Látum draumana rætast – Nýsköpun og tækni

Háskóli Íslands

Látum draumana rætast – Nýsköpun og tækni

2. október kl. 9.00 til 10.30 Smelltu til að taka þátt á ZOOM!

Nýsköpunarmiðja menntamála á Skóla- og frístundasviði Reykjavíkur

Þorbjörg St. Þorsteinsdóttir

Draumar og upplifanir í Mixtúru

Bjarndís Fjóla Jónsdóttir, Erla Stefánsdóttir, Hildur Rudolfsdóttir og Þorbjörg St. Þorsteinsdóttir. Allir höfundar eru verkefnastjórar hjá Nýsköpunarsmiðju menntamála á Skóla- og frístundasviði Reykjavíkur

Menntastefna Reykjavíkur er umgjörð um menntun sem byggir á farsælu skóla- og frístundastarfi í borginni, tekur framtíðinni opnum örmum og veitir nýrri tækni, þekkingu, hugmyndum og fjölbreytileika farveg. Í stefnunni er lögð áhersla á notkun stafrænnar tækni til að auðga menntun og veita börnum fjölbreytt tækifæri til sköpunar og tjáningar. Nýsköpunarmiðja menntamála (NýMið) hefur það hlutverk að veita starfsstöðum Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar (SFS) stuðning og ráðgjöf við innleiðingu menntastefnunnar, stuðla að samstarfi við háskóla um starfsþróun og veita stuðning við þróun og nýsköpun á starfsstöðum sviðsins í samstarfi við fagskrifstofu SFS, Miðju máls og læsis o.fl. Einn angi af starfsemi NýMið teygir sig inn í Mixtúru þar sem lögð er megináhersla á miðlun, ráðgjöf og starfsþróun um skapandi og framsækna tækninotkun í námi, kennslu og starfi. Mixtúra flutti haustið 2019 á nýjan stað í gömlu húsi í Safamýri 5. Gefin verður innsýn í starfsemina sem nýtur þess að aukið rými skapar tækifæri til að þróa og prófa nýjar og áhugaverðar áherslur í anda menntastefnunnar, nýsköpunar og fagmennsku fyrir börnin í borginni.

Þróunarstarf og tæknikistur leikskóla

Guðrún Þorleifsdóttir, aðstoðarleikskólastjóri, Leikskólinn Nóaborg og Sunneva Svavarsdóttir, kennari, Dalskóli

Haustið 2019 fengu fimm leikskólar í mismunandi hverfum Reykjavíkur afhentar tæknikistur með margvíslegum tæknibúnaði, forritanlegum verkfærum og efniviði fyrir leikskólabörn. Um er að ræða nýsköpunarverkefni í anda nýrrar menntastefnu Reykjavíkurborgar sem leggur áherslu á samráð um markvissa og ígrundaða notkun stafrænnar tækni í starfi. Kisturnar eru hluti af búnaði í Búnaðarbanka Skóla- og frístundasviðs (SFS) sem er í umsjón Nýsköpunarmiðju menntamála. Hugmyndin að baki bankanum er að gera starfsfólki SFS kleift að prófa ýmsar nýjungar sem styðja við lykilhæfni 21. aldarinnar, henta vel í skapandi starfi og styðja við fjölbreytt læsi og upplifanir. Fjallað verður um samstarf og áherslur í verkefninu og hugmyndum að starfi með ungum börnum miðlað. Gefin verða dæmi af starfi leikskóla sem hafa á undanförnum árum tekið þátt í innlendum sem erlendum þróunar- og nýsköpunarverkefnum. Markmið þeirra framsæknu verkefna tengjast meðal annars leiðum til að efla stafræna kunnáttu og færni starfsfólks í starfi sínu með börnunum. Slíkt styður við nám og leik þar sem öll börn hafa aðgengi að upplýsingatækni og læra að nota hana á markvissan og ábyrgan hátt í anda aðalnámskrár leikskóla. Það sama á við um áherslur sem skapa foreldrum innsýn í leikskólastarf sem leggur áherslu á ábyrga og uppbyggilega notkun upplýsingatækninnar þar sem fókus á sköpun, læsi og sjálfseflingu er í fyrirrúmi.

Skapandi námssamfélag í Breiðholti

Þóra Óskarsdóttir, forstöðukona, Fab Lab Reykjavík

Markmið skapandi námssamfélags er að auðga sköpunargleði barna með því að veita sem flestum tækifæri til að nýta hugvit sitt. Nemendur kynnast fjölbreyttum leiðum til að koma hugmyndum í framkvæmd og öðlast þannig verkfærni og getu til að nýta tæknina. Mikilvægur þáttur í verkefninu er að börn láti skoðanir sínar í ljós til að hafa jákvæð áhrif á umhverfi sitt og geti þannig komið af stað úrbótum á áskorunum sem fullorðnir hafa ekki orðið varir við. Nemandinn sem virkur þátttakandi er sameiginlegt leiðarljós skapandi námssamfélags og menntastefnu Reykjavíkur. Menntastefna Reykjavíkurborgar er mikilvæg undirstaða verkefnisins sem nú er í vexti. Á þessu fyrsta starfsári var lögð áhersla á að fagvitund kennara yrði efld þannig að skapandi nám barna færi fyrst og fremst fram samhliða daglegu skólastarfi. Hugsjón skapandi rýma er að þar verði hugmyndir til, stór hluti af þeim sjálfsprottinn – afleiðing af góðu aðgengi að bæði tækjabúnaði, þekkingu og öflugri ráðgjöf. Breiðholt hefur verið tilvalinn staður til að virkja nýsköpunarmennt í borginni. Þar er Fab Lab Reykjavíkur og fjöldi snillismiðja (e. makerspace) í grunnskólum sem veita börnum tækifæri til sköpunar. Með færni í kennslufræði nýsköpunar og stafræna framleiðslutækni skapast forsendur til þess að skapandi skólastarf nái flugi.

Tímamót í frístundastarfi. Áhrif markvissrar vinnu rafíþrótta á félagsþroska

Árni Jónsson, framkvæmdastjóri, Frístundamiðstöðin Ársel

Ein af stórum áskorunum sem frístundastarf hefur staðið frammi fyrir á undanförnum árum er mikil aukning á þátttöku í spilun tölvuleikja. Áhrifin birtast meðal annars í minni aðsókn í félagsmiðstöðvar og hefur reynst erfitt að ná til unglinga sem eru virkir spilarar. Einn af fimm grundvallarþáttum menntastefnu Reykjavíkurborgar fjallar um félagsfærni þar sem áhersla er lögð á virka þátttöku einstaklingsins. Kannanir sýna að rúmlega 50% af unglingsdrengjum í 8., 9. og 10. bekk í Reykjavík spila tölvuleiki að jafnaði meira en tvær klukkustundir á dag en aðeins um 7% stúlkna á sama aldri spila meira en tvær stundir. Einn af áhættuþáttum þess að eyða miklum tíma í tölvuleikjaspilun er lítil félagsleg þátttaka sem getur leitt til félagslegrar einangrunar. Með úthlutun úr þróunarsjóði menntastefnu var hægt að halda áfram á þeirri vegferð að vinna með rafíþróttir í tengslum við félagslega þátttöku og hvernig hægt væri að tileinka sér hollan lífsstíl samhliða þátttöku í tölvuleikjum.

Frístundamiðstöðin Ársel lagði til grundvallar samvinnu fagfólks sem kæmi að lífi barna og unglinga í frístundamiðstöðinni, íþróttafélögum, skólum og þjónustumiðstöð. Viðfangsefnið var að reyna að gera sér grein fyrir hvernig skipulagt frítímastarf þar sem tölvuleikjaspil er í öndvegi getur aukið þátttöku barna og unglinga í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi og um leið styrkt einstaklinga félagslega. Okkar helsta markmið er að ná til þeirra barna sem ekki eru félagslega virk vegna tölvunotkunar og hafa ekki verið að stunda skipulagt íþrótta- og æskulýðsstarf. Með rafíþróttum viljum við efla félagsfærni barna, efla sjálfsmynd þeirra og stuðla að heilbrigðum lífsstíl.

Rafíþróttaver – framsækin leið í menntun

Gunnlaugur V. Guðmundsson, forstöðumaður, Tjörnin, frístundamiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða

Menntastefna Reykjavíkurborgar byggir á grunnstefjum Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna um að menntun barns skuli beinast að því að rækta persónuleika, hæfileika og andlega og líkamlega getu þess. Þetta rímar við aðalnámskrá sem segir að í skólum þurfi að skapa jákvæðan skólabrag, heilsueflandi umhverfi og hlúa að þroska og heilbrigði frá ýmsum hliðum, s.s. jákvæðri sjálfsmynd, hreyfingu, næringu, hvíld, andlegri vellíðan, góðum samskiptum, öryggi, hreinlæti, kynheilbrigði og skilningi á eigin tilfinningum og annarra. Ný menntastefna gengur lengra með áherslu á framsækni og nútímavæðingu kennsluaðferða. Nálgun félagsmiðstöðva og í raun samfélagsins að tölvuleikjum og mikilli spilun var lengi sú að um félagslegan vanda væri að ræða. Horft var framhjá möguleikum sem felast í að styrkja spilara innan síns helsta áhugasviðs. Gleðibankinn ásamt Eldflauginni og Hlíðaskóla fékk B-hluta styrk nýrrar menntastefnu til að setja upp rafíþróttaver. Áhersla hefur verið lögð á að líta á tölvuleikjaspilun sem íþrótt og því fylgi ákveðin viðhorf og lífsstíll. Með að æfa tölvuleiki sem íþrótt hefur tekist að styrkja sjálfsmynd barna og unglinga og mæta þörfum ákveðins hóps sem erfitt hefur verið að mæta. Í gegnum starfið hefur tekist að stuðla að heilbrigðari lífsstíl, betri skólasókn, meiri félagslegri virkni og vera til staðar í veröld tölvuleikja þar sem samskipti geta verið mjög eitruð og röng. Það er ábyrgð fullorðinna og þar af leiðandi menntastofnana að fylgjast með frítíma barna og unglinga og tryggja öryggi þeirra. Erindið fjallar um hvernig rafíþróttaver undir leiðsögn fagaðila er framsækin leið til að hugsa menntun og árangur sem hefur náðst með starfinu.