Málþroski leikskólabarna: Íhlutun og mat

Jóhanna Einarsdóttir

Rannsóknarstofa um þroska, læsi og líðan barna og ungmenna

Orðaheimur – málörvunarefni fyrir leikskólabörn

Sædís Dúadóttir Landmark, meistaranemi, MVS HÍ, Svava Heiðarsdóttir meistaranemi, HVS HÍ, Kathryn Crowe, aðjúnkt, HVS HÍ og Þóra Másdóttir, lektor, HVS HÍ. Leiðbeinandi: Jóhanna Einarsdóttir, prófessor, HVS/MVS HÍ

Markmið: Meginmarkmið þessarar rannsóknar var að kanna fýsileika málörvunarefnis Orðaheimsins (World of Words) í íslensku leikskólaumhverfi. Efnið var þýtt úr ensku og staðfært en kemur upphaflega frá Bandaríkjunum. Aðferð: Fýsileikarannsóknin (e. viability study) fór þannig fram að tvær mismunandi útfærslur efnisins voru prófaðar í tveimur leikskólum í Reykjavík. Annar leikskólinn fylgdi kennslustýrðri nálgun með nákvæmum kennsluleiðbeiningum um framkvæmd og innlögn efnis Orðaheimsins. Hinn leikskólinn þjónaði hlutverki samanburðarhóps. Niðurstöður: Niðurstöður verkefnisins úr sérsniðnu matstæki úr áhersluatriðum Orðaheimsins fyrir og eftir íhlutunarskeið sýndi að efnið var árangursríkt og mældist 22% aukning stiga á mælingum barna frjálsu aðferðarinnar fyrir og eftir íhlutunarskeið en meiri árangur náðist með kennslustýrðu aðferðinni eða 30% að meðaltali. Niðurstöður dagbókarfærslna og gátlista leikskólakennara, sem skýrðu frá innlögn og notkun efnisins, leiddu í ljós að þeir leikskólakennarar sem nýttu kennslustýrðu aðferðina notuðu málörvunarefni Orðaheimsins oftar og var magn (e. dosage) íhlutunarinnar því meira innan þess hóps. Leikskólakennararnir töldu efnið gagnlegt og að það gæti nýst bæði ein- og fjöltyngdum börnum sem þurfa á aukinni málörvun að halda. Ályktanir: Í framhaldi þessarar rannsóknar og áður en stærri fyrirhuguð rannsókn fer fram verður nytsamlegt að rýna í og nýta athugasemdir leikskólakennara um efnivið málörvunarefnisins í þeim tilgangi að aðlaga það enn frekar að börnum á Íslandi.

LANIS skimunarlisti á málþroska 3 ára barna – orðaforði

Rannveig Gestsdóttir, meistaranemi HVS HÍ. Leiðbeinandi: Jóhanna Thelma Einarsdóttir, prófessor, HVS/MVS HÍ, Þóra Másdóttir, lektor HVS HÍ

Markmið: Markmið rannsóknarinnar var að kanna réttmæti LANIS skimunarlista sem metur málþroska og orðaforða barna með því að kanna fylgni listans við tvö málþroskapróf sem meta svipaða hugsmíð. Aðferð: LANIS var lagður fyrir foreldra og leikskólakennara 110 barna á aldrinum 2;9-3;9 ára. Foreldrar og kennarar fylltu jafnframt út málþroskaprófið Orðaskil. Málþroskaprófið Málfærni ungra barna (MUB) var lagt fyrir 105 börn. Niðurstöður: Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru að fylgni LANIS við MUB var r=0,55 þegar foreldrar svöruðu listanum og r=0,63 þegar kennarar svöruðu listanum. Fylgni LANIS við Orðaskil var r=0,89 þegar foreldrar svöruðu listanum og r=0,39 þegar kennarar svöruðu listanum. Fylgni milli svara foreldra og kennara var r=0,58 á LANIS á mál- og talþroska barns og r=0,45 á LANIS við þann hluta sem metur orðaforða sérstaklega. Fylgnistuðlar voru marktækir miðað við p < 0,01. Ályktanir: Niðurstöður sýna viðunandi hugsmíðaréttmæti og samræmi matsmanna á LANIS: Það bendir til að foreldrar og kennarar séu áreiðanlegir þegar kemur að því að meta málþroska barna. Jafnframt benda niðurstöður til að spurningar á listanum séu misvel til þess fallnar að skima fyrir frávikum í málþroska. Greining á einstaka atriðum bendir til að fækka megi spurningum á listanum og með því móti stytta hann.

LANIS skimunarlisti  – framburður þriggja ára barna

Karen Inga Bergsdóttir, meistaranemi HVS HÍ. Leiðbeinendur: Þóra Másdóttir, lektor HVS HÍ og Jóhanna Thelma Einarsdóttir, prófessor, HVS/MVS HÍ

Markmið: Markmið rannsóknarinnar var að kanna réttmæti framburðarhluta LANIS skimunarlistans en listinn er ætlaður foreldrum og leikskólakennurum 3 ára barna. Aðferð: LANIS var lagður fyrir foreldra og leikskólakennara 110 barna á aldrinum 2;9-3;9 ára. Málhljóðapróf ÞM (MHP) var lagt fyrir 103 börn í 12 leikskólum í Reykjavík. Skoðuð var fylgni milli framburðarspurninga á LANIS og hlutfall réttmyndaðra samhljóða (HRS) á Málhljóðaprófi Þóru Másdóttur (MHP). Niðurstöður: Helstu niðurstöður voru þær að miðlungs há jákvæð fylgni var á milli svara foreldra um skiljanleika tals barna LANIS og HRS gilda á MHP (r=0,64) og einnig þegar leikskólakennarar svöruðu sömu spurningum (r=0,69). Há jákvæð fylgni var milli skors á framburði stakra orða á LANIS listanum hjá bæði foreldrum (r=0,75) og svo leikskólakennurum (r=0,82) við HRS gildi barnanna. Fylgni milli svara foreldra og leikskólakennara var miðlungs há og jákvæð á mælingum innan LANIS, þ.e. fyrir skiljanleika tals (r=0,60) og mat á framburði stakra orða (r=0,63). Allir fylgnistuðlar voru marktækir (p < 0,01). Ályktanir: Niðurstöður benda til að réttmætt geti verið að skima fyrir framburði 3 ára barna á öllum hlutum í framburðarhluta LANIS. Einnig gefa niðurstöður til kynna að foreldrar og leikskólakennarar séu nokkuð áreiðanlegir matsmenn á framburð 3 ára barna. Svör þeirra á framburðarorðum á LANIS voru þó áreiðanlegri þegar skorun miðaðist við rétt og röng svör en þegar þeir voru beðnir um nákvæma greiningu á hvaða frávik voru til staðar.

Sögur barna: Þróun starfshátta til eflingar hlustunarskilnings og tjáningarfærni leikskólabarna.

Hrefna Böðvarsdóttir, meistaranemi MVS HÍ. Leiðbeinandi: Sigríður Ólafsdóttir, dósent, MVS HÍ

Í fyrirlestrinum verður fjallað um meistaraverkefni sem fólst í starfendarannsókn á leikskóladeild í Reykjavík. Markmiðið var að þróa lærdómssamfélag starfsmanna í því skyni að efla leikskólastarf með sögum og fjölga þannig tækifærum tveggja og þriggja ára barna til að efla hlustunarskilning sinn og tjáningarfærni. Hlustunarskilningur er undanfari lesskilnings og hefur sömu eiginleika og lesskilningur að undanskildri umskráningu bókstafa sem æfist þegar börn hefja formlegt lestrarnám. Börn þurfa að kynnast þeim heimi sem býr að baki rituðu máli til þess að upplifa þá eftirvæntingu að nota táknmálið til að afla sér upplýsinga um það sem þau hafa áhuga á. Það eru sögurnar eða merkingin að baki stöfunum og orðunum sem veitir aðgang að ævintýraheimum. Að segja börnum sögur er því mjög árangursríkt fyrir hlustunarskilning þeirra en auk þess geta sögur gefið börnum hugmyndir og ný orð sem geta orðið kveikja að ríkulegri tjáningu þeirra í leik. Í starfendarannsókninni var lögð áhersla á að segja börnunum sögur á fjölbreyttan hátt í gegnum gagnkvæm tjáskipti og leikriti með sögusviði og handgerðum brúðum. Börnunum var síðan gefinn kostur á tíma og rými til tjáningar og leiks með fjölbreyttum efnivið sem tengdist sögunum. Gagna var aflað með dagbókarfærslum, fundargerðum, skráningum ásamt myndbandsupptökum og ljósmyndum. Eftir því sem leið á rannsóknina varð starfsfólk í síauknum mæli einhuga um mikilvægi þess að gefa börnunum ríkuleg tækifæri til að efla hlustunarskilning sinn og tjáningarfærni, og því léku sögur sífellt stærra hlutverk í leikskólastarfinu. Í tjáningu barnanna mátti greina góðan skilning á sögunum og sögurnar endurspegluðust í leik þeirra.