennarans í skapandi dansi.

Óravíddir: Ferðalag um undraheima stærðfræðinnar: Rúmfræðinámsefni fyrir alla aldurshópa

Jóhanna Ásgeirsdóttir, nemi, LHÍ

Upptaka af erindi

Óravíddir er námsefni sem samið var sem lokaverkefni til MA- gráðu í listkennslu við Listaháskóla Íslands. Námsefnið felur í sér málverk sem er einnig parísarhopp, smáforrit og verklegar æfingar. Heitið Óravíddir vísar til þess að það fjallar um undraheima stærðfræðinnar, nánar til tekið stærðfræðilegar víddir. Verkefnin fela í sér skoðun á hringjum, marghyrningum og margflötungum sem grundvöll fyrir að kynna hugmyndina um æðri víddir. Áhersla er lögð á samtal og samvinnu í gegnum leiki með áþreifanleg verkfæri. Í ritgerðinni eru nokkur grunnatriði rúmfræðinnar stuttlega kynnt ásamt sögu fagsins. Síðan er greint frá kennslufræðilegum bakgrunni verkefnisins í kenningum Jean Piaget, Lev Vygoskty og Jerome Bruner. Einnig er fjallað um skrif hjónanna Dina og Pierre van Hiele, og líkan þeirra sem lýsir rúmfræðikennslu. Kenningar þessara fræðinga, sem allir störfuðu um miðja tuttugustu öld, eru síðan tengdar við birtingarmyndir þeirra í nútímakennslu. Tengingar eru meðal annars gerðar við aðalnámskrá, kennslubók í kennaranámi og daglegt líf eins stærðfræðikennara yngsta stigs á höfuðborgarsvæðinu. Verkefnin voru prófuð með nemendum á þremur mismunandi aldursstigum (yngsta-, mið- og unglingastigi) með nemendum Kópavogsskóla og í Háskóla unga fólksins. Möguleikar eru til þess að þróa námsefnið áfram þannig að kennarar, nemendur og almenningur geti gengið að efninu og farið að leika sér í undraheimi stærðfræðinnar.

Essið: Ræktun jákvæðrar sjálfsmyndar á umrótatímum – áhrif dagbókarskrifa á unglingsstelpur í hópastarfi í félagsmiðstöð og þróun námsefnis því tengdu

Kristín Dóra Ólafsdóttir, nemi, LHÍ

Verkefnið mitt, Essið, vann ég í sértæku hópastarfi í félagsmiðstöð í Reykjavík. Helstu markmið voru að vinna að uppbyggingu sjálfstrausts hjá stelpum í 10. bekk. Hópurinn var starfræktur á vorönn 2019 og 2020 undir minni stjórn og með aðstoð Brynju Helgadóttur, tómstunda- og félagsmálafræðings. Þær aðferðir sem ég notaði í hópastarfinu byggja á persónulegri reynslu minni af breyttu sjálfsmati með hugarfarsbreytingu, dagbókarskrifum og skapandi vinnu. Ég studdist við rannsóknir sálfræðinga á gagnsemi skrifa í sálfræðimeðferðum unglinga. Þessar aðferðir vildi ég prófa með hóp sem er á miklum krossgötum í lífi sínu, á leið úr grunnskóla í menntaskóla.

Félagsmiðstöðvar og það starf sem fer fram innan þeirra er hluti af heildstæðu námi barna og unglinga. Í hópastarfinu Essinu prófaði ég verkefni sem ég samdi með það að markmiði að deila útkomunni í kennsluleiðbeiningum fyrir aðra sem vilja leiða svipað starf. Þær leiðbeiningar heita einnig Essið. Framgang hópastarfsins 2019 og persónulegan ávinning stelpnanna mældi ég með þremur spurningalistum yfir tímabilið sem ég greindi jafnóðum. Þar kom í ljós að allar sem voru virkar í hópnum og unnu verkefnin með okkur fundu fyrir jákvæðum áhrifum við að skrifa í dagbók og mæta á fundina í hópastarfinu. Í hópnum sem við vorum með 2020 gátum við byggt á fyrri reynslu og notað kennsluleiðbeiningarnar sem ég bjó til árið áður.