Ofbeldi, mismunun og kærleikur

Kl. 10:10-11:40

Auður Magndís Auðardóttir

On monsters, myths and violence: How dominant discourses on violence constitute the experience of perpetrators of violence in intimate relationships 

Katrín Ólafsdóttir, PhD student, School of Education, UI and Annadís Gréta Rúdólfsdóttir, associate professor, School of Education, UI 

The aim of the research presented is to examine the myth of the monster and how it informs the experiences of perpetrators of violence in intimate relationships. The monster-myth is a production of discourse on violence and rape culture. It can be seen in assumptions about violence in intimate relationships that are far removed from reality. Our intention is to answer the following: How is the experience of perpetrators of violence in intimate relationships constituted by the dominant discourses on violence and how does that influence the formation of the individual self? In this presentation we examine the experience of seven men who admit to having committed sexual or physical violence in a relationship. We’re interested in the discursive context they draw on when making sense of their experiences as perpetrators of violence and how they constitute their individual selves in relation to dominant discourses of violence, specifically the monster-myth. Research shows that survivors of rape and IPV often don’t recognize the acts carried out against them as violence when they don’t fit the common discourse of such violence. Furthermore, there’s a hierarchy within the discourse where some acts are considered more serious than others, according to how well they fit the monster-myth. Our findings suggest the same applies for perpetrators who often don’t recognize their actions as violent as well as processing their experiences differently depending on how well their actions fit the monster-myth. We argue the myth is harmful as it prevents men from recognizing their acts as violent 

Tilfinningahliðar á þátttöku mæðra af verkalýðsstétt í foreldrasamfélögum grunnskóla

Auður Magndís Auðardóttir, nýdoktor, MVS HÍ 

Markmið rannsóknarinnar er að greina sögur mæðra af verkalýðsstétt af samskiptum innan foreldrahópa í grunnskólum. Sérstaklega er skoðað hvernig þær lýsa þeim tilfinningum sem vakna við slíkar aðstæður og hvernig þær tilfinningar eiga þátt sinn í að endurskapa stéttaskiptingu. Kenningar Bourdieus um táknbundið ofbeldi eru notaðar til að greina niðurstöðurnar ásamt rannsóknum á tilfinningum tengdum jaðarsetningu (meðal annars D. Reay og B. Skeggs). Frásagnargreiningu var beitt á sögur sex hvítra, íslenskra mæðra af verkalýðsstétt sem allar eiga barn/börn á miðstigi í grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu. Niðurstöður sýna að innan foreldrasamfélaganna verða mæðurnar fyrir táknbundnu ofbeldi sem birtist meðal annars í jaðarsetningu og útilokun. Þessi reynsla tengist einnig fyrri reynslu mæðranna af skólakerfinu í þeirra eigin barnæsku. Í sumum sögunum má finna merki um mótstöðu gegn jaðarsetningunni og réttláta reiði en í öllum sögunum eru tilfinningar á borð við skömm alltumlykjandi. Niðurstöðurnar varpa ljósi á tilfinningalegar og kerfisbundnar hindranir á þátttöku í foreldrasamstarfi sem verða á vegi þeirra foreldra sem hafa orðið fyrir táknbundnu ofbeldi í skólakerfinu sem börn og hvernig það ofbeldi er endurtekið á vettvangi foreldrasamvinnu. Þá gefa niðurstöðurnar tilefni til að endurskoða þá menningu sem ríkir í kringum foreldrasamvinnu þar sem foreldrar sem ekki taka þátt eru álitnir óverðugir og áhugalausir. 

 

„Ég var bara eins og fangi“: Upplifun andlegs ofbeldis í vinasamböndum

Guðrún Halla Jóhannsdóttir, félagsráðgjafi hjá Félagsþjónustu Mosfellsbæjar og Freydís Jóna Freysteinsdóttir, dósent, FVS HÍ  

Meginmarkmið rannsóknarinnar var að kanna reynslu einstaklinga sem upplifað hafa vinasambönd sem einkennast af andlegu ofbeldi. Ennfremur var leitast við að skoða viðhorf þátttakenda til þess hvað gæti hafa valdið slíkum samskiptum, reynslu þeirra af vinslitum og upplifun þeirra af stuðningi. Framkvæmd var eigindleg viðtalsrannsókn en tekin voru viðtöl við tíu konur. Niðurstöður rannsóknarinnar bentu til þess að andlegt ofbeldi og neikvæð samskipti gætu orðið meðal annars til af persónugerð og aðstæðum gerenda, sem og viðhorfi og skilningi þolendanna á aðstæðunum. Andlegt ofbeldi innan vinasambanda virtist samkvæmt frásögn viðmælendanna felast einna helst í stjórnsemi, niðurlægingu og ógnandi hegðun gerendanna. Afleiðingar fyrir viðmælendurna fólust í tilfinningalegri vanlíðan, andlegu álagi og kvíða. Einnig greindu viðmælendur frá hvernig aðstæður sem þessar gátu mótað atferli og samskiptafærni þeirra. Viðmælendunum gat reynst flókið og erfitt að binda enda á samskiptin. Stuðningur af hálfu aðstandenda skipti þátttakendur jafnframt miklu máli, en flestir viðmælendur töldu sig hafa að einhverju leyti skort slíkan stuðning. Niðurstöður rannsóknarinnar veita innsýn í hvernig andlegt ofbeldi getur orðið til innan náins vinasambands. Rannsókn þessi getur því eflt skilning og þekkingu á þessu málefni, sem hefur lítið sem ekkert verið rannsakað hérlendis. Út frá niðurstöðunum má álykta að fagaðilar á við félagsráðgjafa hafi hlutverki að gegna í aðstæðum sem þessum, en mikilvægt er að þeir sinni því af fagmennsku og nærgætni. Ljóst er að vitundarvakning á málefninu er mikilvæg í samfélagi okkar svo unnt sé að bregðast við andlegu ofbeldi sem birst getur innan náinna vinasambanda. 

 

Má ég vera með? Inngilding og útilokun í skólum án aðgreiningar

Kristín Björnsdóttir, prófessor, MVS HÍ og Eiríksína Eyja Ásgrímsdóttir, rannsakandi  

Útilokun í samhengi við nám og menntun snýst ekki eingöngu um þá nemendur sem ekki ganga í skóla. Útilokun getur átt sér stað innan veggja skóla og á því einnig við um þau sem ganga í skóla en fá ekki þann stuðning sem þau þurfa í námi. Að vera útilokaður frá námi getur haft áhrif á lífshorfur barna og tækifæri til framtíðar og því mikilvægt að skilja orsakir og réttlætingu útilokunar. Í erindinu verður fjallað um þá hópa sem í sögulegu samhengi hafa verið útilokaðir frá námi og verður gagnrýnum kenningum um ableisma, sexisma, classisma, rasisma og heterónormatívu beitt í því samhengi. Skoðaðar verða kerfis- og samfélagslegar réttlætingar fyrir útilokun og jaðarsetningu hópa. Einnig verður sjónum beint að hugmyndum um inngildandi skólastarf og hvað felst í að allir nemendur geti orðið fullgildir meðlimir skólasamfélagsins. Inngildandi menntun byggir á mannréttindasýn á fötlun þar sem það er óyggjandi réttur allra nemenda að hafa aðgang að sínum hverfisskóla. Aðgengi að skólahúsnæðinu einu og sér nægir hins vegar ekki til þess að skólastarfið geti talist inngildandi. Huga þarf að þeim þáttum sem hindra eða stuðla að inngildingu allra nemenda. Niðurstöður okkar benda til þess að ástæður jaðarsetningar og útilokunar ákveðinna nemenda í skólastarfi eigi djúpar rætur í menningarlegum og samfélagslegum hugmyndum um hverjir eru við, hinir og allir og hverjir eigi tilkall til menntunar.  

 

Allt hitt sem við gerum – um ást og kærleika í kennslu

Eiríksína Eyja Ásgrímsdóttir, barnakennari og bókmenntafræðingur, Rannsóknarsetrinu Hvoli

Jákvæðar tilfinningar sem fylgja kennslustarfinu hafa lítt verið rannsakaðar hérlendis. Sjónum hefur frekar verið beint að afköstum og árangri nemenda sem og stefnumótun í skólastarfi. Hér verður varpað ljósi á hvernig kennarar lýsa umhyggju, væntumþykju og kærleika sem þeir gefa nemendum sínum. Bent verður á nokkra umhyggju- og kærleiksgjörninga sem fylgja kennslustarfinu. Skoðað er hvort og hvernig þessar tilfinningar og gjörningar tengjast framvindu náms og hugmyndum kennara um tengsl líðanar og árangurs. Tekin voru eigindleg viðtöl við 16 starfandi kennslukonur og þær beðnar um að lýsa tilfinningum, viðhorfum, væntingum og líðan í starfi. Til að víkka sjónarhornið og tengja við upplifun nemenda er einnig greind orðræða í ævisögum og endurminningum Íslendinga sem lýsa skólagöngu sinni frá miðri 20. öld og fram til okkar daga þar sem sjónum er beint að samskiptum í skólastofunni. Sýnt verður hvernig frásagnir úr bókmenntum kallast á við frásagnir starfandi kennara. Rannsóknin og felur þannig í sér tvö tímaplön, þar sem nær 80 ár skilja að elstu og yngstu frásagnir. Tilgangur rannsóknarinnar er að sýna fram á að sterkar jákvæðar tilfinningar sem spretta af ást og kærleika og þeir gjörningar sem þeim fylgja eru fyrirferðarmeiri og algengari í skólastarfi en ætla má af almennri umræðu um skólastarf. Skoðað verður hvort og hvernig hægt er að gefa öllum hagsmunaaðilum skólastarfs tækifæri og rými til að gangast við tilfinningum ástar og umhyggju í stað þess að þagga þær eða fela. Einnig verður skoðað hvort kærleikskrafa á kennara hafi aukist með breyttri samfélagsgerð.