Rannsóknir og deigla á sviði frítímans – Seinni hluti

Háskóli Íslands

Rannsóknir og deigla á sviði frítímans – Seinni hluti

2. október kl. 15:30 til 17:00 – Smelltu til að taka þátt á ZOOM!

Rannsóknarstofa í tómstundafræði

Jakob Frímann Þorsteinsson

Táningur að verða tvítugur – Þróun náms í tómstunda- og félagsmálafræði

Jakob Frímann Þorsteinsson, aðjúnkt, MVS, HÍ

Árið 2001 bauð Kennaraháskóli Íslands fyrst upp á nám í tómstunda- og félagsmálafræði og því eru hartnær 20 ár síðan nám á þessu sviði hófst. Af því tilefni munu starfsmenn námsbrautarinnar gera rannsókn á náminu með það að markmiði að skoða gæði og gagnsemi náms í tómstunda- og félagsmálafræði. Leitast verður við að draga upp heildstæða mynd af viðhorfi fyrrum nemenda til námsins og þeirrar gagnsemi sem þeir telja sig hafa haft af námi sínu. Tilgangur rannsóknarinnar er að kanna viðhorf brautskráðra nemenda til námsins, hvernig námið hefur nýst nemendum í lífi og starfi og hvernig það hefur nýst sem undirbúningur undir frekara nám. Kynnt verður fyrirhuguð spurningalistarannsókn meðal brautskráðra nemenda 2013–2020 sem framkvæmd verður haustið 2020 og er framhald á fyrri rannsókn sem náði til þeirra sem brautskráðust 2005–2012. Notast verður við spurningalista sem er þýddur og staðfærður af Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands og byggir á spurningalista sem ber nafnið Destination of leavers from Higher Education sem HESA (The Higher Education Statistics Agency) þróaði til að afla gagna um fólk sem lýkur háskólanámi í Bretlandi. Í erindinu verður fjallað um aðdraganda námsins, þróun nemendafjölda og áherslur í náminu, sem og þær breytingar sem gerðar hafa verið á þessum hartnær 20 árum. Söfnun og greining á þessum opinberu gögnum verður síðan nýtt við að setja spurningalistarannsóknina í samhengi við þróun námsins og þær áskoranir sem námsbrautin glímir við.

Vettvangsnám nemenda í tómstunda- og félagsmálafræði

Steingerður Kristjánsdóttir, aðjúnkt, MVS, HÍ og Eyrún Ólöf Sigurðardóttir, aðjúnkt, MVS, HÍ

Í þessu erindi er farið yfir þróun vettvangsnáms og gerð grein fyrir helstu áskorunum sem tengjast náminu. Markmið vettvangsnámsins er m.a. að nemendur fái tækifæri til að æfa færni og móta viðhorf í ljósi þeirrar grunn- og hagnýtu þekkingar sem þeir hafa fengið í náminu. Jafnframt eiga nemendur að fá tækifæri til að þróa eigin starfskenningu og fagvitund í kjölfar reynslunnar af vettvangsnáminu og öðlast dýpri sýn á ábyrgð og skyldur tómstunda- og félagsmálafræðinga í starfi nú og í náinni framtíð. Lögð er áhersla á að nemendur fái tækifæri til virkrar þátttöku í öllum þeim þáttum er felast í starfi tómstunda- og félagsmálafræðinga með sérstaka áherslu á stjórnun, skipulag, framkvæmd og þróun, sem og leiðsagnarhlutverk fagstéttarinnar í vettvangsnáminu. Gerð verður grein fyrir niðurstöðum spurningakönnunar sem send var leiðbeinendum í vettvangsnámi síðustu 3 ár en þar var spurt um reynslu þeirra og upplifun af að hafa nema. Einnig var spurt hvort markmið vettvangsnámsins væru raunhæf, um þróun námsins og stuðning við leiðbeinendur af hálfu kennara og verkefnisstjóra í tómstunda- og félagsmálafræði. Niðurstöður liggja ekki fyrir þar sem könnunin verður lögð fyrir í september 2020.

Einelti – Raddir þolenda og gerenda

Vanda Sigurgeirsdóttir, lektor, MVS, HÍ

Einelti meðal barna er alvarlegt samfélagslegt vandamál. Þrátt fyrir að margt hafi áunnist á undanförnum árum eru allt of mörg börn sem árlega tengjast einelti með beinum hætti sem þolendur og gerendur. Því þurfum við sífellt að kryfja og rýna í þær aðferðir sem við notum til að fyrirbyggja og grípa inn í eineltismál. Sá hópur sem getur gefið góða innsýn eru þolendurnir og gerendurnir sjálfir. Í þessari rannsókn, sem er eigindleg, voru tekin viðtöl við 150 þolendur og gerendur eineltis. Um er að ræða rannsókn sem unnin var í samstarfi við nemendur í námskeiðinu Einelti, leiðir og lausnir við Menntavísindasvið HÍ. Viðtölin voru tekin á árunum 2014 og 2016–2019. Tilgangur rannsóknarinnar var að fá innsýn í reynslu þolenda og gerenda af einelti, með áherslu á afleiðingar, verndandi þætti, viðbrögð skóla og hvað hefði mátt betur fara. Niðurstöðurnar eru sláandi og fram koma lýsingar á atburðum sem enginn ætti að ganga í gegnum. Í erindinu verður greint nánar frá niðurstöðum. Ljóst er að reynsla þolenda og gerenda eykur þekkingu okkar og veitir mikilvægar upplýsingar sem hægt er að nýta til að breyta og bæta þær aðferðir sem notaðar eru í eineltismálum hér á landi.