Leikur að orðum og heimsfaraldur

Háskóli Íslands

Leikur að orðum og heimsfaraldur

1. október kl. 15:30 til 17:00 – Smelltu til að taka þátt á ZOOM!

Orðanefnd í tómstundafræði og Orðanefnd í lýðheilsufræði

Málstofustjóri: Jakob Frímann Þorsteinsson

Lýðheilsa í brennidepli

Sigríður Kr. Hrafnkelsdóttir, verkefnisstjóri, Embætti Landlæknis og Ágústa Þorbergsdóttir, Árnastofnun

Sjaldan hefur lýðheilsa verið rædd jafn mikið og nú þegar heimsfaraldur vegna COVID-19 hefur geisað síðastliðinn vetur. Faraldurinn gefur tilefni til nýrrar orðanotkunar og því mikilvægt að skrá þau sem íðorð undir flokki lýðheilsuorða. Íðorðanefnd lýðheilsu hefur verið starfrækt síðan 2017 og hefur gefið út 117 orð. Nú bætast við um 60 orð og hluti þeirra eru nýyrði sem sköpuðust í COVID-19 heimsfaraldrinum. Skráning á slíkri orðanotkun er afar mikilvæg fyrir orðanotkun til framtíðar. Ljóst er að mikið verður skrifað og rætt í framtíðinni um heimsfaraldurinn og því afar mikilvægt að festa orðanotkun sem fyrst með skráningu og að hægt sé að fletta upp orðum til notkunar í fræðigreinum þannig að skilningur orða sé sameiginlegur öllum sem fræðin rita.

Orðaforði í leik – Unnið með kennsluaðferðina Sérfræðingskápan með ungum börnum

Ása Helga Proppé Ragnarsdóttir, aðjúnkt, MVS, HÍ og Hafdís Guðjónsdóttir, prófessor, MVS, HÍ

Erindi þetta byggir á niðurstöðum rannsóknar sem var framkvæmd í tveimur leikskólum á höfuðborgarsvæðinu. Tilgangur rannsóknarinnar var að öðlast skilning og þekkingu á kennsluaðferðinni sérfræðingskápan. Markmiðið var að nota kennsluaðferðina, sem er ein af kennsluaðferðum leiklistar, og skoða hvernig hægt væri að skipuleggja nám barna sem væru sett í hlutverk í ímynduðum heimi. Þátttakendur voru fimm ára leikskólabörn, sex starfsmenn leikskóla, tveir rannsakendur og einn meistaranemi. Gagna var aflað með upptökum á kennslustundum, rýnihópaviðtölum og rannsóknardagbók. Auk þess var verkefnum barnanna haldið til haga. Í niðurstöðum kom m.a. fram að sérfræðingskápan hefur jákvæð áhrif á nám barna, þau tóku virkan þátt í þeim athöfnum sem voru skipulagðar og sýndu áhuga á verkefnum sem voru lögð fyrir. Skipulagning náms með notkun sérfræðingskápunnar gaf börnunum tækifæri til að læra í gegnum leik sem er náttúruleg leið barna til náms og þroska. Kennsluaðferðir leiklistar eru fjölbreyttar, þær byggja á leik og opna möguleika á mismunandi hlutverk fyrir börn og fullorðna. Verkefnin sem voru unnin með aðferðum sérfræðingskápunnar gáfu börnunum möguleika á að vinna með orðaforða, samskipti, hlustun og skapandi verkefni. Sérfræðingskápan hefur yfirleitt verið notuð með eldri börnum en það kom í ljós í rannsókninni að hún hentar mjög vel með börnum á leikskólaaldri.

Hversdagsleg hugtök í fræðilegu samhengi?

Ágústa Þorbergsdóttir, deildarstjóri, Árnastofnun

Orðanefnd í tómstundafræði hefur lagt áherslu á skýra orðanotkun og á síðasta ári gaf hún út orðasafn í greininni þar sem skilgreind eru um 100 lykilhugtök tómstundafræðinnar. Orðanefndin hefur ávallt lagt áherslu á samráð og samtal um hugtakanotkun á vettvangi fags og fræða. Undanfarið hefur orðanefndin fengist við að skilgreina leiki sem er eitt af undirsviðum tómstundafræði og fleiri greina. Enda þótt leikur sé athöfn sem oftast er farið í til skemmtunar getur hann haft vægi sem náms- og kennsluaðferð. Hugtakið leikur er þó flókið og yfirgripsmikið og engin ein viðurkennd skilgreining er til á því. Í erindinu verður fjallað þessa vinnu orðanefndarinnar. Í umfjölluninni verður tekist á við þá spurningu hvort hægt sé að fjalla um leikjahugtök, sem mörg hver eru óljós, með aðferðum íðorðafræði sem einkennist af skýrri og markvissri hugtakanotkun. Greint verður frá markmiði orðanefndar í þessu verkefni og fjallað um helstu áskoranir. Hversu skýr eru leikjahugtökin í raun og hver er gagnsemi þess hafa sameiginlegan skilning á leikjahugtökum?