Raungreinar og náttúrufræði í grunnskólakennslu

Háskóli Íslands

Raungreinar og náttúrufræði í grunnskólakennslu

2. október kl. 13:45 til 15:15 Smelltu til að taka þátt á ZOOM!

Bandaríska náttúrufræðinámskráin „Next Generation Science Standards“

Haukur Arason, dósent, MVS, HÍ

Í þessu erindi verður fjallað um „Next Generation Science Standards“ (NGSS) en það eru viðmið um náttúrufræðimenntun barna og unglinga á grunnskólaaldri sem er nokkuð útbreidd í Bandaríkjunum og svara á vissan hátt til þeirrar opinberu námskrár í náttúrufræðum sem gefin er út af Mennta- og menningarmálaráðuneytinu hér á landi. Í Bandaríkjunum eru ekki gefnar út opinberar námskrár heldur hefur allt frá hverju fylki niður í einstaka skóla svigrúm til að setja sér sína eigin námskrá. Fyrir um áratug hófu tuttugu og sex fylki Bandaríkjanna ásamt „the National Research Council“, „the National Science Teachers Association“, „the American Association for the Advancement of Science“ og stofnuninni Achieve inc. vinnu við að þróa viðmið fyrir náttúrufræðinám barna og unglinga á grunnskólaaldri. Þeirri vinnu lauk með því að „National Academies Press“ gaf viðmiðin út árið 2013 undir heitinu „Next Generation Science Standards. For States, By States“. Nú árið 2020 hafa 20 fylki Bandaríkjanna tekið upp þessi viðmið en önnur 24 þróað viðmið á svipuðum grunni. Í erindinu verður fjallað um þær grundvallarhugmyndir sem NGSS byggja á, þau meginmarkmið sem náminu er ætlað að ná, þann framsetningarmáta sem valinn var, hvernig grundvallarhugmyndir einstakra námsgreina birtast í viðmiðunum, hvernig unnið er með hugtök og viðfangsefni sem ná til margra námsgreina, þau viðhorf til náttúruvísinda, verkfræði, tækni og umhverfis sem lögð voru til grundvallar viðmiðunum. Að lokum verður velt upp spurningum um hvort þessi viðmið geti á einhvern hátt nýst í viðleitni við að efla náttúrufræðimenntun í íslenskum grunnskólum.

Eðlisfræði-, efnafræði- og stjörnufræðiviðfangsefni í íslenskum námskránum frá 1999 og 2013 og í „Next Generation Science Standards“

Bjarni Sævar Þórsson, meistaranemi, MVS, HÍ og Haukur Arason, dósent MVS, HÍ

Í þessu erindi verður gerð grein fyrir rannsókn sem var hluti af meistaraverkefni þar sem opinberu íslensku námskrárnar fyrir grunnskóla frá 1999 og 2013 og bandaríska náttúrufræðinámskráin „Next Generation Science Standards“ voru greindar, einkum með tilliti til þeirra viðfangsefna sem tilheyra eðlisfræði, efnafræði og stjörnufræði og nálganir þeirra bornar saman. Grundvallarnálgun þessara þriggja námskráa er að mörgu leyti mjög ólík og endurspeglast það í því hvernig einstök mismunandi þekkingarsvið birtast í námskránum og hvaða nálgun virðist vera á nám barna og unglinga. Jafnframt er framsetningarmáti námskránna ólíkur sem hefur áhrif á hvernig hin ýmsu viðfangsefni birtast í námskránum. Við greiningu námskránna eru skoðuð öll atriði þeirra sem snerta þessar mismunandi greinar, þau greind og flokkuð niður eftir aldri nemenda og eftir mismunandi efnissviðum námsgreinanna svo sem raffræði, kraftfræði og svo framvegis. Í framhaldinu er borið saman hvernig taka skal fyrir hvert efnissvið samkvæmt námskránum og hvernig þeim er raðað niður á aldursstig nemenda. Jafnframt er skoðað hvort og þá hvernig hugmyndir um nám og kennslu þessara viðfangsefna birtast í námskránum. Að lokum er fjallað um hvort og þá hvernig greining af þessum toga geti gagnast við áframhaldandi þróun náttúrufræðinámskrár hér á landi.

Norrænt samstarf um nýju stærðfræðina á árunum 1960–1967

Kristín Bjarnadóttir, prófessor emerita, MVS, HÍ

Tilgangur rannsóknarinnar er að skýra afdrif samstarfs Norðurlandanna um gerð nýs stærðfræðinámsefnis í anda nýstærðfræði á öllum skólastigum. Rannsóknaraðferðin er sagnfræðileg og byggð á skjölum um starf Nordiska Kommittén för Modernisering av Matematikundervisningen, NKMM, Norrænu nefndarinnar um nútímavæðingu stærðfræðikennslunnar, á árunum 1960–1967 og skýrslu sem birt var um starfið. Skjölin eru varðveitt í Ríkisskjalasafninu í Stokkhólmi. Í upphafi var ætlunin að semja sameiginlega tilraunanámsefni til prófunar og að það yrði þýtt á tungumál allra Norðurlandanna fjögurra sem þátt tóku í samstarfinu; dönsku, norsku, sænsku og finnsku. Helstu niðurstöður rannsóknar á skjölum nefndarinnar eru að töluvert magn af námsefni var búið til og prófað. Lítið sem ekkert varð úr því að efnið væri þýtt óbreytt á önnur tungumál heldur var það að mestu samið á hverju tungumáli fyrir sig. Íslendingar, sem tóku ekki þátt í samstarfinu, þýddu þó námsefni óbreytt. Danskt efni var þýtt á íslensku fyrir yngsta stig og miðstig, en sænskt efni fyrir unglingastig. Danskar og sænskar kennslubækur, sem urðu til upp úr samstarfinu, voru notaðar óþýddar til kennslu á framhaldsskólastigi en einnig engilsaxneskar bækur. Af bréfaskiptum, sem varðveitt eru í skjalasafninu, má álykta að samstarfi af þessu tagi eru settar ýmsar skorður. Í öllum löndunum stóð yfir endurskoðun á aðalnámskrám og lenging fræðslu- og skólaskyldu sem taka þurfti tillit til í hverju landi. Persónulegar skoðanir og hagsmunir, og átök um höfundarrétt og fjármuni höfðu einnig áhrif.