Málþroski leikskólabarna

Háskóli Íslands

Málþroski leikskólabarna

2. október kl. 9.00 til 10.30 Smelltu til að taka þátt á ZOOM!

Rannsókna- og fræðslustofa um þroska, læsi og líðan barna og ungmenna

Jóhanna Thelma Einarsdóttir

Málþroskaprófið Málfærni eldri leikskólabarna (MELB): Stöðlun og próffræðilegir eiginleikar

Þóra Másdóttir, lektor, HVS, HÍ, Jóhanna Thelma Einarsdóttir, dósent, MVS, HÍ, Sigurgrímur Skúlason, aðjúnkt, HVS, HÍ og Brynja Björgvinsdóttir, meistaranemi, HVS, HÍ

Málþroskaprófið MELB hefur verið í smíðum undanfarin ár en því er ætlað að meta málþroska barna á aldrinum 4;0–5;11 ára. Þrjár forprófanir hafa farið fram til að tryggja háan innri áreiðanleika og marktæka fylgni á milli stakra prófþátta. Stöðlun hófst 2019 og hafa 730 börn víðs vegar af landinu verið prófuð auk þess sem spurningalisti um bakgrunn og þroska barnanna var lagður fyrir foreldra. Vorið 2020 fóru fram nokkrar athuganir á inntaks- og hugsmíðaréttmæti MELB en þær voru jafnframt meistaraverkefni fjögurra nemenda í talmeinafræði við HÍ. Inntaksréttmæti var kannað með því að velja prófatriði handahófskennt og leggja fyrir 10 talmeinafræðinga sem hafa víðtæka reynslu af talþjálfun barna. Hugsmíðaréttmæti var athugað með því að kanna bera frammistöðu barnanna á MELB saman við frammistöðu þeirra á (a) málþroskaprófinu TOLD-2P, (b) málþroskaprófinu MUB, (c) ICS-kvarðanum sem metur skiljanleika tals hjá börnum, (d) HLJÓM-2, (e) Íslenska þroskalistanum (ÍÞ), og (f) málsýnum. Helstu niðurstöður voru þær að fylgni var jákvæð og marktæk milli MELB og þeirra prófa eða prófþátta sem mældu málþroska. Sem dæmi má nefna að miðlungshá jákvæð fylgni var milli heildarstiga á MELB og mælitölu málþáttar ÍÞ (r=0,57) en lág og ómarktæk fylgni reyndist milli sömu stiga á MELB og mælitölu hreyfiþáttar ÍÞ (r=0,07). Þessar niðurstöður benda til viðunandi samleitni- og aðgreiningarréttmætis skyldra og óskyldra hugsmíða. Í öllum tilvikum studdu rannsóknirnar við réttmæti MELB sem próftækis er metur þá hugsmíð sem því er ætlað að meta, þ.e. málþroska. Niðurstöðurnar benda jafnframt til að MELB endurspegli vel málþroska barna á áðurnefndum aldri.

Mismunum við börnum eftir búsetu?

Jóhanna Thelma Einarsdóttir, dósent, MVS, HÍ, Þóra Másdóttir, lektor, HVS, HÍ og Sigurgrímur Skúlason, aðjúnkt, HVS, HÍ

Tjáskipti (e. communication) teljast til grundvallarmannréttinda eins og kemur fram í 19. grein Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna frá 1948. Þessi grein tekur ekki aðeins til réttarins að eiga samskipti við aðra og skiptast á skoðunum heldur einnig til þess að búa yfir hæfni og getu til að eiga kost á alhliða tjáskiptum. Magn og gæði samskipta við börn, bæði foreldra og starfsfólks leikskóla, skipta sköpum um hversu fær börnin verða í tungumálinu. Vitað er að menntun foreldra og félagsleg staða þeirra hefur áhrif á hversu vel börnum gengur að tileinka sér tungumálið. Málþroskaprófið MELB (Málfærni eldri leikskólabarna) er ætlað börnum á aldrinum 4–6 ára. Prófið hefur verið lagt fyrir um 730 eintyngd börn sem tala íslensku á undanförnum 4 árum í um 40 mismunandi leikskólum. Lagt hefur verið kapp á að leggja prófið fyrir börn af öllu landinu. Með þessari rannsókn verður leitast við að svara því hvort mælingar á málþroska leikskólabarna sýni mismunandi færni barnanna eftir búsetu þeirra. Bornar voru saman niðurstöður málþroskamælinga eftir landshlutum og eftir mismunandi svæðum innan höfuðborgarsvæðisins. Niðurstöður sýndu að mikill munur var á meðaltalsfærni barna til að tjá sig eftir búsetu. Niðurstöður verða ræddar með tilliti til félagslegar stöðu barna og aðgangs að menntun.

Þýðing og forprófun á FOCUS-ÍS, um mat foreldra á félagslegri málnotkun þriggja ára barna

Birta Kristín Hjálmarsdóttir, meistaranemi, HVS, HÍ, Þóra Másdóttir, lektor, HVS, HÍ og Jóhanna Thelma Einarsdóttir, dósent, MVS, HÍ

Flest málþroskapróf meta málskilning og máltjáningu barna en ekki hefur verið til matstæki á íslensku sem metur málnotkun ungra barna. FOCUS er matslisti sem foreldrar fylla út og er einkum hannaður til að mæla breytingar á félagslegum tjáskiptum barna frá 1;6 ára til 5;11 ára. Markmið þessarar rannsóknar var að þýða og forprófa listann auk þess að kanna innri áreiðanleika íslenskrar þýðingar á FOCUS og fylgni listans við málþroskaprófið Málfærni ungra barna (MUB). Listinn var þýddur á íslensku og bakþýddur aftur á ensku. Íslenska útgáfan var nefnd FOCUS-ÍS. Listinn var lagður fyrir foreldra 114 barna á aldrinum 3;0–3;11. Heildarstig barnanna voru reiknuð út og 10% þeirra sem fengu hæstu og lægstu skorin voru prófuð á MUB. Gott samræmi var á milli þýðingar frumþýðenda á FOCUS-ÍS og bakþýðingar, sem var í góðu samræmi við frumtextann. Innri áreiðanleiki mældist hár (a=0,96) sem gefur til kynna að íslensk þýðing listans sé áreiðanleg. Þótt ekki hafi mælst marktæk fylgni milli FOCUS og MUB mældist marktækur munur á meðaltali málþroskatölu á MUB hjá þeim sem fengu flest og fæst heildarstig á FOCUS-ÍS. Hin lága fylgni á milli FOCUS-ÍS og MUB gæti einnig verið vísbending um að ekki sé nóg að meta eingöngu form (máltjáningu og framburð) og innihald (málskilning) í málþroska barna líkt og MUB gerir heldur sé einnig mikilvægt að meta málnotkun eins og gert er með FOCUS. Forprófun á FOCUS-ÍS gefur vísbendingu um að matstækið sé áreiðanlegt en frekari rannsóknir þarf til að kanna notagildi fyrir breiðari aldurshóp barna.

Íslenskukunnátta tvítyngdra leikskólabarna

Hjördís Hafsteinsdóttir, meistaranemi, MVS, HÍ og Jóhanna Thelma Einarsdóttir, dósent, MVS, HÍ

Markmið rannsóknarinnar var að meta íslenskukunnáttu tvítyngdra barna í samanburði við eintyngda jafnaldra. Þátttakendur voru annars vegar 25 tvítyngdir einstaklingar á aldrinum 5;1 til 6;1 ára og hins vegar 30 eintyngdir einstaklingar á aldrinum 5;3 til 5;11 ára. Tvítyngdu þátttakendurnir voru allir fæddir á Íslandi, gengu í íslenskan leikskóla og heima fyrir töluðu foreldrar eingöngu eitt tungumál sem var móðurmál þeirra og ekki íslenska. Staðlaða málþroskaprófið MELB var lagt fyrir og að auki voru tekin málsýni af sjálfsprottnu tali þátttakenda. Hvað varðar tvítyngdu börnin þá var einnig lagt fyrir orðaforðaprófið PPVT-4 og svöruðu foreldrar spurningalista um málumhverfi barnanna. Niðurstöður sýndu að íslenskukunnátta tvítyngdra barna var mun slakari en kunnátta eintyngdra jafnaldra. Munurinn á milli hópanna var mun meiri þegar málþroskinn var metinn með stöðluðum mælitækum en með málsýnum. Niðurstöður sýna að tvítyngd börn sýna færni í að tjá sig í sjálfsprottnu tali en jafnframt að þau vantar dýpri þekkingu á innihaldi og formgerð málsins. Út frá því má áætla að flest tvítyngd börn á leikskólaaldri þurfi á markvissri málörvun að halda. Sú málörvun þarf að snúa bæði að máltjáningu barnanna og málskilningi. Niðurstöðurnar benda til að börnin fái ekki nægilega málörvun í íslensku í leikskólanum þrátt fyrir að þau verji miklum hluta af vökutíma þar.