Lærdómssamfélag

Kl. 13:40-15:10

Björn Rúnar Egilsson

Lærdómssamfélag í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar

Kristín Valsdóttir, dósent, LHÍ og Dagný Jónsdóttir, tónlistarkennari við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar 

Í erindinu verður fjallað um þróunarverkefni sem unnið var í Tónlistarskólanum í Reykjanesbæ á tímabilinu október 2018 til nóvemberloka 2020. Þróunarverkefnið var hluti af tveggja ára tilraunaverkefni á vegum Menntamálaráðuneytis og fjögurra skólagerða um stoðkerfi við starfsþróun kennara. Í verkefninu var lagt upp með þrjár eftirfarandi grunnstoðir við starfsþróun: 1. Ígrundun í starfi, starfendarannsóknir og lærdómssamfélag í skólastarfi, 2. Samstarf um starfsþróun og skólaþróun innan og milli skóla og 3. Samstarf háskóla og skóla um starfsþróun og skólaþróun. Samhliða því að byggja upp lærdómsamfélag innan skólans, kynna starfendarannsóknir og meta árangur af slíkri vinnu valdi Tónlistarskóli Reykjanesbæjar að skoða nýjar leiðir í námsmati með áherslu á að þróa aðferðir eins og símat og sjálfsmat. Segja má að aðeins ein matsleið hafi verið allsráðandi í tónlistarskólum landsins, en það eru próf eins og þau eru skilgreind í aðalnámskrá tónlistarskóla. Þátttakendur í verkefninu voru kennarar í mismunandi deildum Tónlistarskóla Suðurnesja. Margar hugmyndir voru viðraðar og deildu kennarar kennsluaðferðum sín á milli. Þetta fyrirkomulag er kjörið til þess að hvetja kennara til að ígrunda starf sitt, skoða möguleika á frekari uppbyggingu á eigin kennsluaðferðum og leiða þá áfram í leit á nýjum farveg í kennslu. Starfendarannsóknir þátttakenda voru mjög nemendamiðaðar. Spurningar sem lagt var upp með í upphafi rannsókna voru allar til þess fallnar að auka líkur á að nemendur hefðu meiri gagn og gaman af náminu. Það var mat þátttakenda að þetta verkefni og það fyrirkomulag sem það bauð upp á myndaði faglegt lærdómssamfélag. 

 

Þáttaskil leik- og grunnskóla frá sjónarhóli foreldra barna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn

Björn Rúnar Egilsson, aðjúnkt, MVS HÍ og Jóhanna Einarsdóttir, prófessor, MVS HÍ 

Lítið hefur verið vitað um viðhorf foreldra barna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn til þeirra þáttaskila þegar börn fara úr leikskóla í grunnskóla á Íslandi. Í þessu erindi verður reynsla foreldra barna sem hafa slíkan tungumála- og menningarbakgrunn af flutningi barna þeirra úr leikskóla í grunnskóla könnuð. Þrettán foreldrar voru fengnir til að taka þátt í rannsókninni í samstarfi við tvo leikskóla í Reykjavík. Þátttakendum var boðið í fjögur hálfstöðluð viðtöl á 12 mánaða tímabili, frá því að börn þeirra voru að ljúka leikskólagöngu sinni og allt til loka fyrsta árs grunnskólagöngunnar. Gögnin voru greind með hliðsjón af af hugmyndum Étienne Wenger um lærdómssamfélög (e. communities of practice). Niðurstöðurnar benda til þess að skólabyrjun barnanna haldist í hendur við kynni fjölskyldunnar af samhliða lærdómssamfélögum; grunnskólanum, frístundaheimilum, skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi og móðurmálsrækt. Félagslegar hliðar skólagöngunnar voru þátttakendum ofarlega í huga og höfðu mikið að segja um hvort skólabyrjun barna þeirra hefði hafist vel eða ekki að þeirra mati. Í gögnunum er að finna vísbendingar um að ákveðin atriði sem varða starfshætti grunnskólanna og frístundaheimilanna sem um ræðir haldi þessum foreldrum frekar á jaðri lærdómssamfélaganna.  

 

Leikurinn á lóðinni

Harpa Kolbeinsdóttir, leikskólakennari, Stekkjarási; Alda Agnes Sveinsdóttir, skólastjórnandi, Marbakka; Steinunn Jónsdóttir, leikskólakennari, Marbakka; Michelle Sonia Horne, leikskólakennari, Stekkjarási og Unnur Henrysdóttir, leikskólakennari, Marbakka 

Skólaárið 2019-2020 fór fram starfendarannsókn í leikskólanum Stekkjarási. Markmið starfendarannsóknarinnar var að byggja ofan á, viðhalda og deila þekkingu á útinámi innan starfsmannahópsins. Einnig var markmiðið að nota skráningar til þess að efla starfsmannahópinn í að bregðast við þörfum barnanna og stuðla að hvetjandi námsumhverfi á leikskólalóðinni. Gagnaöflun hófst á að starfsmenn skráðu leik barnanna á útisvæði. Þrisvar á rannsóknarferlinu hittust starfsmenn á sérstökum rannsóknarfundum til þess að ræða skráningarnar og næstu skref í rannsóknarferlinu. Þegar tæplega hundrað skráningar voru komnar hjálpuðust starfsmenn að við að lesa þær yfir, flokka og gagnagreina. Einnig svöruðu starfsmenn viðhorfskönnun í lok rannsóknartímans. Í niðurstöðum kemur fram að samhliða mikilli áskorun fyrir starfsfólkið að taka þátt í rannsóknarvinnunni þá fylgdi henni mikil starfsánægja. Í rannsóknarferlinu lærði starfsfólk að opna augun og hlusta betur á það sem á sér stað í útiverunni. Skráningarnar gerðu starfsmönnum kleift að kafa dýpra ofan í leikinn á lóðinni. Í niðurstöðunum kom fram að samskipti barnanna eru margslungnari en virðist við fyrstu sýn, leikirnir flóknari og námstækifærin fleiri. Starfsfólk lærði um hlutverk sitt á útisvæðinu og hvað samspil barna, fullorðinna og umhverfis skiptir miklu máli. Af þessari starfendarannsókn má sjá að það skilar miklu að gefa tíma í faglegar umræður um starfið í leikskólanum. Samtal og ígrundun starfsmannahópsins um starfshætti og nám barna stuðlar að sameiginlegri sýn á leikskólastarfið. Í þessari rannsókn kemur skýrt fram að leikurinn er aðalnámsleið leikskólabarna og rík ástæða til þess að standa vörð um hann.