Mál og kennsla

Háskóli Íslands

Mál og kennsla

1. október kl. 13:45 til 15:15 – Smelltu til að taka þátt á ZOOM!

Hanna Óladóttir 

Kennsla um mál og kennsla í máli: Mikilvæg aðgreining í málfræðikennslu

Hanna Óladóttir, lektor, MVS, HÍ

Mikilvægur hluti málfræðikennslu er að kenna nemendum um málið og hvernig það virkar, gera þá meðvitaða um eigin þekkingu og virkni þeirrar þekkingar svo að þeir eigi sem hægast með að þroskast og þróa málnotkun sína sér til hagsbóta í framtíðinni. Í því sambandi leikur ritmálið stórt hlutverk. Á sama tíma er það líka mikilvægur þáttur ritmálskennslunnar að nemendur tileinki sér ákveðið málsnið sem er ekki endilega í samræmi við máltilfinningu nemenda. Hlutverk kennara er því bæði að kenna nemendum um málið sem þeir þegar kunna og að kenna nemendum hvernig þeir þurfi að breyta málnotkun sinni við ákveðnar aðstæður. Í þessum fyrirlestri hyggst ég fjalla um hvernig kennarar blanda þessu tvennu saman, kennslu um mál og í máli, hvaða áhrif það hefur á hugmyndir nemenda um málið og hvers vegna breytinga er þörf sem ég tengi við málvernd. Til grundvallar legg ég niðurstöður úr doktorsrannsókn minni frá 2017 þar sem ég ræddi við íslenskukennara í unglingadeild nokkurra grunnskóla og nemendur þeirra.

Viðhorf íslenskra barna til íslensku- og enskukennslu í grunnskólum. Niðurstöður viðtalskönnunar og viðbrögð við þeim.

Ólöf Björk Sigurðardóttir, framhaldsskólakennari, Menntaskóli Borgarfjarðar og Sigríður Sigurjónsdóttir, prófessor, HUG, HÍ

Í erindinu verður gerð grein fyrir viðhorfum íslenskra barna til móðurmálsins og alþjóðamálsins ensku og sérstaklega hugað að viðhorfum til íslensku- og enskukennslu í grunnskólum. Unnið var úr svörum 40 barna á aldrinum 3–12 ára í viðtalshluta öndvegisverkefnisins Greining á málfræðilegum afleiðingum stafræns málsambýlis, þar sem hvert barn kom í þrjú 60 mínútna viðtöl. Börnin voru valin út frá magni stafræns ensks ílags/máláreitis, þar sem helmingur barnanna fékk mikið stafrænt ílag en hinn helmingurinn lítið. Niðurstöður benda til að viðhorf barna til beggja mála séu almennt jákvæð og mikið stafrænt ílag virðist ekki hafa neikvæð áhrif á viðhorf til móðurmálsins. Þemagreining á svörum barnanna sýnir að ólík viðhorf til íslensku og ensku má einkum greina í tengslum við skólastarf. Börnin tengja góða færni í íslensku við íslenskukennslu í skólanum þar sem þau læri að tala „rétt mál“. Þar telja þau sig hins vegar læra litla ensku því hana læri þau frekar af því að horfa á enskt efni í frítíma sínum. Börn með mikið stafrænt ílag eru líklegri til að segjast hafa lært ensku á þann hátt. Áhugavert er að börnin telja sig þurfa að læra móðurmálið í skóla en erlenda/annað málið ensku læri þau úti í samfélaginu. Lagt verður út af þessum niðurstöðum og þær tengdar niðurstöðum annarra nýlegra rannsókna á íslensku- og enskukennslu í grunnskólum. Niðurstöður þessara rannsókna virðast kalla á endurskoðun á kennslu í báðum málum í 1.–7. bekk grunnskóla þar sem tekið er mið af breyttri stöðu móðurmálsins og ensku í stafrænu samfélagi nútímans.

Leiðarvísir um stuðning við móðurmál og virkt fjöltyngi í skóla- og frístundastarfi

Renata Emilsson Peskova, doktorsnemi, MVS, HÍ

Að beiðni Mennta- og menningarmálaráðuneytisins var árið 2019 þróaður stuttur, hagnýtur leiðarvísir fyrir kennara og starfsfólk skóla og frístundaheimila, uppalendur og stjórnendur, um leiðir til að styðja við móðurmál og virkt fjöltyngi barna og ungmenna. Öflugur hópur fræðimanna og fagfólks tók saman niðurstöður ýmissa fræðasviða, þekkingu og reynslu með því markmiði að gefa skýr skilaboð og að bjóða upp á fjölbreyttar leiðir fyrir vettvang. Í upphafi greinir leiðarvísirinn frá rétti barna og ungmenna að móðurmáli(-um) sínu(m) og skilgreinir flókin hugtök á borð við móðurmál og virkt fjöltyngi. Síðan fjallar leiðarvísirinn um hlutverk skóla og frístundastarfs og hlutverk foreldra í að styðja við móðurmál og virkt fjöltyngi. Í erindinu verður leiðarvísirinn stuttlega kynntur, en sérstök áhersla verður á einfaldar og flóknari leiðir fyrir kennara og fagfólk til að vinna með ýmis tungumál á sínum starfsstöðum. Leiðarvísir gefur mikilvæg skilaboð til skóla og frístundastarfs um gildi fjölbreyttra tungumála fyrir börn, fjölskyldur og ekki síður samfélagið, innan og utan skóla og á öðrum starfsstöðvum barna og ungmenna, um leið og áhersla er lögð á mikilvægi þess að börn og ungmenni nái aldursviðmiðum í íslensku.