Leikskólinn, börn og kennarar

Háskóli Íslands

Leikskólinn, börn og kennarar

1. október kl. 9:00 til 10:30 – Smelltu til að taka þátt á ZOOM!

Ingibjörg Ósk Sigurðardóttir

„Það skiptir alveg rosalega miklu fyrir börnin að þeir sem þekkja börnin tali saman“: Rannsókn um samfellu í námi barna

Ingibjörg Ósk Sigurðardóttir, lektor, MVS, HÍ og Jóhanna Einarsdóttir, prófessor, MVS, HÍ

Í aðalnámskrám leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla er kveðið á um samfellu og tengsl milli skólastiganna. Þar eru settir fram sex sameiginlegir grunnþættir menntunar sem eiga að mynda kjarna íslenskrar menntastefnu og skapa samfellu í skólastarfi. Rannsóknir sýna að farsæll flutningur barna milli skólastiganna getur haft afgerandi áhrif á sjálfsöryggi þeirra, námsgengi og fullgildi. Til þess að tryggja gæðamenntun þarf skólakerfið að mynda eina samfellda heild þar sem eitt skólastigið tekur við af öðru og byggir á þeim grunni sem lagður var á fyrri stigum. Markmið rannsóknarinnar er að varpa ljósi á reynslu og sjónarmið kennara í leik- og grunnskólum og starfsfólks frístundaheimila á samfellu í skólastarfi, samstarf þessara aðila og þær áskoranir sem felast í samstarfinu. Tekin voru rýnihópaviðtöl við 13 kennara í fimm grunnskólum og 15 kennara í fimm leikskólum. Einnig voru tekin einstaklingsviðtöl við fimm forstöðumenn frístundaheimila. Viðtölin voru hljóðrituð og síðan afrituð. Gögnin voru kóðuð í fjórum skrefum. Bráðabirgðaniðurstöður benda til þess að bæði leik- og grunnskólakennarar leggi töluverða áherslu á að undirbúa elstu börn leikskólans fyrir nám í grunnskóla. Að mati þátttakendanna hefur áhersla á samfellu milli skólastiganna og samstarf milli kennara aukist á undanförnum árum. Þáttur frístundaheimilanna hefur jafnframt aukist. Byggt verður á hugmyndum Boyle og Petriwskyj um fjögur stig í samskiptum kennara á mótum skólastiga við túlkun niðurstaðanna. Rannsóknin er mikilvægt framlag til fræðasamfélagsins og eykur skilning á gæðum menntunar yngstu borgaranna og hvernig stuðla megi að heildstæðri menntun íslenskra barna og ungmenna.

„Ég valdi sjálfa mig fram yfir fagstéttina“: Reynsla leikskólakennara af starfsumhverfi og starfsánægju í leik- og grunnskóla

Ólöf Magnea Sverrisdóttir, leikskólastjóri í Reykjanesbæ og Sigrún Gunnarsdóttir, dósent, FVS, HÍ og prófessor, HB

Undanfarin ár hefur brottfall leikskólakennara úr fagstéttinni verið mikið og á sama tíma hefur nýútskrifuðum leikskólakennurum fækkað. Með nýrri lagabreytingu um leyfisbréf kennara geta þeir starfað á öllum þremur skólastigum og hafa þessari breytingu fylgt áhyggjur um enn frekara brottfall leikskólakennara úr stéttinni. Niðurstöður fyrri rannsókna hér á landi sýna að starfsánægju leikskólakennara er ábótavant og jafnframt að leikskólakennarar sem upplifa gott starfsumhverfi og innri hvata eru frekar ánægðir í starfi. Tilgangur rannsóknarinnar sem hér um ræðir er að öðlast skilning á hvaða upplifun og reynslu leikskólakennarar hafa af starfsumhverfi og starfsánægju í leik- og grunnskóla og hvað ýtir undir að þeir færa sig yfir á annað skólastig. Gerð var eigindleg rannsókn og tekin hálfopin viðtöl við átta leikskólakennara sem hafa starfað í grunnskólum. Niðurstöður gefa til kynna að álag á leikskólakennara er mikið og álagsþættir eru einkum áreiti, rými og fjöldi barna og samræmast þær niðurstöður fyrri rannsóknum. Einnig benda niðurstöður til þess að sveigjanlegur vinnutími, áhrif á eigin störf, hæfileg viðvera með nemendum, faglegt starf með fagfólki og nægilegt rými til undirbúnings og samstarfs séu þættir í starfsumhverfinu sem skapi starfsánægju þátttakenda. Fram kom að erfitt hefði verið fyrir leikskólakennarana að taka ákvörðun um að færa sig yfir á grunnskólastigið en þeir gerðu það til að vernda sjálfa sig og standa með sjálfum sér. Niðurstöðurnar má nýta sem grunn að breytingum þannig að leikskólakennarar fái þarfir sínar uppfylltar sem kennarar í leikskóla.

Tíu ára þróunarstarf í leikskólanum Aðalþingi

Guðrún Alda Harðardóttir, leikskólaráðgjafi og Hörður Svavarsson, leikskólastjórnandi, Aðalþing

Erindið byggist á rannsókn á tíu ára starfsþróun eins leikskóla á höfuðborgarsvæðinu. Meginmarkmið rannsóknarinnar er að skoða hvaða lærdóm má draga af tíu ára þróunarstarfi í viðkomandi leikskóla í ljósi leikskólafræða, frumkvöðlafræða og skólaþróunar. Rannsóknin er starfendarannsókn. Rannsóknargögn eru fundargerðir, ljósmyndir, myndbönd, birt og óbirt gögn leikskólans. Gögnin eru greind út frá hugmyndafræði Malaguzzi, frumkvöðlafræði Lean og fræðum um skólaþróun. Gerð er grein fyrir leiðum sem hafa reynst vel til að stuðla að heildrænu námssamfélagi, skapa aðstæður fyrir ígrundun og samræður meðal starfsfólks og stuðla að því að starfsfólk ígrundi og hugsi um eigið starf. Helstu niðurstöður eru mikilvægi þess að starfsfólkið hafi sameiginlega sýn á leikskólastarf – „skólastefnu“, sterk samfella sé milli skólastefnu og stjórnarhátta í leikskólanum og að skýrar hugmyndir um stjórnun auðveldi skólasamfélaginu að tengja stefnuna við hið daglega starf og gera skólann að einni heild. Jafnframt kemur fram mikilvægi þess að innleiða menningu sem hvetur til nýsköpunar. Rýna þarf í það hefðbundna og velta fyrir sér hvort það sé það besta nú á dögum – ef ekki að vinna þá að þróun nýjunga – þar sem stundum þarf „usla í skólasamfélagi“ til að þróa.