Læsi, kynjamunur og lestraráhugahvöt á miðstigi

Háskóli Íslands

Læsi, kynjamunur og lestraráhugahvöt á miðstigi

2. október kl. 10:45 til 12:15 – Smelltu til að taka þátt á ZOOM!

Rannsókna- og fræðslustofa um þroska, læsi og líðan barna og ungmenna

Freyja Birgisdóttir

Sjálfstjórn og læsi á leikskólaárunum leggja grunn að gengi í lesskilningi og stærðfræði á miðstigi: Niðurstöður úr 6 ára langtímarannsókn

Freyja Birgisdóttir, dósent, HVS, HÍ, Steinunn Gestsdóttir, prófessor, HVS, HÍ og John Geldhof, prófessor, Oregon State University

Mikilvægur grunnur að gengi barna í læsi og stærðfræði er lagður á leikskólaárunum.  Komið hefur í ljós að mikilvægir undanfarar læsis, eins og hljóðkerfisvitund og stafaþekking, spá einnig fyrir um gengi í stærðfræði. Sömuleiðis benda rannsóknir til þess að geta leikskólabarna til þess að stýra hugsun sinni og hegðun spá hvort tveggja fyrir um gengi í læsi og stærðfræði. Mjög fáar rannsóknir hafa þó kannað forspárgildi þessara tveggja mikilvægu þátta samtímis og því óljóst hversu mikil áhrif hvor um sig hefur fram yfir hinn. Megin tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna þá spurningu. Þátttakendur voru 110 fjögra ára börn (meðalaldur 55.7 mánuðir) og voru 49% þeirra stúlkur. Próf sem meta bernskulæsi (stafakunnáttu og hljóðkerfisvitund) og getu barna til þess að stýra hugsun sinni og hegðun (sjálfstjórn) voru lögð fyrir nemendur á næst síðasta ári í leikskóla og gengi þeirra tengt við frammistöðu í læsi og stærðfræði í fyrsta og fjórða bekk. Helstu niðurstöður voru þær að stafakunnátta og hljóðkerfisvitund við fjögra ára aldur spáðu fyrir um einstaklingsmun á lestrargetu í fyrsta bekk, á meðan allar þrjár forspárbreyturnar (stafakunnátta, hljóðkerfisvitund og sjálfstjórn) spáðu fyrir um gengi nemenda í stærðfræði í fyrsta og fjórða bekk, og lesskilningi í fjórða bekk. Þessar niðurstöður benda til þess að talsverð skörun sé á forspárþáttum stærðfræði og lesskilnings og að gengi nemenda í þessum tveimur mikilvægu viðfangsefnum ráðist að minnsta kosti að hluta til af sömu færni sem er í mótun á leikskólaárunum.

Kynjamunur í lesskilningi á miðstigi: Áhugi og lestrarfælni í lykilhlutverki

Kristján Ketill Stefánsson, framkvæmdastjóri, Vísar rannsóknir, Freyja Birgisdóttir, dósent, MVS, HÍ, Steinunn Gestsdóttir, prófessor, HVS, HÍ og Hafdís Guðrún Hilmarsdóttir, Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Kynjamunur í lesskilningi á unglingastigi er alvarlegt vandamál sem nauðsynlegt er að rannsaka til að hægt sé að bregðast við á upplýstan hátt. Kenningin um frammistöðumarkmið (e. achievement goal theory) er ein þeirra meginkenninga sem notaðar hafa verið til að skýra hvað stýrir lestraráhugahvöt (e. reading motivation). Samkvæmt kenningunni gefa markmið hverri athöfn tilgang og innihald. Með því að sundurgreina ólík markmið má skilja betur hvað stýrir athöfnum sem tengjast frammistöðu nemenda í skólastarfi s.s. lesskilningi. Í þessari rannsókn var 400 nemendum (55% stelpur) á miðstigi fylgt eftir með spurningalista sem lagður var fyrir þrisvar sinnum. Formgerðargreining (e. structural equation modeling) var notuð til að svara spurningum rannsóknarinnar.  Niðurstöðurnar gáfu t.d. til kynna að hægt væri að skýra kynjamun í lesskilningi í 7. bekk að fullu út frá ólíkum áhuga (e. interest) og lestarfælni (e. work avoidance) kynjanna árin á undan. Í rannsókninni kom jafnframt fram að kynjamunur í lestraáhugahvöt var umtalsverður og jókst munurinn að meðaltali á tímabilinu. Bókaeign á heimili spáði á sterkan hátt beint fyrir um lesskilning, en einnig óbeint um lestraáhuga og vinnuforðun. Niðurstöðurnar benda til þess að árangursrík leið til að minnka kynjamun í lesskilningi á unglingastigi sé að efla lestraráhugahvöt drengja á yngri skólastigum sem og heimavið.  Niðurstöður verða ræddar í tengslum við skipulag lestrarkennslu á yngri stigum og samstarfi heimila og skóla.

Lesskilningur og ritun á miðstigi: Þróun og einstaklingsmunur

Auðun Valborgarsson, doktorsnemi, HVS, HÍ og Freyja Birgisdóttir, dósent, HVS, HÍ

Markmið rannsóknarinnar var að draga upp mynd af framförum drengja og stúlkna í lesskilningi og ritaðri textagerð frá 5. til 7. bekkjar í íslenskum grunnskólum. Rannsóknin er ein fárra sem kannar þróun þessara tveggja mikilvægu þátta læsis samtímis og sú fyrsta sinnar tegundar hérlendis. Lesskilningur og frásagnargerð voru mæld hjá 400 nemendum (221 stúlka) í átta grunnskólum í Reykjavík og Reykjanesi í lok 5., 6. og 7. bekkjar og breytingar á frammistöðu voru skoðaðar yfir tíma með þroskalíkani (e. latent growth modeling). Helstu niðurstöður voru þær að framfarir í lesskilningi og ritun voru línulegar yfir rannsóknartímabilið, en mikill einstaklingsmunur var þó á framförum nemenda á báðum sviðum og hélst bilið á milli þeirra stöðugt. Líkt og búist var við var mikil samsvörun bæði í upphafsstöðu og framförum nemenda í lesskilningi og ritun yfir miðstig, sem bendir til þess að þróun lesskilnings og ritunar byggi mögulega á sameiginlegum undirliggjandi ferlum. Stúlkur stóðu sig marktækt betur en drengir í textagerð og lesskilningi á öllum tímapunktum, þótt þeim hafi farið jafnhratt fram á báðum sviðum. Enginn munur var á framförum ólíkra getuhópa í lesskilningi og ritun, sem gefur til kynna að einstaklingsmunur í hvoru tveggja haldist stöðugur yfir miðstig.

Staða nemenda á Lesfimiprófi á mið- og unglingastigi og tengsl við lesskilning

Maren Ósk Elíasdóttir, doktorsnemi, Auðun Valborgarsson, doktorsnemi, HVS, HÍ og Sigurgrímur Skúlason, aðjúnkt, HVS, HÍ

Megin tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna hvernig nemendur í 5. til 9. bekk grunnskóla standa sig á Lesfimiprófi Menntmálastofnunar (MMS) og hvort tengsl séu á milli lesfimi mælinga og lesskilningshluta á samræmdu könnunarprófi. Þátttakendur (N = 1235) voru nemendur fæddir 2004 og 2005 sem voru fengnir úr gagnasafni MMS. Rannsóknarsniðið var langtímasnið. Niðurstöður lýsandi tölfræði voru ekki i takt við væntiviðmið MMS og röðuðust flestir nemendur undir og við 1. viðmið. Hreyfing nemenda yfir tíma á milli viðmiða var mjög breytileg á milli einstaklinga. Þá var skoðað á tveimur tímapunktum hvort lesfimi hafi fylgni við frammistöðu í lesskilningshluta í samræmdu könnunarprófi. Lesskilningur var byggður upp af fjórum breytum; ályktun, orðaforða, grunnum lesskilningi og heildarskilning á texta. Niðurstöður sýndu að fylgni milli lesfimi og lesskilnings hækkaði frá 7. til 9 bekkjar. Fylgni var lág til miðlungs há í 7. bekk, en miðlungs há að jafnaði í 9. bekk. Allir fylgnistuðlar voru marktækir miðað við a = 0,05. Hægt er að draga þá ályktun út frá niðurstöðum að frammistaða nemanda á Lesfimiprófi MMS spái fyrir um frammistöðu á samræmdu könnunarprófi. Þá benda niðurstöður til þess að áhrif lesfimi á lesskilnings sé meiri í efri bekkjum grunnskóla.