Lýðræði, sjálfbærni og siðferðileg gildi

Háskóli Íslands

Lýðræði, sjálfbærni og siðferðileg gildi

1. október kl. 13:45 til 15:15 – Smelltu til að taka þátt á ZOOM!

Rannsóknarstofan Lífshættir barna og ungmenna

Málstofustjóri: Ragný Þóra Guðjohnsen

Manngerð, lýðræði og sjálfbærni. Andstæður og sameiginlegir þræðir

Ólafur Páll Jónsson, prófessor, MVS, HÍ og Karen Elizabeth Jordan, doktorsnemi, MVS, HÍ

Aðsteðjandi umhverfis- og samfélagsvandi kallar á viðbrögð sem ekki geta verið einskorðuð við afmörkuð sjónarhorn, einstakar fræðigreinar eða tiltekna tegund þekkingar, heldur verður að bregðast við á þverfræðilegan hátt. Þetta á ekki síst við um menntun sem hefur sjálfbærni og velferð að leiðarljósi. Þótt sjálfbærnimenntun, manngerðarmenntun og menntun til lýðræðislegrar borgaravitundar tengist með margvíslegum hætti, þá hafa þessi þrjú svið þróast að verulegu leyti óháð hvert öðru. Í erindinu munum við kafa í faglegar og sögulegar ástæður fyrir þessari aðgreiningu, skoða ástæður þess að ýmsir fræðimenn og kennarar líta á þau sem andstæð, svo sem: Einstaklingsmiðun / félagsleg sýn / áhersla á náttúru og umhverfi, eða gildishlaðin og tæknileg nálgun / fjölhyggja og lýðræði. Við munum síðan skoða nánar hvað sviðin þrjú eiga sameiginlegt og hvernig þau geta í raun stutt hvert annað, bæði frá fræðilegum sjónarhóli – t.d. í gegnum hugtakið um farsæld (evdæmónía) – og frá sjónarhóli kennslu – t.d. út frá hugtakinu um umhverfismiðað nám og út frá áherslum á hæglæti í námi (e. slow learning).

Lýðræðislegir starfshættir og mannréttindafræðsla í grunnskólum á Íslandi

Ragný Þóra Guðjohnsen, lektor, MVS, HÍ og Sigrún Aðalbjarnardóttir, prófessor emeritus, MVS, HÍ

Í íslensku samfélagi hefur orðið vitundarvakning um mikilvægi þess að hlúa strax í æsku að lýðræðis- og mannréttindavitund barna og ungmenna og að þau öðlist skilning og reynslu af því að vera virkir borgarar í lýðræðissamfélagi. Í skóla- og tómstundastarfi skapast kjörin tækifæri til að vinna með þessa grunnþætti og finna má markmið þar að lútandi í aðalnámskrá á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi og jafnframt í stefnumótun í æskulýðsmálum. Réttindaskólaverkefni UNICEF hefur enn frekar stutt við þessa þróun hér á landi en hugmyndafræði verkefnisins byggir á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og innleiðingu hans í skóla- og frístundastarfi. Rannsóknin sem kynnt verður er hluti alþjóðlegs rannsóknarverkefnis sem ber nafnið Self, Virtue and Public Life. Í íslensku rannsókninni verða skoðaðir snertifletir menntunar sem tengjast mennsku, sjálfbærni og borgaravitund (e. Sustainability-, civic- and character education in a pluralistic democracy: Examining existing tensions and opportunities for integration). Í erindinu kynnum við niðurstöður úr fyrsta áfanga rannsóknarinnar en þar var lagður spurningalisti fyrir skólastjórnendur í öllum grunnskólum á Íslandi. Spurt var um að hve miklu leyti skólar styðjast við lýðræðislega starfshætti, vinna með mannréttindi, siðferðisgildi og dygðir og gefa nemendum tækifæri til virkrar þátttöku. Þessi hluti rannsóknarinnar var framkvæmdur í samvinnu við umboðsmann barna fyrir Barnaþing 2019. Við greiningu gagnanna verður notuð lýsandi tölfræði en jafnframt var stuðst við greiningarlíkan Lauru Lundy um þátttöku barna. Í erindinu verða kynntar niðurstöður um stöðu lýðræðislegra starfshátta í skólum á Íslandi og möguleika nemenda til virkrar þátttöku. Einnig verður rætt um mannréttindakennslu, vettvang hennar í skólastarfi og helstu kennsluaðferðir.

Réttindasmiðja: Hagnýtt og aðgengilegt kennsluefni fyrir réttindafræðslu barna

Hanna Borg Jónsdóttir, kennari og lögfræðingur, Flataskóli og Ragný Þóra Guðjohnsen, lektor, MVS, HÍ

Rannsóknir hér á landi og erlendis gefa til kynna mikilvægi þess að tryggja markvissa réttindafræðslu barna og hún hafi þýðingu fyrir velferð þeirra og borgaravitund. Ísland varð aðili að Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna árið 1992 og sáttmálinn var síðar lögleiddur árið 2013. Íslenska ríkið skuldbatt sig þar með til þess að fræða börn hér á landi um réttindi sín. Þetta endurspeglast í menntastefnu þjóðarinnar og þá hafa til dæmis umboðsmaður barna, Barnaheill og UNICEF unnið að innleiðingu sáttmálans og útbúið ýmiss konar fræðsluefni. Þrátt fyrir þetta hafa kennarar rætt um skort á hagnýtum efnivið og leiðum sem nota megi við heildstæða og markvissa réttindakennslu í skólastarfi. Í rannsókn þessari var unnið að gerð námsefnis fyrir grunnskóla, sem nýta má í vinnu með Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Markmið námsefnisins, sem fékk heitið Réttindasmiðja, er að útbúa hagnýtt og aðgengilegt efni til þess að nýta í réttindafræðslu barna. Sérstaklega var hugað að því að svara markmiðum aðalnámskrár en Réttindasmiðjan býður upp á kjöraðstæður til þess að takast á við verkefni sem snúa með beinum hætti að grunnþáttunum sex um lýðræði og mannréttindi, jafnrétti, sjálfbærni, læsi, heilbrigði og velferð og sköpun. Útbúnar voru kennsluáætlanir fyrir 15 kennslustundir sem hver og ein er um 80 mínútur að lengd. Námsefnið inniheldur ítarlega fræðslu sem snýr að hugtökunum mannréttindi, jafnrétti, fordómar, sjálfbærni og að setja sig í spor annarra. Í erindinu verður námsefnið kynnt nánar og sagt frá þróun þess og innleiðingu í réttindaskólastarfi í Flataskóla.