Sjálfsþekking nemenda og kennara

Háskóli Íslands

Sjálfsþekking nemenda og kennara

1. október kl. 9:00 til 10:30 – Smelltu til að taka þátt á ZOOM!

Rannsóknarstofa í listkennslufræðum

Kristín Valsdóttir

Þögul þekking og ígrundun í kennaramenntun

Kristín Valsdóttir, deildarforseti, LHÍ

Í doktorsverkefni mínu rannsakaði ég lærdómsferli listamanna í kennaranámi. Tilgangur rannsóknarinnar var að varpa ljósi á þær áskoranir sem mæta nemendum er koma inn á nýjan vettvang með það að markmiði að koma betur til móts við þarfir þeirra, byggt á þeirra fyrri reynslu og menntun. Rannsóknaraðferðin sem beitt var er grunduð kenning. Gagna var aflað frá 22 fyrsta árs nemendum við listkennsludeild sem skiluðu inn dagbókum og lífssöguviðtöl voru tekin 15 starfandi listamenn og listkennara. Hluti af meginniðurstöðum er að sú vegferð að tileinka sér nýja sjálfsmynd sem listkennari krefst tíma. Tíminn er þó aðeins einn þáttur í mótuninni, því það að líta til fyrri reynslu og menntunar nemenda í skipulagi, leggur grunninn að því að listamenn tileinki sér nýjan vettvang og nýja sjálfsmynd sem listkennarar. Við greiningu gagnanna voru niðurstöður m.a. flokkaðar út frá þrem þrepum sem þekkt eru úr félagsfræðinni. Hið fyrsta vísar til lífssagna nemenda, reynslu og þróunar sjálfsmyndar þeirra (micro). Annað til þátttöku þeirra í námsmenningu í listkennslunáminu (meso) og þriðja tengist stærra samhengi, s.s. vettvangi lista- og menntamála (macro). Saman mynduðu þessir flokkar nokkuð heildræna mynd af því ferli listamanna – að verða listkennari. Í þessu erindi verður sjónum beint að einstaklingnum (micro) og niðurstöðum rannsóknarinnar um hvernig hann þroskar með sér nýja sjálfsmynd sem listkennari. Fjallað verður um gildi þögullar þekkingar (e. tacit knowledge) og að finna leiðir að sjálfsþekkingu. Þar er sérstaklega unnið með tvær meginhugmyndir; ígrundun-í-aðgerð (e. reflection-in-action) og ígrundun-á-aðgerð (e. reflection-on-action) og tengingu þeirra við lærdómsferli kennaraefna.

Líkamleg gagnrýnin hugsun

Guðbjörg R. Jóhannesdóttir, lektor, LHÍ og Sigríður Þorgeirsdóttir, prófessor, HUG, HÍ

Rannsóknarverkefnið Líkamleg gagnrýnin hugsun (ect.hi.is) samanstendur af alþjóðlegum hóp fræðimanna sem kannar líkamlegar forsendur gagnrýninnar hugsunar. Í okkar rannsóknum innan þessa verkefnis höfum við lagt áherslu á að víkka út mannskilning hinnar gagnrýnu hugsandi veru í ljósi nýrrar þekkingar vitsmunafræða á samspili vitsmuna, tilfinninga og aðstæðna. Það skapar forsendur til að þróa nýjar aðferðir þjálfunar gagnrýninnar hugsunar sem vinna gagngert með dýpri lög merkingar („felt meaning“ og mismunandi stig skynjunar (sjón, heyrn, snertingu og umhverfi)) hjá nemendum sjálfum. Í erindi okkar munum við kynna aðferðir eins og „Thinking at the Edge“, djúpa hlustun, samkennd, „focusing“, örfyrirbærafræði (e. microphenomenology) og hljómun (e. “resonance”) til að gefa innsýn inn í þessar nýju áherslur í þjálfun gagnrýninnar hugsunar.

Mannkostamenntun, listir og ljóð

Ingimar Ó. Waage, lektor, LHÍ og Kristian Guttesen, doktorsnemi

Með samspili aðferða mannkostamenntunar, sem er verkleg dygðasiðfræði í skólastofunni, og listrænnar sköpunar, verður enn fremur kynnt hvernig megi styðja nemendur í að hugsa sjálfir, dæma ekki of fljótt, kanna eigin forsendur hugsunar og standa með sjálfum sér og öðrum. Mannkostamenntun er reist á samtímakenningum um aristótelíska dygðasiðfræði þar sem vitsmunaleg ígrundun, geðshræringar og virkur vilji skipta höfuðmáli en sýnt hefur verið fram á mikilvægi lista og sköpunar við að efla meðvitund um dygðir, lesti og þau innri átök sem einstaklingurinn getur átt í. Listirnar snerta mikilvæg svið í hugmyndum Aristótelesar um fullkomna dygð, einkum vegna tengsla listanna við geðshræringar enda eru þær nátengdar vitsmunum okkar, sjálfsvitund og tilfinningalífi. Allar þessar aðferðir miða að því að virkja í senn skapandi og gagnrýna hugsun, að hjálpa nemendum að skilja betur sjálfa sig og aðra og gera sig skiljanlega. Sagt verður frá niðurstöðum úr tveimur íhlutunarrannsóknum á vettvangi íslenskukennslu og sjónlistakennslu. Rannsóknarsniðið er blönduð aðferð og er byggt á skyldum rannsóknum sem gerðar hafa verið við Háskólann í Birmingham. Íhlutanirnar stóðu í sex og átta vikur í tveimur íslenskum grunnskólum.

Gagnagreining á textum og myndverkum byggðist á þemagreiningu og myndgreiningu. Niðurstöður gefa sterkar vísbendingar um að listræn og skapandi nálgun á siðferðilegum álitamálum gefi nemendum tækifæri til að hugsa dýpra og lengra um slík álitaefni. Þessar aðferðir virðast hjálpa nemendum að skilja sjálfa sig og aðra betur, auk þess öðlast kennarar mun betri innsýn í skilning og sjónarhorn nemenda en það styður ótvírætt við nemendamiðað nám og skóla margbreytileikans.