Verkefni unnin í samstarfi Menntamálastofnunar og Sálfræðideildar HÍ

Háskóli Íslands

Verkefni unnin í samstarfi Menntamálastofnunar og Sálfræðideildar HÍ

2. október kl. 9.00 til 10.30 Smelltu til að taka þátt á ZOOM!

Menntamálastofnun og Sálfræðideild HÍ

Sigurgrímur Skúlason

Atriðagreining á HLJÓM-2

Júlía Ósk Hafþórsdóttir, nemi, HVS, HÍ og Sigurgrímur Skúlason, aðjúnkt, HVS, HÍ

HLJÓM-2 er skimunarpróf fyrir veikleikum í hljóðkerfisvitund sem notað hefur verið í allflestum leikskólum á Íslandi síðastliðin 20 ár. Aldursviðmið prófsins eru því komin til ára sinna, og ástæða til að kanna hvort nauðsyn sé að endurstaðla prófið. Nýleg rannsókn Sigurgríms Skúlasonar og Andreu Önnu Guðjónsdóttur sýndi að þáttabygging HLJÓM-2 í gögnum sem safnað var 2019 er ólík þáttabyggingu í stöðlunargögnum prófsins. Sú rannsókn byggði hins vegar einungis á gögnum um prófhluta á HLJÓM-2 og úrtak var lítið. Tilgangur þessarar rannsóknar er að kanna eiginleika einstakra prófatriða á HLJÓM-2 auk þess að kanna eiginleika prófhluta þess í stærra úrtaki. Beitt var próffræðilegum aðferðum á svör 230 barna tilviljanaúrtaks við HLJÓM-2 og verður fjallað um eiginleika prófatriða og um prófhluta þess 20 árum eftir að gögn fyrir aldursviðmið þess var safnað. Ályktanir beinast að því hvort þörf er á að endurstaðla HLJÓM-2 prófið.

Réttritun: Niðurstöður á réttritunarprófi sem sýna algengustu villur hjá hverju aldursári

Ólöf Ragna Einarsdóttir, meistaranemi, HVS, HÍ, Unnar Geirdal Arason, meistaranemi, HVS, HÍ Guðbjörg Rut Þórisdóttir, læsisráðgjafi, Menntamálastofnun og Auðun Valborgarson, doktorsnemi, HVS, HÍ

Menntamálastofnun hefur þróað réttritunarpróf sem metur færni nemenda í 3. til 10. bekk grunnskóla í stafsetningu. Inntak prófsins markast einkum af samspili milli aukinnar færni í ritun og því hvernig kröfur áhersluatriði réttritunar gera til færni nemenda og einnig af áherslum sem birtast í námsefni fyrir hvern bekk. Unnið hefur verið að tvenns konar framsetningu á niðurstöðum réttritunarprófsins og verður hér fjallað um niðurstöður sem lúta að villum tengdum helstu áhersluatriðum hjá hverjum árgangi og hvernig niðurstöður um þær verða birtar. Tilgangur þessa verkefnis er að þróa kvarða fyrir helstu reglur um stafsetningu í hverjum árgangi. Greiningin byggir á gögnum 2622 nemenda úr 15 skólum. Nemendur í 3. til 7. bekk voru frá 391 til 447 í hverjum árgangi og á unglingastigi voru 525 nemendur. Verkefnið er unnið með stuðningi Nýsköpunarsjóðs RANNÍS.

Réttritun: Einkunnakvarði sem spannar átta árganga nemenda í grunnskóla

Unnar Geirdal Arason, meistaranemi, HVS, HÍ, Ólöf Ragna Einarsdóttir, meistaranemi, Menntamálastofnun, Auðun Valborgarson, doktorsnemi, HVS, HÍ

Nýlegt réttritunarpróf Menntamálastofnunar er hluti af lesferli og metur það færni nemenda í 3. til 10. bekk grunnskóla í stafsetningu. Prófinu er ætlað að endurspegla stíganda í færni nemenda eftir aldri og byggir inntak þess á greiningu á hvernig kröfur um vald á ritreglum íslensku aukast samhliða vaxandi valdi nemenda á ritun texta frá 3. til 10. bekkjar. Tilgangur verkefnisins er að þróa einkunnakvarða réttritunarprófsins sem endurspeglar stíganda milli árganga. Beitt er skölunaraðferðum sem nýta prófatriði sem eru sameiginleg í aðliggjandi árgöngum til að tengja stíganda í færni frá milli árganga. Niðurstöður sýna stíganda í færni í réttritun milli árganga upp að unglingastigi. Gerð kvarðans byggir á gögnum 2622 nemenda úr 15 skólum. Verkefnið er unnið með stuðningi Nýsköpunarsjóðs RANNÍS.