Nám unglinga í Afríku sunnan Sahara

Háskóli Íslands

Nám unglinga í Afríku sunnan Sahara

1. október kl. 13:45 til 15:15 – Smelltu til að taka þátt í ZOOM!

Geir Gunnlaugsson

Félags- og efnahagslegur bakgrunnur menntaskólanemenda í Bissá, Gíneu-Bissá

Geir Gunnlaugsson, prófessor, FVS, HÍ, Aladje Baldé, rektor Jean Piaget háskólans í Gíneu-Bissá, Zeca Jandi, doktorsnemi Instituto Nacional de Estudos e Pesquisa (INEP), Bissá, Gínea-Bissá og Jónína Einarsdóttir, prófessor, FVS, HÍ

Inngangur: Í kjölfar samþykktar á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna 2016–2030 hefur heilsa og velferð unglinga verið í brennidepli. Talið er að fjárfesting þeim til handa, þ.m.t. í menntun, hafi jákvæð efnahags- og félagsleg áhrif, sérstaklega í fátækum löndum. Markmið: Finna og greina félags- og efnahagslega áhrifaþætti á skólagöngu 14–19 ára gamalla unglinga í ríkisreknum menntaskólum borið saman við einkarekna í fátæku og óstöðugu ríki sunnan Sahara. Aðferðafræði: Spurningalisti ‘Planet Youth’ var lagður fyrir í júní 2017 í bekkjum sem valdir voru af handahófi í samtals 16 skólum í Bissá, Gíneu-Bissá. Niðurstöður: Samtals 2,039 nemendur tóku þátt í spurningakönnuninni (52% stúlkur) og 52% þátttakenda voru í ríkisreknum menntaskólum þar sem skólastarf fellur iðulega niður vegna verkfalla og fjarveru kennara. Stúlkur voru 1,29 sinnum líklegri (95% CI 1.08-1.55) en drengir til að vera í einkareknum skóla borið saman við ríkisrekna skóla. Samtals 1,127 (62%) þátttakenda áttu móður eða föður sem höfðu byrjað eða lokið háskólanámi eða starfsnámi; Ef annaðhvort foreldranna eða báðir höfðu lokið slíkri menntun var 5,74 sinnum líklegra (95% CI 4.64-7.10) að barn þeirra sækti einkaskóla borið saman við ríkisrekinn skóla. Ályktun: Börn menntaðra foreldra senda börn sín í einkarekna menntaskóla sem tryggja stöðugan rekstur og eðlilegt skólastarf. Alþjóðlegan stuðning þarf við uppbyggingu á ríkisrekna skólakerfinu og við kennara í landinu. Án slíks stuðnings er hætta á að þeir sem eru nú þegar verr settir fái ekki tækifæri til að menntast og rækta hæfileika sína og leggja þannig grunn að efnahags- og félagslegum framförum í landinu.

Access of adolescents to digital technology in Bissau, Guinea-Bissau

Thomas Andrew Whitehead, master student, SSS, UI, Aladje Baldé, rector at Jean Piaget University in Guinea-Bissau, Geir Gunnlaugsson, professor, SSS, UI

Background: With the launch of the Sustainable Development Goals 2016-2030, world leaders called for integrated action across sectors to tackle complex development challenges. To achieve the SDGs, digital technology plays an important role, but globally access is uneven. Aims: Outline and analyse access to and use of digital technology among secondary school-attending adolescents aged 14-19 years in a low-income sub-Saharan setting characterized by fragile socio-economic development and political instability. Methods: In June 2017, a survey using a locally adapted and pilot tested ‘Planet Youth’ questionnaire was conducted in the capital Bissau, Guinea-Bissau. From a special registry of 114 classes with 4,470 students aged 14-19 years in both private and public schools, 2,039 students were randomly chosen to participate. Results: In total, 1,527 (75%) participants responded to one or both questions regarding their use of a laptop and a desktop computer; 777 (51%) had access to at least one computer. If both parents had started or completed university education or vocational training, participants were 2.18 (95% CI 1.73-2.77) times more likely to have used at least one of the two types of computers. Those who responded to at least one out of seven questions on their use of common applications of digital media, 665 (33%) did not report any use. Conclusions: Many adolescents in the capital Bissau have no experience of using digital technology, including for schoolwork. There is an urgent need to improve affordable internet access within the national educational system.

„Verkföll kennara hafa áhrif á alla nemendur“: Ójöfnuður meðal unglinga sem stunda nám í ríkis- og einkareknum menntaskólum í Gíneu-Bissá

Fatou N’dure Baboudóttir, doktorsnemi, FVS, HÍ, Zeca Jandi, doktorsnemi og Geir Gunnlaugsson, prófessor, FVS, HÍ

Inngangur: Í fátækari löndum heims eru unglingar sá aldurshópur sem vex hvað hraðast og í Afríku sunnan Sahara (ASS) eru unglingar (10–19 ára) tæplega fjórðungur af heildarfjölda allra íbúa. Engu að síður hafa tiltölulega fáar rannsóknir sem snúa að unglingum og daglegu lífi þeirra verið framkvæmdar á svæðinu. Undanfarið, að hluta til vegna heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna 2016–2030 (SDG), er athygli í vaxandi mæli beint að þeim, og sýnt fram á að unglingar glíma við margvíslegar áskoranir sem tengjast jöfnuði, velferð, daglegu lífi og framtíðarmöguleikum.

Markmið: Í fátæku landi í Afríku sunnan Sahara, lýsa, meta og greina birtingarmyndir ójöfnuðar unglinga sem stunda nám í ríkis- og einkareknum menntaskólum. Aðferðafræði: Eigindleg rannsókn fór fram í Gíneu-Bissá í Vestur-Afríku. Rætt var við 37 nemendur á aldrinum 14–19 ára í bæði einkareknum og opinberum menntaskólum. Samtölin fóru fram á kreól og voru hljóðrituð, afrituð, kóðuð og þemagreind. Niðurstöður: Aðgengi að menntaskólum markast af félagslegum og efnahagslegum þáttum. Nemendum, sem sóttu ríkisrekinn menntaskóla, var tíðrætt um áhrif verkfalla kennara á skólagöngu sína en voru þó bjartsýnir á lífshorfur sínar og framtíðarmöguleika. Þeir sem voru í einkareknum skólum voru þakklátir fyrir þann stöðugleika sem skólastarfið gaf þeim en margir töldu þó verkföll kennara í ríkisreknum skólum einnig hafa neikvæð áhrif á líf þeirra og menntun. Nemendur nefndu spillingu, pólitískan óstöðugleika og loftslagsbreytingar sem mögulega ógn við framtíð sína. Ályktanir: „SDG-kynslóðin“ í Gíneu-Bissá þarfnast stuðnings við uppbyggingu innviða menntastofnana til að efla menntunartækifæri og auka framtíðarmöguleika sína.