Samskipti og uppeldi (seinni hluti tvískiptrar málstofu)

Háskóli Íslands

Samskipti og uppeldi (seinni hluti tvískiptrar málstofu)

Stofa K-204 kl. 09:00 til 10:30

„Það er erfitt að lasta foreldra fyrir að hafa ekki tíma fyrir börn sín.“ Þörf á uppeldisfræðslu fyrir foreldra: Sjónarhorn deildarstjóra leikskóla

Hrönn Valgeirsdóttir, meistaranemi, MVS, HÍ og Hrund Þórarins Ingudóttir, lektor, MVS, HÍ

Foreldrahlutverkið er eitt af mest krefjandi verkefnum í lífi fullorðinna. Miklar samfélagslegar breytingar hafa átt sér stað síðustu áratugi. Flestir foreldrar eru útivinnandi og dvelja langflest íslensk 2-5 ára börn lungann úr deginum á leikskólum. Þá hefur streita aukist í samfélaginu. Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvort aukin þörf væri á fræðslu um uppeldi og stuðningi fyrir foreldra barna á aldrinum 2-5 ára út frá sjónarhorni deildarstjóra leikskóla. Eigindlegri rannsóknaraðferð var beitt við söfnun og greiningu gagna. Tekin voru tíu viðtöl við deildarstjóra víðs vegar á landinu. Meginniðurstaða rannsóknarinnar er að íslenskt samfélag hefur töluverð áhrif á foreldra í sínu hlutverki. Þátttakendur telja að miklar samfélagslegar kröfur séu til foreldra um leið og þeir eiga að sinna foreldrahlutverkinu óaðfinnanlega. Niðurstöður benda til að þessar kröfur hafi áhrif á samveru foreldra og barna og langir vinnudagar foreldra krefjast þess að börn dvelji stóran part af deginum í leikskóla. Agavandamál virðist vera að aukast að mati þátttakenda sem og óöryggi margra foreldra í uppeldishlutverkinu. Foreldrar virðast leita til deildarstjóra í auknum mæli vegna ráða varðandi uppeldi. Þátttakendur töldu allir aukna þörf vera á uppeldisfræðslu og stuðningi fyrir foreldra ungra barna. Niðurstöður rannsóknarinnar ættu að nýtast í stefnumótun fyrir foreldrafræðslu og nýtast þannig foreldrum ungra barna.

Klámnotkun íslenskra unglinga

Guðbjörg Hildur Kolbeins, stundakennari, Félagsvísinda- og lagadeild, Háskólinn á Bifröst

Á fyrstu árum þessarar aldar átti Norræna ráðherranefndin frumkvæðið að viðamikilli rannsókn á ungu fólki og klámi á Norðurlöndunum. Var sjónum sérstaklega beint að aldurshópnum 14 til 18 ára. Meginmarkmið þeirrar rannsóknar, sem hér er kynnt, var að endurtaka netkönnun sem upphaflega var framkvæmd meðal íslenskra unglinga haustið 2006. Um var að ræða slembiúrtak úr þjóðskrá. Í grunninn var stuðst við sama spurningalista og áður en jafnframt var tekið tillit til þeirra miklu tæknibreytinga sem átt hafa sér stað undanfarinn áratug. Jafnréttissjóður Íslands veitti styrk til verkefnisins og var könnunin lögð fyrir haustið 2017. Fengust svör frá rúmlega 300 unglingum eins og í fyrri rannsókn. Niðurstöður sýndu m.a. að 85% unglinganna sögðust hafa séð klám og tæplega helmingur hafði aldrei rætt við foreldra sína um þess konar efni. Tæpur þriðjungur skoðar klám nokkrum sinnum í viku af fúsum og frjálsum vilja og 60% nota símann til þess. Þá kom einnig í ljós að klám er fyrst og fremst skoðað í einrúmi heima hjá sér, og þá helst til sjálfsfróunar en líka til gamans og af forvitni. Um 30% sögðu að klám gæfi ranga mynd af kynlífi en einn af hverjum tíu þátttakendum hafði samt prófað eitthvað sem hann/hún hafði séð í klámi og fundist það spennandi. Rúmur helmingur svarenda taldi að klám ætti að vera löglegt með takmörkunum. Í heildina voru niðurstöðurnar nokkuð í samræmi við fyrri rannsóknir á klámnotkun unglinga og ungs fólks hér á landi.