PISA, skólaþjónusta, orðaforði og lestranám

Háskóli Íslands

PISA, skólaþjónusta, orðaforði og lestranám

2. október kl. 15:30 til 17:00 Smelltu til að taka þátt á ZOOM!

Málstofustjóri: Rúnar Sigþórsson

Greining á orðanotkun í lesskilnings- og náttúruvísindahlutum PISA 2018: Samanburður á íslensku þýðingunni og enska textanum

Sigríður Ólafsdóttir, lektor, MVS, HÍ og Auður Pálsdóttir, lektor, MVS, HÍ

Markmið rannsóknarinnar var að kanna samræmi í orðtíðni í íslenskum og enskum textum á lesskilnings- og náttúruvísindahluta PISA-prófanna 2018. Ef þýðing texta í alþjóðlegu prófi er þyngri eða léttari en sami texti á upprunalega málinu getur það haft áhrif á skilning og skekkt samanburð milli tungumála. Greindir voru tveir textar úr lesskilningshlutanum og tveir úr náttúruvísindahlutanum. Notaður var orðtíðnilisti Íslenskrar risamálheildar og enskur orðtíðnilisti sem byggist á tveimur málheildum og er aðgengilegur í gegnum hugbúnaðinn VocabProfile. Orðin voru flokkuð eftir tíðni í fimm flokka. Ef munur var á tíðniflokki orða á íslensku og ensku var kannað hvort til væri samheiti fyrir íslenska orðið í sama tíðniflokki og það enska og lengd samheita borin saman. Niðurstöður sýna að hlutfall algengustu orða er lægra í íslensku textunum og hlutfall sjaldgæfustu orðanna umtalsvert hærra. Þá virðist dreifing orða á milli orðtíðniflokka vera jafnari í ensku en íslensku þýðingunni. Ákveðið ósamræmi og ójafnvægi fólst í að tveir þriðju hlutar íslensku orðanna, sem féllu í annan tíðniflokk en ensku orðin, voru sjaldgæfari en samsvarandi ensk orð. Fækka hefði mátt orðum í ólíkum orðtíðniflokkum með því að nota íslenskt samheiti í sama orðtíðniflokki og enska orðið og velja samheiti úr nærliggjandi tíðniflokki. Hlutfall íslenskra samheita sem voru algengari og lengri var yfir 30% í textunum fjórum. Niðurstöðurnar gefa tilefni til að endurskoða þurfi leiðbeiningar OECD og beina því til þýðenda að þeir taki mið af orðtíðnilistum við val á orðum.

PISA-panik? Viðbrögð stjórnvalda við niðurstöðum PISA 2018

Anna Söderström, doktorsnemi, FVS, HÍ

Niðurstöður PISA-kannana fá jafnan mikla umfjöllun í fjölmiðlum og þær hafa haft áhrif á þróun íslenskrar menntastefnu. Markmið rannsóknarinnar sem hér er kynnt er að skoða hvernig niðurstöður PISA 2018 og viðbrögð við þeim voru kynntar af íslenskum stjórnvöldum. Tilgangur rannsóknarinnar er að stuðla að gagnrýninni umræðu um hvernig niðurstöður PISA hafa verið nýttar og áhrif þeirra á skólastarf. Rannsóknin er hluti af doktorsverkefni í þjóðfræði þar sem áherslur á lestur og lestrarmenningu í íslensku samfélagi eru teknar til skoðunar, m.a. með því að greina hvernig PISA-kannanir eru notaðar við stefnumótun stjórnvalda í menntamálum. Til að varpa ljósi á ríkjandi orðræðu um læsi var skýrsla Menntamálastofnunar, ásamt opinberri kynningu af niðurstöðum og aðgerðaáætlun Mennta- og menningarmálaráðuneytisins, greind með aðferðum gagnrýninnar orðræðugreiningar. Íslensk stjórnvöld hafa lagt ríka áherslu á PISA-kannanir sem mikilvægt verkfæri til að efla íslenskt menntakerfi. Þrátt fyrir það gefa niðurstöður rannsóknarinnar til kynna að áætlanir og aðgerðir sem kynntar voru sem viðbrögð stjórnvalda séu ekki að öllu leyti í samræmi við upplýsingar úr PISA 2018. Það vakti sérstaka athygli að viðbrögð og aðgerðir stjórnvalda voru kynntar á sama tíma og niðurstöður PISA 2018 voru opinberaðar. Þessi samhliða kynning á niðurstöðum PISA og aðgerðum stjórnvalda við henni takmarkar möguleika utanaðkomandi fagaðila að leggja fram túlkun á niðurstöðum kannananna og hafa þar með áhrif á möguleg viðbrögð og aðgerðir sem settar eru af stað í kjölfarið.

Þekking foreldra á lestrarnámi

Jónína Rakel Sigurðardóttir, grunnskólakennari, Glerárskóli, Sigríður Margrét Sigurðardóttir, lektor, HA og Guðmundur Engilbertsson, lektor, HA

Markmið rannsóknarinnar sem hér er kynnt var að afla upplýsinga um þekkingu foreldra á lestrarnámi barna sinna; hvort þeir teldu sig fá nægan stuðning og hvort þörf væri á að bæta fræðslu og aðstoð til foreldra svo þeir gætu orðið virkari þátttakendur í námi barnanna. Gagna var aflað með spurningalista sem um 2800 foreldrar barna í 1. og 2. bekk í grunnskólum á landinu svöruðu vorið 2015. Spurningarnar sneru að þekkingu foreldra á þáttum lestrarnáms, ánægju þeirra með þann stuðning sem þeir fengu og hvort þeir teldu sig þurfa á meiri stuðningi að halda. Meginniðurstöður sýndu að foreldrar vissu ekki mikið um þætti er varða skipulag náms og kennslu eða samskipti en vissu meira um þætti er sneru að börnunum sjálfum eins og þörfum þeirra, líðan og ástundun í náminu. Jafnframt voru foreldrar ánægðir með þann stuðning sem þeir fengu en óvissir um hvort þeir vildu fá meiri stuðning en þeir fengu þegar. Einnig kom í ljós að foreldrar sem töldu sig hafa mikla þekkingu töldu sig þurfa minni aðstoð við lestrarnám barna sinna. Álykta má að þörf sé á frekari fræðslu og upplýsingum til foreldra um ákveðna þætti lestrarnámsins ásamt að kynna þurfi betur fyrir foreldrum hvers konar stuðningur er í boði og hvað þeir geti gert til að styðja við börn sín.

Skólaþjónusta sveitarfélaga: Umgjörð og starfshættir

Rúnar Sigþórsson, prófessor, HA, Birna María Svanbjörnsdóttir, lektor, HA, Jórunn Elídóttir, dósent, HA og Sigríður Margrét Sigurðardóttir, lektor, HA

Efni erindisins er byggt á yfirstandandi rannsókn sem hefur að markmiði að rannsaka umgjörð og starfshætti skólaþjónustu sveitarfélaga við leik- og grunnskóla og draga upp heildarmynd af hvernig þau standa að því að tryggja skólum sínum þann aðgang að skólaþjónustu sem þeim ber samkvæmt lögum. Gögnum hefur verið safnað með eftirtöldu: 1) spurningakönnun sem send var til skólastjóra leik- og grunnskóla og þeirra sem eru í forsvari fyrir skólaþjónustu (yfirmanna skólaskrifstofa og sveitarstjóra), 2) greiningu á helstu stefnuskjölum um skólaþjónustuna sem birt eru á vef sveitarfélaga og 3) viðtölum við forsvarsaðila skólaþjónustunnar í fimm völdum sveitarfélögum. Niðurstöður benda til að stuðningur við nemendur í leik- og grunnskólum sé víðast hvar sterkari þáttur í starfi skólaþjónustu en stuðningur við starfsemi skóla og starfsfólk þeirra. Stuðningur við nemendur beinist einkum að greiningum sérkennara og sálfræðinga á „frávikum“ og „vanda“ og einhvers konar „úrræðum“ í kjölfarið sem beinast frekar að nemandanum sjálfum en námsumhverfi hans. Þátttakendur í rannsókninni hafa aftur á móti mismunandi sýn á áherslu skólaþjónustunnar á stuðning við starfsemi og starfsfólk skóla og frumkvæði hennar á þessu sviði. Yfirleitt telja forsvarsmenn skólaþjónustu þetta mun sterkari þátt í starfinu en skólastjórar. Á heildina litið virðist skólaþjónusta sveitarfélaga hafa klínískt fremur en skólamiðað yfirbragð og sammæli virðist skorta milli forsvarsaðila hennar og skóla um eðli og tilgang þjónustunnar. Engu að síður sjást ýmis merki um að verið sé að stíga skref í átt til breytinga.