Listgreinar

Háskóli Íslands

Listgreinar

1. október kl. 13:45 til 15:15 – Smelltu til að taka þátt í ZOOM!

Rannveig Björk Þorkelsdóttir

„Það er í loftinu“: KennsluList Magnúsar Pálssonar

Aðalheiður Lilja Guðmundsdóttir, lektor, LHÍ

Í listkennslu sinni hér á landi og erlendis á árunum 1975–1985 gekk Magnús Pálsson myndlistarmaður út frá því að listnám og kennsla væru listgrein í sjálfu sér sem hann nefndi „geggjuðustu listgreinina“. Frumleg nálgun Magnúsar í kennslu og miðlun tengdist þeim miklu umbreytingum í listsköpun sem voru í loftinu á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar og lögðu grunninn að ýmsu sem við teljum sjálfsagða hluta af myndlist og listkennslu nú á dögum. Nýlistin hélt innreið sína með nýjum ögrandi heildarhugmyndum um hvað list væri en í þeim fólust líka tilraunir til samruna hinna ýmsu listgreina eins og sviðslista, tónlistar og myndlistar. Listhugtakið þandist út í vestrænum listheimi og var það hér á landi einna helst Magnús sem nam á undan sínum samferðamönnum þessar nýju hugmyndir um listina og kveikti áhuga yngri listamanna með kennslu sinni. Í rannsókninni er skoðuð afstaða Magnúsar til listarinnar út frá þeim hugmyndum sem svifu í loftinu og hvernig þær birtast á einstakan hátt í miðlun hans og nálgun við listnám almennt. Einnig er litið á listrænar aðferðir sem hann stundaði til að örva nemendur og sjálfan sig til að þenja mörk í listsköpun og fara mögulega lengra en þeir gætu á eigin forsendum með samstarf og vináttu að leiðarljósi. Rannsóknin er unnin á forsendum listheimspeki og listasögu en lokaniðurstöðu er ekki að vænta fyrr en á haustmánuðum. Niðurstöður rannsóknarinnar munu nýtast við listkennslu, frekari rannsóknir á sögulegum forsendum hennar hér á landi og alþjóðlegu samhengi hennar.

Að láta draumana rætast; áhrif Skrekks, hæfileikakeppni í grunnskólum í Reykjavík, á líðan og sjálfsmynd unglinga

Jóna Guðrún Jónsdóttir, aðjúnkt, MVS, HÍ og Rannveig Björk Þorkelsdóttir, dósent, MVS, HÍ

Á hverju ári frá árinu 1990 hefur Reykjavíkurborg boðið nemendum í grunnskólum Reykjavíkur að taka þátt í Skrekk, hæfileikakeppni grunnskóla Reykjavíkur, þar sem lögð er áhersla á virka þátttöku, lýðræði, reynslunám og mannréttindi. Í þessu erindi gefum við innsýn í yfirstandandi rannsóknarverkefni þar sem markmiðið er að stuðla að aukinni þekkingu á listkennslu og skoða hvaða áhrif þátttaka í verkefni eins og Skrekk hefur á líðan og sjálfsmynd barna og unglinga. Jafnframt verður skoðað hvaða áhrif þátttaka nemenda á unglingastigi í Skrekk hefur á skólabrag og skólamenningu. Aðferðafræðin sem notuð er í þessari rannsókn er eigindleg (e. qualitative research) og felur í sér viðtöl við þátttakendur ásamt þátttökuathugun. Frumniðurstöður sýna að þátttaka í Skrekk hefur mikil áhrif á líðan og sjálfsmynd unglinganna sem taka þátt. Þátttakan er valdeflandi fyrir þá nemendur en hefur jafnframt líka áhrif á skólamenninguna og skólabraginn þann tíma sem undirbúningur undir Skrekk og sjálf keppnin fer fram. Það kemur skýrt fram hjá nemendum mikilvægi þess að Skrekkur er keppni sem gefur þátttökunni meira vægi og ýtir undir samheldni unglinganna í skólanum í formi stuðningsliðs.

„Að vera í takt við tímann…“ Snjalltækni í skapandi námi

Hanna Ólafsdóttir, lektor, MVS, HÍ

Í framtíðinni þá má búast við að líf og starf komi í æ ríkari mæli til með að mótast af stafrænni tækni og nýjum og flóknum viðfangsefnum. Eins og kemur fram í Eurydice-skýrslunni (Digital Education at School in Europe) þá hefur nýting stafrænnar tækni til náms og skemmtunar vaxið hröðum skrefum en þó að stærstum hluta utan skólanna. Ef sett eru lykilmarkmið um menntun og hæfni nemenda af stjórnvöldum er nauðsynlegt að námsframboðið og námsefnið sem sé til boða geti mætt þeim kröfum og búið nemendur undir framtíðina. Námskrárbreytingar hafa einnig skapað aukið svigrúm fyrir kennara að þróa, prófa og innleiða nýja kennsluhætti sem taka mið af tækniveruleika skólanna. „Að vera í takt við tímann…“ Snjalltækni í skapandi námi er nýtt námskeið á MVS og er ætlað að styðja við skapandi námsumhverfi nemenda og auka tækni- og menningarlæsi. Námskeiðið var í fyrsta skipti kennt á vorönn 2020 og er liður í að koma til móts við þessar nýju áherslur. Hlaut verkefnið styrk úr Kennslumálasjóði 2020. Aðferðafræðin sem notuð er í þessari samantekt byggist á eigindlegum rannsóknum (e. qualitative research) og þátttökuathugun. Forkönnun sýnir að nemendur hafa fengið innsýn og þekkingu á að vinna m.a. myndræn verkefni þar sem tækni og listræn nálgun fléttast saman. Gagnvirkir miðlar og stafrænar miðlunarleiðir geta eflt og stutt við skapandi hugsun nemenda og nýst kennurum til að styðja við bæði hefðbundnar og óhefðbundnar aðferðir.

Draumasviðið: Rannsókn

Rannveig Björk Þorkelsdóttir, dósent, MVS, HÍ og Hanna Ólafsdóttir, lektor, MVS, HÍ

Í Aðalnámskrá grunnskóla er lögð áhersla á sköpunargáfu, aðlögunarhæfni og betri samskiptahæfni einstaklingsins. Þessi áhersla byggir á hugmynd um víðtækari þjálfun ungmenna til að auka sjálfstraust þeirra og gera þau hæfari í breyttum heimi. Unglingar nú á dögum upplifa sjaldan öryggi til að skapa, þróa og prófa sig áfram í ótta við að gera mistök og uppskera neikvæð viðbrögð frá jafningjahópnum. Á tímum þar sem félagslegu öryggi okkar er ekki einungis ógnað í raunheimum heldur einnig á netinu eru auknar líkur á að ungmenni þrói með sér óraunhæfar kröfur til lífs síns, hvernig þau „eiga“ að líta út, hvað er eðlilegt í samskiptum og hver vinnan er að bak sigrunum. Í þessu erindi gefum við innsýn í rannsóknarverkefni þar sem markmiðið var að stuðla að aukinni þekkingu á listkennslu í grunnskólum og skoða hvaða áhrif þátttaka í verkefni eins og Draumasviðinu hefur á sjálfsmynd barna og unglinga. Aðferðafræðin sem notuð er í þessari rannsókn er eigindleg (e. qualitative research) og felur í sér viðtöl við þátttakendur ásamt þátttökuathugun. Draumasviðið var samstarfsverkefni Frístundamiðstöðvarinnar Tjarnarinnar, Austurbæjarskóla og Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Markmiðið var að búa til öruggt rými til listsköpunar þar sem nemendur gætu lært að mistök og tilraunir væru af hinu góða og mikilvægt veganesti í lífinu. Niðurstöður sýna að nemendur lærðu að standa með sjálfum sér og sínum ákvörðunum. Jafnframt var þátttaka í Draumasviðinu valdeflandi fyrir nemendur þar sem unglingalýðræði var nýtt í sköpunarferlinu.