Íþróttir og íþróttakennsla

Háskóli Íslands

Íþróttir og íþróttakennsla

2. október kl. 10:45 til 12:15 Smelltu til að taka þátt á ZOOM!

Þórdís Lilja Gísladóttir

Íþróttakennsla: Lengi býr að fyrstu gerð. Leikjahandbók fyrir yngsta stig grunnskóla

Friðbjörn Bragi Hlynsson, meistaranemi, MVS, HÍ og grunnskólakennari og Þórdís Lilja Gísladóttir, lektor, MVS, HÍ

Markmið með leikjahandbókinni var að búa til verkfæri fyrir íþróttakennara til að auðvelda börnum á yngsta stigi grunnskóla að ná hæfniviðmiðum í skólaíþróttum sem sett eru fram í Aðalnámskrá grunnskóla. Í verkefninu var safnað saman ýmsum útfærslum á hagnýtum leikjum og áherslum þeirra breytt til að stuðla að hæfniviðmiðum í Aðalnámskrá grunnskóla fyrir nemendur á yngsta stigi eða 1.–4. bekk. Með hverjum leik fylgir skýringarmynd og hlekkur í formi QR-kóða sem hægt er að skanna til að sjá framkvæmd leiksins á stafrænu formi. Í verkefninu er gerð grein fyrir mikilvægi hreyfingar og hvers vegna mikilvægt er að hefja fjölbreytta hreyfingu snemma á lífsleiðinni. Einnig er fjallað um hvernig fjölbreytt hreyfinám getur stuðlað að aukinni hreyfifærni barna og hvernig aukin hreyfing getur haft jákvæð áhrif á alhliða þroska. Við gagnaöflun fyrir leikjahandbókina var 35 fjölbreyttum hreyfileikjum safnað saman, leikjum var breytt og þeir heimfærðir með því að færa skilgreinda grunnfærni inn í leikina til að uppfylla ákveðin hæfniviðmið fyrir yngsta stig grunnskólans.

Til að kanna notagildi leikjahandbókarinnar var framkvæmd tilviksrannsókn þar sem íþróttakennarar bæði á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni prófuðu leikina með nemendum sínum og könnuðu tengsl þeirra við hæfniviðmið aðalnámskrár.

Þróun á þátttöku kvenna í íþróttagreinum innan ÍSÍ frá 1994 til 2017

Vilhelm Már Bjarnason, meistaranemi, MVS, HÍ og grunnskólakennari og Þórdís Lilja Gísladóttir, leiðbeinandi og lektor, MVS, HÍ

Á Íslandi fjölgaði iðkendum í íþróttum innan Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) mikið frá árinu 1994 til 2017. Um 72 þúsund karlar og 46 þúsund konur voru skráðir íþróttaiðkendur innan ÍSÍ árið 2017. Samkvæmt þessum iðkendatölum frá ÍSÍ eru færri kven- en karliðkendur í flestum íþróttagreinum innan ÍSÍ að undanskildu blaki, dansi, fimleikum og listskautum. Markmið verkefnisins var að greina þróun á þátttöku kvenna í íþróttagreinum innan ÍSÍ frá 1994 til 2017. Rannsóknin er megindleg og unnin upp úr gögnum frá ÍSÍ og rannsóknarmiðstöðinni Rannsóknir og greining (R&G). Gögn frá ÍSÍ sem voru kynjaskipt eru einungis aðgengileg frá árinu 1994, fyrir þann tíma eru ekki til heildstæð kynjaskipt gögn. Síðustu aðgengilegu upplýsingarnar frá ÍSÍ eru frá árinu 2017, því er þetta tímabil sett sem athugunartímabil rannsóknarinnar. Til að fá ítarlegri gögn var líka unnið upp úr gögnum frá R&G, en þau ná eingöngu til stúlkna á grunnskólaaldri.

Niðurstöður sýna nær stöðuga fjölgun kvenna í íþróttum innan ÍSÍ frá 1994 til 2017. Hlutfall kveniðkenda, innbyrðis eftir íþróttagreinum, hefur breyst á þessum tíma. Fjórar fjölmennustu íþróttagreinarnar innan ÍSÍ; knattspyrna, hestaíþróttir, fimleikar og golf hafa bætt við sig hlutfallslega fleiri kveniðkendum en aðrar íþróttagreinar. Í badminton, frjálsíþróttum, handknattleik, skíðum og sundi hefur kveniðkendum fækkað og prósentuhlutfall þeirra lækkað á árabilinu 1994–2017.