Sjálfbærni, samvinnunám og siðfræði

Háskóli Íslands

Sjálfbærni, samvinnunám og siðfræði

1. október kl. 15:30 til 17:00 – Smelltu til að taka þátt á ZOOM!

Málstofustjóri: Hervör Alma Árnadóttir

Menntun til sjálfbærni – Staða Íslands

Bryndís Sóley Gunnarsdóttir, meistaranemi, HA, Sólveig María Árnadóttir, meistaranemi, HA, Bragi Guðmundsson, prófessor, HA og Ólafur Páll Jónsson, prófessor, MVS, HÍ

Í erindinu verður sagt frá rannsókn sem er hluti af samnorrænu verkefni á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar. Markmiðið er að kanna hvernig Norðurlöndunum hefur tekist að innleiða heimsmarkmið 4.7 sem kveður á um að „eigi síðar en árið 2030 verði tryggt að allir nemendur öðlist nauðsynlega þekkingu og færni til þess að ýta undir sjálfbæra þróun, meðal annars með menntun sem er ætlað að efla sjálfbæra þróun og sjálfbæran lífsstíl, með því að hlúa að friðsamlegri menningu, með mannréttindum, kynjajafnrétti, alheimsvitund, viðurkenndri menningarlegri fjölbreytni og framlagi menningar til sjálfbærrar þróunar.“ Í rannsókn okkar einblíndum við á stöðu Íslands. Kannað var hvað lög, reglugerðir og námskrár segja um menntun til sjálfbærni á Íslandi. Auk þess var farið á vettvang og litast rækilega um innan tveggja grunnskóla með sérstöku tilliti til stöðu sjálfbærnimenntunar. Gerð var textagreining á lögum um grunnskóla, Aðalnámskrá grunnskóla, skólastefnum sex sveitarfélaga og skólanámskrám þátttökuskólanna tveggja. Rýnt var í gögnin með tilliti til umfjöllunar um menntun til sjálfbærni, mannréttindi, kynjajafnrétti, menningarlega fjölbreytni og alheimsvitund. Til að fá glögga innsýn í raunverulegt skólastarf í tengslum við ofangreind hugtök voru tekin rýnihópaviðtöl við nemendur, kennara og skólastjórnendur í tveimur grunnskólum, það er Síðuskóla á Akureyri og Þelamerkurskóla í Hörgársveit. Í erindinu verður fjallað um gildi, markmið og tilgang rannsóknarinnar. Sérstök áhersla verður lögð á niðurstöður hennar um stöðu Íslands þegar kemur að menntun til sjálfbærni og hvernig þátttökuskólarnir tveir vinna að sjálfbærnimenntun. Þar kemur margt áhugavert í ljós og eftirtektarvert er hversu margar ólíkar leiðir eru færar að sama marki.

 

Siðfræðilegar áskoranir í rannsóknum með börnum

Hervör Alma Árnadóttir, doktorsnemi, MVS, HÍ

Síðustu tvo áratugi hefur talsvert verið unnið að rannsóknum á viðhorfum barna og ungmenna hér á landi en minna verið unnið með börnum að rannsóknum er varða reynslu eða upplifun þeirra af félagslegum aðstæðum sínum. Sérstaklega á þetta við ef viðfangsefnið er metið viðkvæmt. Rannsakendum ber að fylgja ákveðnum siðareglum og leiðbeiningum um gerð rannsókna og finna leiðir til jafnvægis á milli þess að standa vörð um velferð viðmælenda um leið og þeir eru hvattir til virkrar þátttöku. Markmiðið með erindinu er að fjalla um siðferðislegar áskoranir sem rannsakendur mæta þegar unnið er að rannsóknum með börnum sem búa við félagslega erfiðar aðstæður. Tilgangurinn er að draga saman reynslu og aðferðir til lausna frá rannsakendum sem skoðað hafa það efni á síðustu árum. Gagna var aflað með ítarleit í alþjóðlegum gagnasöfnum. Leitað var eftir ritrýndum greinum sem birtar voru á árunum 2016–2020. Þær sem uppfylltu sett viðmið voru 17 fræðigreinar. Niðurstöður benda til þess að rannsakendur mæti ýmsum áskorunum við undirbúning rannsókna þar sem óskað er eftir þátttöku barna. Þessar áskoranir varða fyrst og fremst opinber leyfi, aðgengi að börnum og aðferðir við að vinna með börnum. Hvetja þarf til virkrar umræðu á milli rannsakenda og vettvangs um rannsóknir sem eru unnar með eða af börnum með það að leiðarljósi að finna lausnir á hindrunum sem gæti síðan leitt til fjölgunar slíkra rannsókna á Íslandi.

 

Samvinnunám og leiðsagnarnám

Sigurrós Erlingsdóttir, framhaldsskólakennari, Menntaskólinn við Sund

Rannsóknin snýr að tilraun til að koma á leiðsagnarnámi í kennslu. Um er að ræða starfendarannsókn þar sem byggt er á kenningum Jean McNiff um starfendarannsóknir. Markmiðið var að innleiða leiðsagnarnám í áfanga um íslenskar fornbókmenntir með tvenns konar hætti, annars vegar samvinnunámi og hins vegar spurningum. Við innleiðingu leiðsagnarnáms í samvinnunáminu var ætlunin að nemendur fengju jafnóðum munnlega endurgjöf í hópastarfinu og þeir gæfu hver öðrum og kennara líka endurgjöf svo allir gætu gert betur og hópurinn og einstaklingarnir næðu meiri árangri. Markmiðið með spurningum til nemenda var að fá þá til að móta hugmyndir sínar í orðum og að fá endurgjöf frá nemendum með því meðal annars að heyra hvaða skilning þeir legðu í viðfangsefnið. Spurningaleiðin er skjótvirk og afkastamikil og hefur strax áhrif. Í erindinu verður lýst aðferðum sem prófaðar voru og hvernig verkefnið hefur þróast smám saman. Einnig verður aðeins komið inn á hvað varð um leiðsagnarnámið eftir að samkomubann skall á. Kenning Dylan Wiliam um leiðsagnarmat er höfð til hliðsjónar sem og kenningar John Hattie og Shirley Clarke um endurgjöf sem hornstein í kennslunni. Helstu niðurstöður eru þær að nýrri nálgun er beitt við fyrirlögn verkefna og framsetningu, bæði með gátlistum og matskvörðum og með því að sýna nemendum dæmi um hvernig lausn eða niðurstaða gæti verið. Jafnframt hefur notkun spurninga orðið markvissari. Áfram verður haldið með innleiðingu leiðsagnarnáms sem leiðir til virkari þátttöku nemenda í kennslustundum.