Samskipti – Lífsleikni

Háskóli Íslands

Samskipti – Lífsleikni

2. október kl. 15:30 til 17:00 Smelltu til að taka þátt á ZOOM!

Eyrún María Rúnarsdóttir

Samskiptaverkefnin Krakkaspjall og Unglingaspjall

Sigríður Ingadóttir, sérfræðingur, Miðstöð skólaþróunar, HA

Samskiptaverkefnin Krakkaspjall og Unglingaspjall, eru vinsæl námskeið á vegum Miðstöðvar skólaþróunar við Háskólann á Akureyri. Um það bil 150 kennarar og/eða náms- og starfsráðgjafar víðs vegar um landið hafa setið námskeiðin. Verkefnin eiga það sameiginlegt að nemenda- og kennarahópar á Akureyri prufukeyrðu efnið áður en það var tekið í almenna notkun.  Bæði verkefnin taka mið af því að nemendur þjálfist í og læri að taka þátt í samræðum og byggi undir hæfni sem nýtist þeim í daglegum samskiptum. Verkefnin byggja á fundum sem taka á ýmsum viðfangsefnum eins og sjálfstyrkingu, tjá skoðanir sínar og virða skoðanir annarra og efla samskiptahæfni. Á erindinu  verða verkefnin kynnt, sagt frá markmiðum þeirra og gerð grein fyrir niðurstöðum úr rafrænni námskeiðskönnun þátttakenda. Spurningarnar í námskeiðskönnuninni snúa almennt um notagildi verkefnanna, hvort og hvernig þau hafa nýst í kennslu með nemendum. Einnig verður gerð grein fyrir því hvort þátttakendur hafi nýtt sér námskeiðsmat fyrir nemendur sem fylgir verkefnunum.

Að rækta nemendur til góðra verka: Hvert er viðhorf kennara til lífsleiknikennslu í grunnskólum?

Íris Kristín Smith, grunnskólakennari, Háteigsskóli og Ása Helga Proppé Ragnarsdóttir, aðjúnkt, HÍ

Erindi  þetta fjallar um rannsókn sem unnin var í tengslum við lífsleiknikennslu. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna viðhorf kennara til lífsleiknikennslu í grunnskólum landsins og öðlast um leið þekkingu á stöðu hennar í skólum. Rannsóknin var bæði eigindleg og megindleg. Rannsóknarspurningin var: Hvert er viðhorf kennara til lífsleiknikennslu í grunnskólum?

Í megindlega hluta rannsóknar var sendur út spurningalisti til lífsleiknikennara í tuttugu grunnskólum á landinu. Skólarnir voru valdir með tilviljunarúrtaki. Í eigindlega hluta rannsóknar var valið úrtak, framkvæmd var vettvangsathugun þar sem  fylgst var með lífsleiknikennslu og tekin voru viðtöl við lífsleiknikennara. Gagnaöflun fór fram í októbermánuði árið 2019. Í niðurstöðum má sjá að viðhorf til lífsleiknikennslu er frekar jákvætt hjá svarendum, bæði í könnuninni og hjá viðmælendum. Skiptar skoðanir voru á því hve lífsleikni ætti að fá langan tíma á stundaskrá, hvort ein kennslustund væri nægileg eða hvort þær ættu að vera fleiri.  Margir viðmælenda töldu að það ætti að íhuga hvort það væri æskilegt að kenna lífsleikni 80 mínútur eða tvær kennslustundir á viku þar sem kennsluefni lífsleikninnar er mikið og erfitt að komast yfir það á 40 mínútum.  Niðurstöður rannsóknarinnar gefa vonandi  innsýn í viðhorf og skoðanir  kennara í tengslum við lífsleiknikennslu sem væntanlega geta nýst við þróun greinarinnar.

„Ég á ekki enn Íslendinga að vinum.“ Reynsla ungmenna af erlendum uppruna af vinatengslum

Eyrún María Rúnarsdóttir, nýdoktor og aðjúnkt MVS, HÍ og Anh-Dao Tran, nýdoktor og aðjúnkt, MVS, HÍ

Rannóknir benda til þess að ungmenni af erlendum uppruna kjósi frekar að sækja stuðning til vina sem hafa sama uppruna og að þeim geti þótt erfitt að eignast íslenska vini. Lítið er þó til af íslenskum rannsóknum á efninu. Í erindinu er leitast við að bæta úr þessum skorti og varpa ljósi á reynslu og upplifun ungmenna af erlendum uppruna af tengslum við vini. Til þess verða kynntar niðurstöður tveggja nýlegra doktorsrannsókna um efnið en styrkur þess að skoða þær saman er að í annarri var beitt megindlegri aðferð en eigindlegri aðferð í hinni. Þátttakendur í megindlegri rannsókn voru 806 ungmenni á aldrinum 14—16 ára en í eigindlegu rannsókninni tóku þátt 13 ungmenni á aldrinum 18–25 ára. Markmið erindis er að fjalla um upplifun ungmenna á breiðu aldurssviði og að skoða bæði almenn mynstur vináttu og að draga fram reynslu og upplifun ungmenna af þeim tengslum. Helstu niðurstöður eru að þó að bæði ungmenni sem hafa íslenskan og erlendan uppruna hafi sýnt áhuga á að tengjast ungmennum af öðrum uppruna vinaböndum var algengara að vinir væru af sama uppruna. Ungmenni af erlendum uppruna fannst þeir ekki hafa aðgang að vinum af íslenskum uppruna og þeir gátu frekar sótt sér tilfinningalegs stuðnings til annarra ungmenna af erlendum uppruna. Hægt er að hlúa að og skapa betri tækifæri til samgangs og tengsla milli ungmenna af ólíkum uppruna. Mikilvægi þess felst ekki hvað síst í því að þannig er unnt að auka samkennd og skilning á aðstæðum annarra.