Rýnt í gæði kennslu í myndbandsupptökum úr kennslustundum

Kl. 12:00-13:30

Rannsóknarstofa um þróun skólastarfs

Birna Svanbjörnsdóttir

Markmið og munnleg endurgjöf kennara til nemenda. Niðurstöður úr greiningu á myndbandsupptökum

Birna Svanbjörnsdóttir, dósent, HA; Berglind Gísladóttir, lektor, MVS HÍ og Sólveig Zophoníasdóttir, aðjúnkt, HA

Rannsóknin er hluti af QUINT (Quality in Nordic Teaching) þar sem lögð er áhersla á gagnasöfnum með myndbandsupptökum í kennslustundum á unglingastigi á Norðurlöndunum í þeim tilgangi að fá innsýn í og greina gæði kennslu. Markmiðið hér var að meta kennslu út frá tveimur kennslufræðilegum þáttum, það er markmiðum og endurgjöf, í kennslustundum í íslensku og stærðfræði. Með því að tilgreina markmið og ræða þau við nemendur er leitast við að búa til umgjörð utan um námið í kennslustundinni og í stærra samhengi. Með endurgjöf er brugðist við færni nemenda, hugtakanotkun og úrræðum þeirra í námi og gefnar ábendingar um það sem betur má fara og tengist öðru fremur skilningi til að auka gæði námsins. Vitað er að uppbyggjandi og styðjandi endurgjöf og skýr markmið hafa áhrif á nám nemenda. Á Íslandi var gögnum safnað með myndbandsupptökum í 72 kennslustundum í íslensku og stærðfræði í 8. bekk í 10 skólum. Myndböndin voru greind með greiningartækinu PLATO sem samanstendur af 12 kennslufræðilegum þáttum sem mynda umgjörð um mat á gæði kennslu. Kvarðinn er fjögurra stiga og eru stig 1 og 2 skilgreind sem takmörkuð gæði og stig 3 og 4 sem dæmi um góða kennslu. Hverri kennslustund var skipt í 15 mínútna myndskeið sem hvert um sig var greint. Greining myndskeiða í báðum námsgreinum sýndi takmörkuð gæði en gæðin voru heldur meiri í endurgjöf en skýrleika markmiða. Niðurstöður gefa til kynna að tilefni er til endurskoðunar og tækifæri til úrbóta á þessum þáttum í kennslu.

 

Skyggnst inn í norrænar kennslustundir – greining á aðferðum og leiðum sem gagnast nemendum af erlendum uppruna

Hermína Gunnþórsdóttir, prófessor, MVS HÍ og Renata Emilsson Pesková, aðjúnkt, MVS HÍ

Undir hatti rannsóknarinnar Gæði kennslu á Norðurlöndum (QUINT/Quality in Nordic Teaching) er hópur sem rannsakar gæði náms út frá aðstæðum og þörfum fjöltyngdra nemenda. Gagnasöfnun fór fram í tíu skólum á unglingastigi í hverju Norðurlandanna árin 2019 og 2020 í íslensku, stærðfræði og samfélagsfræði. Markmið þessarar undirrannsóknar er að greina hvaða kennsluaðferðir og kringumstæður geta stuðlað að árangursríku námi nemenda sem ekki hafa skólamálið að móðurmáli. Í erindinu verður greint frá völdum kennslustundum í íslensku, norsku, sænsku og dönsku og greint frá kennsluaðferðum sem eru áhrifaríkar fyrir þennan nemendahóp sem og alla nemendur. Í fyrstu umferð greiningarferlisins komu í ljós afgerandi áherslur sem geta haft áhrif í þessu samhengi, t.d. samræður og virk tjáning nemenda, skýrar leiðbeiningar frá kennurum um framvindu kennslunnar og til hvers er ætlast af nemendum, sjónrænt skipulag ásamt skýrri og leiðbeinandi endurgjöf frá kennurum til nemenda. Aðrar áherslur sem ekki tengjast kennsluaðferðum og námsefninu eru t.d. persónulegt viðmót kennara og jákvæður bekkjarandi. Þessar fyrstu niðurstöður verða ræddar út frá gæðum náms og kennslu og settar í samhengi við tiltekin greiningarviðmið í PLATO-greiningarrammanum sem notaður er í QUINT-rannsókninni til að meta gæði kennslu.

 

Gæði í kennslu með augum nemenda og rannsakenda: Þáttur hugrænnar virkjunar

Jóhann Örn Sigurjónsson, doktorsnemi, MVS HÍ

Leiðbeinendur: Anna Kristín Sigurðardóttir, prófessor, MVS HÍ og Berglind Gísladóttir, lektor, MVS HÍ

Nemendakönnunum er í auknum mæli beitt til að afla gagna um kennsluhætti. Þó er enn deilt um hvaða þætti í kennslu er hægt að safna áreiðanlegum gögnum um með nemendakönnunum. Í þessari rannsókn eru niðurstöður bornar saman út frá tveimur mismunandi mælingum á hugrænni virkjun í kennslustundum í stærðfræði; kerfisbundnum athugunum á kennslustundum og nemendakönnunum. Markmið rannsóknarinnar var að kanna réttmæti og takmarkanir þessara ólíku mælinga. Myndbandsupptökur af 34 kennslustundum hjá tíu stærðfræðikennurum í 8. bekk voru greindar samkvæmt PLATO (Protocol for Language Arts Teaching Observations). Nemendur í sömu kennslustundum svöruðu Tripod-nemendakönnuninni þar sem mat er lagt á ýmsa þætti í kennslu (n = 217). Sá hluti könnunarinnar sem snýr að röksemdafærslu og umræðu í kennslustundum var valinn til að greina og tengja við mælingar á sams konar þáttum hugrænnar virkjunar út frá greiningu myndbandsgagnanna, þ.e. vitsmunalegri áskorun og umræðu í kennslustundum. Niðurstöðurnar voru að tengingin á milli greiningar rannsakenda og upplifun nemenda er lítil. Upplifun nemenda af hugrænni virkjun virðist byggja á öðrum þáttum en þeim sem mældir eru með kerfisbundnum athugunum. Þessi litla tenging vekur spurningar um réttmæti ólíkra mælinga á gæðum í kennslu. Enn fremur renna þær frekari stoðum undir þörfina fyrir samþættingu rannsókna á gæðum í kennslu í átt að skýrari hugtakanotkun og þróun rannsóknartækja.