Málþroski, læsi og tvítyngi I

Háskóli Íslands

Málþroski, læsi og tvítyngi I

Stofa H-201 kl.10:45 til 12:15

 

Rannsóknahópur um málþroska, læsi og tvítyngi

Sigríður Ólafsdóttir

 

Markviss efling orðaforða og lesskilnings

Sigríður Ólafsdóttir, lektor, MVS, HÍ

Fjallað verður um íhlutunarverkefni með nemendum í 10. bekk tveggja grunnskóla Reykjavíkur. Kennurum hinna ýmsu námsgreina var boðið á námskeið í upphafi skólaárs og á miðjum vetri. Fjallað var um mikilvægi orðaforða og kynntar náms- og kennsluaðferðir sem rannsóknir hafa leitt í ljós að eru árangursríkar til að nemendur efli orðaforða sinn. Áherslan var á námslegan, akademískan orðaforða sem birtist og er notaður á ýmsum sviðum skólastarfsins. Kennarar fengu í hendur orðapakka til að vinna með nemendum sínum, sem innihéldu valin orð úr námsefni og verkefni eins og kynnt höfðu verið á námskeiðinu. Sett var fram sú tilgáta að með aukinni þekkingu nemenda á slíkum orðum myndi lesskilningur þeirra eflast, í samanburði við nemendur sem ekki tóku þátt í íhlutuninni. Nemendur voru prófaðir í orðaforða og lesskilningi í upphafi og í lok íhlutunar. Samanburðarhópur jafnaldra sem ekki tóku þátt í íhlutuninni var prófaður samtímis. Niðurstöður rannsóknarinnar verða kynntar, megindlegar og eigindlegar.

Leikum, lesum og spjöllum

Sólrún Reynisdóttir, leikskólakennari, Leikskóladeildin Hraunvallaskóla og Sigríður Ólafsdóttir, lektor, MVS, HÍ

Fjallað verður um starfendarannsókn á einni leikskóladeild. Meginmarkmið rannsóknarinnar var að skoða með samstarfsmönnum starfshætti á deildinni, til að varpa ljósi á hvernig fjölga mætti tækifærum barna, með íslensku sem annað mál, til að efla íslenskan orðaforða sinn. Megináhersla var lögð á málumhverfi barnanna, málörvun í frjálsum leik og í lestrarstundum. Gagna var aflað með vettvangsathugunum, viðtölum, fundargerðum, rannsóknardagbók og skráningarblöðum. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu fram á sífjölgandi tækifæri til orðaforðaeflingar barnanna. Við lok rannsóknarinnar var málumhverfið meira hvetjandi, daglegar aðstæður voru betur nýttar og starfsmenn náðu stöðugt betur að stuðla að auknum orðaforða þeirra í frjálsum leik. Þá voru lestrarstundir orðnar markvissari og lesið var meira einslega fyrir börnin. Starfsmenn voru almennt ánægðir með rannsóknina, sögðu hana hafa hvatt þá til að staldra við og skoða starfshætti sína sem síðan leiddi til framfara í samskiptum þeirra við börnin. Þeir töldu á þann hátt að rannsóknin hefði eflt þá í starfinu. Ávinningur rannsóknarinnar var einkum sá að ákveðin menning skapaðist á vinnustaðnum, þar sem allir starfsmenn deildu sömu sýn á að nýta tækifærin sem best til málörvunar.

Tíðni orða í tali barna

Jóhanna Thelma Einarsdóttir, dósent, MVS, HÍ, Anna Lísa Pétursdóttir, talmeinafræðingur, Leikskólinn Nóaborg og Íris Dögg Rúnarsdóttir, talmeinafræðingur, Reykjavíkurborg

Tíðni orða í tungumáli hefur áhrif á hvaða orð og orðmyndir við nemum og notum. Við rannsóknir á máltöku barna og einnig við kennslu í móðurmáli skiptir máli að skoða tíðni orða og þá hvaða orð og orðmyndir börnin læra. Greint verður frá niðurstöðum um orðtíðni í tali 2-8 ára barna og fyrirhugaðri útgáfu á rafrænni Orðtínibók. Unnið var út frá 450 málsýnum sem voru flest tekin á árunum 2009 til 2014. Þessi málsýni sýna sjálfsprottið tal barnanna í leik eða samtali við viðmælanda. Málfræðivillur voru merktar með gæsalöppum og framburður var ekki skráður sérstaklega heldur fylgt ritmáli. Við úrvinnslu bókarinnar var stuðst við vinnulag líkt og er í Íslenskri orðtíðnibók. Þannig er t.d. dagur flettimynd orðmyndarinnar daginn og gefa flettimynd orðsins gáfu. Alls voru greind 100.459 lesmálsorð sem reyndust vera 7890 mismunandi orðmyndir eða 3885 flettiorð. Algengustu orðflokkar voru nafnorð 2812 flettiorð (72%), sagnorð 485 flettiorð (12%), lýsingarorð 273 flettiorð (7%) og atviksorð 135 flettiorð (3%). Erlend orð voru mjög fátíð. Á Menntakviku 2017 fjallaði Anna Lísa Pétursdóttir um orðtíðni í máli 5-8 ára barna og 2018 fjallaði Íris Dögg Rúnarsdóttir um orðtíðni 2-5 ára barna en meistaraprófsritgerðir þeirra lögðu grunn að verkefninu. Nú verður fjallað um sameinaða orðtíðnibók 2-8 ára og áhersla lögð á hugmyndir um hvernig kennarar og talmeinafræðingar geta nýtt sér orðtíðnibókina til að byggja upp grunnorðaforða í íslensku, t.d. hjá börnum með málþroskaröskun og börnum af erlendum uppruna sem eru að læra íslensku.

 

Improving the Outcomes of Multilingual Children in Icelandic , Preschools

Kathryn Crowe, postdoc, UI, Jóhanna Thelma Einarsdóttir, associate professor, UI and Þóra Másdóttir, assistant professor, UI

A growing number of children in Iceland are multilingual, coming from homes where languages other than Icelandic are used. In 2017, 12.2% of children enrolled in pre-primary education in Iceland are exposed to a language other than Icelandic at home. Multilingual children often fail to acquire strong skills in the language of education (i.e., Icelandic) and are at risk of significant long-term negative outcomes. Children learning Icelandic through pre-primary education have significant lags in Icelandic skills such as receptive vocabulary, despite having good skills in their home language. Long term, poor Icelandic skills can be related to education outcomes, for example, half of all students with two non-Icelandic parents drop out of upper secondary education. There are currently few language interventions suitable for large-scale implementation by educators to support multilingual children in the pre-primary years and a desperate need exists for high-quality evaluations of promising interventions. In this presentation we will review literature on the needs and outcomes of multilingual children and present the results of a recent quality-focused systematic review looking into interventions used by educators and speech-language pathologists with multilingual children. Plans for an upcoming trial of an intervention designed for multilingual pre-primary children in Iceland will also be presented.

 

Málfærni eldri leikskólabarna: Forprófun á nýju málþroskaprófi fyrir börn á aldrinum 4-6 ára

Elva Bergþóra Brjánsdóttir, talmeinafræðingur, Trappa, Þóra Másdóttir, lektor, HVS, HÍ og Jóhanna Thelma Einarsdóttir, dósent, MVS, HÍ

Á Íslandi hefur verið skortur á málþroskaprófum sem búa yfir nauðsynlegum próffræðilegum eiginleikum til mats á málfærni íslenskumælandi barna. Markmið tveggja meistaraverkefna var að kanna próffræðilega eiginleika málþroskaprófsins Málfærni eldri leikskólabarna (MELB). Athugað var hvort atriðasafn prófsins greindi nægjanlega vel á milli færni barna á þessum aldri í prófþáttum er tóku til málskilnings og máltjáningar. MELB var lagt fyrir 136 börn úr 19 leikskólum á höfuðborgarsvæðinu. Börnin voru eintyngd með íslensku að móðurmáli og talin hafa eðlilega heyrn, greind og málþroska. Helstu niðurstöður voru þær að marktækur munur kom fram á meðaltölum aldurshópanna á öllum prófþáttum, að undanskildum miðaldurshóp og elsta aldurshóp á þætti þar sem börn voru beðin um að endurtaka orðleysur. Einnig kom marktækur munur fram á meðaltölum eftir kyni á tveimur prófþáttum (endurtekningu setninga og framburði fjölatkvæðra orða), stúlkum í vil. Innri áreiðanleiki allra prófþátta spannaði frá því að vera viðunandi (rtt = ,70) til þess að vera mjög góður (rtt = ,92), og mældist ennfremur mjög góður fyrir prófið í heild (rtt = ,90). Fylgni mældist marktæk á milli allra prófþátta (p < ,01). Áreiðanleiki prófsins í heild var góður. Stígandi eftir aldri var viðunandi í öllum prófþáttum, nema einum. Þó nokkur atriði uppfylltu ekki kröfur varðandi próffræðilega eiginleika, m.a. er varðar rétt svarhlutfall eða fylgni við prófþátt. Þessi prófatriði þarf að skoða nánar fyrir næstu skref í þróun prófsins.