Innflytjendur og menntun

Háskóli Íslands

Innflytjendur og menntun

1. október kl. 10:45 til 12:15 – Smelltu til að taka þátt á ZOOM!

Tungumálastefna fjölbreyttra fjölskyldna innflytjenda og áhrif hennar á menntun

Hanna Ragnarsdóttir, prófessor, MVS, HÍ

Fjölgun innflytjenda á Íslandi undanfarna áratugi endurspeglast í menntakerfinu þar sem alls um 100 tungumál eru töluð. Markmið þessarar eigindlegu rannsóknar er að varpa ljósi á tungumálastefnu fjölbreyttra fjölskyldna innflytjenda og hvernig hún hefur áhrif á menntun barnanna, svo og samstarf foreldra barnanna við skólastjórnendur og kennara þeirra í leik- og grunnskólum. Fræðilegur rammi rannsóknarinnar er í skrifum um tungumálastefnu fjölskyldna, svo og um tungumála- og menningarmiðaðar kennsluaðferðir. Rannsóknin er fjöltilviksrannsókn, þar sem gagna var aflað í eigindlegum viðtölum við foreldra í fjórum fjölskyldum innflytjenda sem nota tvö eða fleiri tungumál í daglegu lífi, svo og kennara og skólastjóra barna þeirra í leik- og grunnskólum í tveimur sveitarfélögum. Gagna var aflað sumarið og haustið 2020. Í erindinu eru kynntar fyrstu niðurstöður úr viðtölum við fjórar fjölskyldur, skólastjóra og kennara í leik- og grunnskólum barna þeirra. Þær benda til þess að allar fjölskyldurnar hafa skýra og vel afmarkaða tungumálastefnu, sem er þó ólík eftir fjölskyldum. Skólarnir bregðast við fjölbreytileika tungumála barnanna og fjölskyldnanna með mismunandi hætti en bæði skólastjórar og kennarar barnanna sýna fjöltyngi þeirra mikinn áhuga. Tungumála- og menningarmiðaðir kennsluhættir eru misvel þróaðir í skólunum, en áhugi er hjá kennurunum á að fá betri þjálfun í slíkum kennsluháttum og auka samstarf við foreldrana í því skyni að styðja betur við fjöltyngi barnanna. Helstu áskoranir eru skortur á þjálfun kennara og að viðhalda þekkingu um tungumála- og menningarmiðaða kennsluhætti.

Viðbrögð sveitarfélaga á Íslandi við vaxandi fjölda nemenda af erlendum uppruna

Markus Meckl, prófessor, HA, Hanna Ragnarsdóttir, prófessor, MVS, HÍ og Hermína Gunnþórsdóttir, prófessor, HA

Í erindinu eru kynntar niðurstöður eigindlegar rannsóknar um hvernig sveitarfélög skipuleggja stuðning við nemendur af erlendum uppruna. Rannsóknin er hluti af stærra rannsóknarverkefni, Inclusive Societies, en markmið þess eru að bera saman mynstur aðlögunar innflytjenda í mismunandi sveitarfélögum á Íslandi með því að rannsaka stöðu innflytjenda hvað varðar tungumál, atvinnu, menntun, menningu og ánægju. Eigindlegi hluti rannsóknarinnar sneri að menntun og fól í sér tíu viðtöl við forstöðufólk skólaskrifstofa, skólastjóra, kennara og sérkennara í fjórum sveitarfélögum um menntun nemenda af erlendum uppruna. Viðtölin voru tekin vorið 2019. Markmið þessarar rannsóknar var að skilja hvernig sveitarfélög skipuleggja stuðning við nemendur af erlendum uppruna, hvort stefna í málefnum þeirra er fyrir hendi, og hvernig henni er þá hrint í framkvæmd og fylgt eftir. Fræðilegur rammi byggist á kenningum um aðlögun innflytjenda að samfélögum, menntastefnu, framkvæmd og forystu og faglegum stuðningi við nemendur og kennara. Í erindinu eru kynntar fyrstu niðurstöður um menntastefnur sveitarfélaga, stuðning og þjálfun fyrir kennara, áskoranir og tækifæri í menntun nemenda af erlendum uppruna, svo og nýleg verkefni skólaskrifstofa til að bregðast við vaxandi fjölda nemenda af erlendum uppruna.

 

Stöðumat fyrir nýkomna nemendur af erlendum uppruna

Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, kennsluráðgjafi og verkefnastjóri, Fræðslusvið Reykjanesbæjar, Þórdís Helga Ólafsdóttir, framhaldsskólakennari, Borgarholtsskóli og Aneta Stanislawa Figlarska, kennsluráðgjafi, fræðslusvið Árborgar

Vinna við stöðumat fyrir nýkomna nemendur af erlendum uppruna hófst hér á landi árið 2016. Um er að ræða samstarfsverkefni þriggja sveitarfélaga; Árborgar, Hafnarfjarðarbæjar og Reykjanesbæjar. Hugmyndin kom upphaflega fram þegar kennsluráðgjafar í þessum þremur sveitarfélögum ræddu helstu áskoranir sem skólar í sveitarfélögunum standa frammi fyrir. Í framhaldi var stýrihópur settur á laggirnar til þess að leiða verkefnið og hefur samstarfið einkennst af miklu trausti og samstarfsvilja í anda lærdómssamfélagsins þar sem fulltrúar deila sameiginlegum áhuga og sameiginlegri sýn á hið mikilvæga verkefni. Stöðumat fyrir nýkomna nemendur af erlendum uppruna er þýðing á sænska matinu Kortläggning for nyanlända elever og miðar að því að auðvelda kennurum að byggja námið á styrkleikum nemenda og efla námshæfni þeirra með markvissri íhlutun á fyrstu stigum skólagöngu þeirra í nýju landi. Sænska menntamálastofnunin Skolverket hafði frumkvæði að gerð stöðumatsins og heldur utan um það í Svíþjóð. Svíar hafa jafnframt innleitt notkun þess í sænsk leik-, grunn- og framhaldsskólalög. Stöðumatið byggir á þremur viðtölum sem fara fram á sterkasta tungumáli nemandans og fjölskyldunnar. Stöðumatið er ekki próf heldur kortlagning á reynslu og færni nemandans en það metur meðal annars hvort hann geti fundið staðreyndir beint upp úr texta, hvort hann geti lesið á milli lína eða dregið ályktanir um efnið sem hann var að lesa. Dæmi eru um að nemendur sem kennarar hafa áhyggjur af reynast fluglæsir á sínu sterkasta máli og hafa sterkan skólabakgrunn í mörgum námsgreinum.

 

Tvær rannsóknir á innflytjendum í háskólum á Íslandi

Ásrún Matthíasdóttir, lektor, HR, Ásrún Á. Jónsdóttir, sálfræðingur, Heilsugæslan í Reykjanesbæ, Sara Stef. Hildardóttir, upplýsingafræðingur, HR, Marta Sigríður Pétursdóttir, menningar- og kynjafræðingur, Arnar Gíslason, jafnréttisfulltrúi, FVS, HÍ og Sveinn Guðmundsson, jafnréttisfulltrúi, FVS, HÍ


Staða innflytjenda í háskólanámi á Íslandi virðist talsvert verri en annarra hópa. Sagt verður frá tveim rannsóknum sem eru yfirstandandi: Rannsókn á stöðu kynmenningar við val á námsgrein í háskólum og Tækifæri og hindranir í háskólanámi á Íslandi með hliðsjón af uppruna og kyni. Hluti rannsóknanna fells í að greina gögn um innflytjendur frá Hagstofu Íslands og verða niðurstöður kynntar. Niðurstöður benda til að sumir hópar einstaklinga með erlent ríkisfang, einkum frá Austur-Evrópu, Thailandi og Portúgal, sæki síður nám við Háskóla Íslands og er það í takt við fyrri rannsóknir. Einnig benda  niðurstöður til þess að karlar fari síður í háskólanámi en konur, óháð uppruna og sömuleiðis eru innflytjendur fámennari en Íslendingar. Má því velta fyrir sér hvort rétt sé að skoða stöðu karla í hópi innflytjenda enn betur, reyna að skýra betur orsakir brottfalls á öllum skólastigum í þeim hópi og móta viðbrögð til að draga úr brottfalli þeirra. Þörf er á frekari rannsóknum til að kanna ástæðurnar á bakvið þessa þróun, m.a. með eigindlegum rannsóknum á ástæðum brotthvarfs nemenda með innflytjendabakgrunn úr framhaldsskóla og hvers vegna þeir sem ljúka framhalsskóla fara ekki í háskólanám. Einnig væri vert að kanna upplifun háskólanema með innflytjendabakgrunn af námi þeirra en með auknum skilningi á nemendahópum háskólanna er hægt að kanna betur þörf á sértækum stuðningi við ólíka hópa. Í kjölfarið geta háskólar aðlagað þjónustu sína og kennsluhætti með þarfir nemendahópsins í huga.