Samfélagsmiðlar, ofbeldi og nám í deiglu – Tómstundafræði í tuttugu ár

Kl. 13:40-15:10

Rannsóknarstofa í tómstundafræði

Eygló Rúnarsdóttir

Gæði og gagnsemi náms í tómstunda- og félagsmálafræði: Rannsókn meðal brautskráðra nemenda 2013–2020

Jakob Frímann Þorsteinsson, aðjúnkt, MVS HÍ og Guðmundur Ari Sigurjónsson

Árið 2021 eru tuttugu ár síðan nám í tómstunda- og félagsmálafræði hófst og því verður gerð rannsókn meðal brautskráðra nemenda. Hún er framhald á rannsókn frá 2013 og náði til 96 nemenda sem þá höfðu brautskráðst með BA-gráðu í tómstunda- og félagsmálafræði frá Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands á árunum 2005–2012. Til og með árinu 2020 hafa 296 nemendur útskrifast með BA-gráðu í faginu og því nær rannsóknin núna til um 200 nemenda. Markmiðið er að skoða gæði og gagnsemi námsins, hvernig það hefur nýst þeim í lífi og starfi, og sem undirbúningur undir frekara nám. Tilgangur rannsóknarinnar er að draga upp heildstæða mynd af viðhorfum fyrrum nemenda og með hvaða hætti hægt er að þróa námið og bæta þannig að það sé í takt við samtímann og góður grunnur fyrir framtíðina. Notast verður við þýddan og staðfærðan spurningalista frá Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands sem byggir á spurningalistanum Destination of leavers from higher education sem HESA (The Higher Education Statistics Agency) þróaði. Bætt verður við nokkrum spurningum er tengjast sérstöðu námsins og afmörkuðum þáttum eins og vettvangsnámi. Spurningalistakönnun var send út í byrjun ágúst 2021 til brautskráðra nemenda áranna 2013 til 2020. Einnig verða framkvæmd þrjú rýnihópaviðtöl til að fá fyllri lýsingu á reynslu nemenda og hugmyndir þeirra. Í erindinu verða kynntar frumniðurstöður úr spurningalistakönnuninni og rýnihópaviðtölunum.

 

Vettvangsnám nemenda í tómstunda- og félagsmálafræði: Raddir nemenda

Steingerður Kristjánsdóttir, aðjúnkt, MVS HÍ

Í þessu erindi verður sjónum beint að upplifun útskrifaðra nemenda í tómstunda- og félagsmálafræði af námi á vettvangi. Tekið er sérstaklega til þeirra þátta, sem snúa að leiðsögn þeirra í náminu og tækifærum þeirra til að þróa eigin starfskenningu og fagvitund. Gerð verður grein fyrir niðurstöðum spurningakönnunar, sem send var nemendum sem útskrifuðust á árunum 2012 til 2020. Í þeirri könnun var spurt um reynslu þeirra af leiðsögninni í vettvangsnáminu og hvort markmið vettvangsnámsins hefðu verið raunhæf. Einnig verða kynntar niðurstöður úr rýnihópum sem varpað geta ljósi á framtíð og þróun vettvangsnámsins til framtíðar. Þessar niðurstöður verða síðan bornar saman við könnun sem lögð var fyrir leiðbeinendur í vettvangsnámi árið 2020. Niðurstöðurnar verða nýttar til frekari endurskoðunar og þróunar á vettvangsnámi nema í tómstunda- og félagsmálafræði.

 

Aðgengi fyrir alla: Frá hugmynd í framkvæmd

Eyrún Ólöf Sigurðardóttir, aðjúnkt, MVS HÍ

Umræður um mikilvægi óformlegs náms hafa á síðustu árum og áratugum fengið æ meira vægi innan og utan fræðasamfélagsins. Á sama tíma hefur meðvitund um gildi tómstundaiðkunar aukist, enda eru tómstundir einn helsti vettvangur óformlegrar menntunar og reynslunáms, sem ýmislegt bendir til að mæti þörfum breiðari hóps en formlegt nám gerir. Rannsóknir sýna þó að einstaklingar sem búa við jaðarsetningu vegna fötlunar, uppruna eða húðlitar, efnislegrar stöðu, kynhneigðar og -verundar, svo dæmi séu tekin, hafa oft skert aðgengi að tómstundum. Afleiðingar þessa geta verið allt frá neikvæðum áhrifum á andlega, líkamlega og félagslega heilsu, til félagslegrar útskúfunar og stigma. Á meðal þeirra hindrana sem mæta jaðarskipuðum einstaklingum og hópum hvað varðar aðgengi að tómstundum eru félagslegir, sálrænir og líkamlegir þættir sem mikilvægt er að taka til greina allt frá skipulagningu til framkvæmdar og mats á gæðum í tómstundastarfi. Í erindinu er gerð grein fyrir fræðilegri umfjöllun um tómstundir án aðgreiningar (e. inclusive leisure) og samtvinnunarfemínisma (e. intersectional feminism). Sérstakri athygli er beint að því hvernig þessir kenningarammar skarast og hvernig sú þekking sem hefur myndast innan þeirra á nýliðnum árum getur myndað grunn að aðgerðaáætlun til að koma til móts við það samfélagslega vandamál sem ójafnræði í aðgengi að tómstundum er. Rýnt er í fræðilega umfjöllun og rannsóknir á sviðinu og lögð fram tillaga að því hvernig hægt er að setja hugmyndir um tómstundir án aðgreiningar í framkvæmd með skipulögðum og faglegum hætti.

 

Samfélagsmiðlanotkun unglinga – Færi eða forátta?

Ársæll Arnarsson, prófessor, MVS HÍ

Yfirlýst markmið samfélagsmiðla er að auka tækifæri fólks til að tengjast og eiga samskipti. Á undanförnum árum hafa þó komið fram vísbendingar um að í einhverjum tilfellum geti notkun einstaklinga á þessum miðlum orðið stjórnlaus og þráhyggjukennd. Þessar áhyggjur hafa einkum og sér í lagi beinst að börnum og unglingum. Health Behaviour in School-aged Children (HBSC) er fjölþjóðleg rannsókn sem studd er af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni og skoðar heilsu og aðstæður 11–15 ára barna í 45 löndum fjórða hvert ár. Í síðustu fyrirlögn veturinn 2017–2018 tók 227.441 unglingur þátt. Þeir svöruðu m.a. spurningum um ákefð og vandamál tengd samfélagsmiðlanotkun sinni. Niðurstöðurnar sýna hvernig unglingar nota samfélagsmiðla og mikilvægi þeirra í daglegu lífi. Þegar horft er til unglinga sem nota samfélagsmiðla mikið, er hægt að skipta þeim í tvo hópa: Annars vegar áköf notkun (35% þátttakenda) og hins vegar skaðleg notkun (7% þátttakenda). Þessi tvískipting er mikilvæg vegna þess að skaðleg notkun líkist annarri fíknihegðun og hefur neikvæða fylgni við ýmsar breytur sem mæla vellíðan, á meðan áköf notkun hefur jákvæða fylgni við sömu breytur. Í langflestum löndum (42/45) voru jákvæð tengsl milli ákafrar notkunar samfélagsmiðla við upplifun unglinga af stuðningi vina sinna. Hins vegar hafði skaðleg notkun neikvæð áhrif á lífsánægju unglinga í flestum löndum (40/44). Niðurstöðurnar benda til þess að notkun samfélagsmiðla getur verið jákvæð fyrir unglinga og hjálpað þeim að mynda og viðhalda tengslum við félaga. Í einhverjum tilfellum geta unglingar hins vegar misst stjórn á þessari notkun og þá veldur hún skaða.

Ofbeldi og samskiptavandi: Leiðir og lausnir

Vanda Sigurgeirsdóttir, lektor, MVS HÍ

Ýmis vandamál koma upp í samskiptum meðal barna á grunnskólaaldri. Má þar nefna einelti, fordóma, höfnun, ofbeldi, stríðni, samskiptavanda og ljótt orðbragð. Slík hegðun hefur yfirleitt neikvæð áhrif og bitnar m.a. á líðan, bekkjaranda og námi. Hegðunin sem hér er lýst beinist í sumum tilfellum einnig gegn kennurum og öðru starfsfólki skóla. Erfitt og flókið er að vinna með mörg þessi mál og yfirleitt þarf að beita fjölþættum og langvarandi lausnum. Erindið fjallar einmitt um slíkar lausnir, þar sem unnið er með klassískar aðferðir tómstundafræðinnar, eins og reynslunám, hópefli og félagsfærniþjálfun. Um er að ræða starfendarannsókn, þar sem höfundur ígrundar og rýnir í eigið starf með kennurum og öðru starfsfólki í tveimur grunnskólum á Íslandi. Gagnasöfnun hófst vorið 2021 og er ekki lokið. Gagna var aflað með rannsóknardagbók og viðtölum við kennara. Tilgangur rannsóknarinnar var að skoða hvernig tekist hefði að leysa flókin og erfið mál og hvernig handleiðsla og stuðningur höfundar nýttist kennurum í starfi. Forniðurstöður benda til að nauðsynlegt sé að bregðast við á landsvísu, því ofbeldi er ekki boðlegt. Kennararnir voru sammála um að utanaðkomandi stuðningur virkar vel og að mikilvægt sé að fá fleiri fagstéttir og fagfólk inn í grunnskólana. Í erindinu verður fjallað nánar um lausnir í flóknum málum og hvaða aðferðir gagnast best.