Leiðir til að draga úr lestrarerfiðleikum, efla lesfimi og lesskilning

Háskóli Íslands

Leiðir til að draga úr lestrarerfiðleikum, efla lesfimi og lesskilning

2. október kl. 13:45 til 15:15 Smelltu til að taka þátt á ZOOM!

 

Rannsókna- og fræðslustofa um þroska, læsi og líðan barna og ungmenna

Steinunn Torfadóttir

 

Markvisst samvinnunám í læsi: Áhrif og reynsla kennara hérlendis

Anna-Lind Pétursdóttir, prófessor, MVS, HÍ, Rósa Lilja Thorarensen, meistaranemi, MVS, HÍ og Sara Fawcett, meistaranemi, MVS, HÍ

Aðferðir PALS (e. peer-assisted learning strategies) við samvinnunám byggja á víðtækum rannsóknum og hafa reynst vel erlendis til að efla læsi fjölbreytts nemendahóps frá leikskóla upp á unglingastig. Í þessu erindi verður birt yfirlit um þær rannsóknir sem hafa verið gerðar hér á landi á reynslu kennara af íslenskum útgáfum aðferðanna og áhrifum þeirra á lestrarfærni nemenda. Meðal annars verður fjallað um niðurstöður hálfstaðlaðra viðtala við ellefu grunnskólakennara um reynslu þeirra af notkun Krakka-PALS (e. Kindergarten-PALS) við lestrarkennslu í 1. bekk og fjórtán kennara um reynslu þeirra af notkun PALS við lestrarkennslu í 2. til 6. bekk. Viðmælendum fannst almennt K-PALS vera gagnleg viðbót við lestrarumhverfi barna í 1. bekk. Öllum fannst aðferðirnar efla lestrarfærni nemenda og ýta undir samvinnu þeirra. Stór meirihluti viðmælenda taldi K-PALS hafa jákvæð áhrif á nemendur með íslensku sem annað tungumál og námserfiðleika þar sem þær veita kerfisbundna þjálfun hljóða og efla umskráningarfærni og sjónrænan orðaforða nemenda. Nokkrir töldu K-PALS gera þeim kleift að finna nemendur í áhættu fyrir lestrarvanda. Flestir sögðu nemendum þykja skemmtilegt í K-PALS-kennslustundum en nokkrir nefndu að nemendur yrðu sumir þreyttir á endurtekningum í síðustu kennslustundunum. Í svörum kennara með reynslu af PALS í 2. til 6. bekk kom fram ánægja með skipulag aðferðanna og virkni nemenda. Þeim fannst PALS veita mikla þjálfun í lestri og lesskilningi samhliða að bæta samvinnu og félagsleg tengsl nemenda. Viðmælendur töldu samstarf við aðra kennara, þar á meðal sérkennara, veita mikilvægan stuðning og þá sérstaklega við innleiðingu PALS-aðferðanna. Að lokum verður fjallað um yfirstandandi rannsóknir og fyrstu niðurstöður þeirra.

 

Þjálfun kennaranema í Beinni kennslu og fimiþjálfun: 25 tilviksrannsóknir

Guðrún Björg Ragnarsdóttir, doktorsnemi, MVS, HÍ, Anna-Lind Pétursdóttir, prófessor, MVS, HÍ

Fjallað verður um inngrip 25 meistaranema við Menntavísindasvið (MVS) Háskóla Íslands í lestrarkennslu, með áherslu á raunprófaðar aðferðir; Beina kennslu og fimiþjálfun. Markmið tilviksrannsóknarinnar var að skoða hvaða árangri meistaranemar næðu í lestrarkennslu grunnskólanemenda með breyttum áherslum undir leiðsögn kennara MVS. Meistaranemarnir kenndu 18 drengjum og sjö stúlkum (frá 6 til 13 ára) með og án lestrarerfiðleika í alls 15 kennslustundir yfir 5 vikna tímabil. Alls voru 18 nemendur með lestrarerfiðleika en einnig tóku þátt nemendur með ADHD, málþroskahömlun, tvítyngdir nemendur og einhverfir nemendur. Í kennslunni var lögð áhersla á að bæta lestrarhraða nemenda með Beinni kennslu og fimiþjálfun. Lestrarhraði nemenda jókst að meðaltali um 14 orð á mínútu á kennslutímabilinu. Meirihluti, eða 23 af 25 nemendum, náði settu markmiði í bætingu lestrarhraða sem myndi gera þeim kleift að ná opinberum viðmiðum Menntamálastofnunar um lestrarfærni með tímanum. Nánast enginn munur reyndist á lestrarhraða barna með og án lestrarerfiðleika að lokinni rannsókn. Niðurstöður benda til að þjálfun meistaranema við MVS í raunprófuðum aðferðum við lestrarkennslu geti gert þeim kleift að beita aðferðunum með grunnskólanemendum og þannig bætt lestrarfærni þeirra.