Íþróttanæringarfræði

Háskóli Íslands

Íþróttanæringarfræði

2. október kl. 15:30 til 17:00 Smelltu til að taka þátt á ZOOM!

Málstofustjóri: Anna Sigríður Ólafsdóttir

Hlutfallslegur orkuskortur í íþróttum (Relative Energy Deficiency in Sport, RED-s)

Birna Varðardóttir, doktorsnemi, MVS, HÍ, Sigríður Lára Guðmundsdóttir, dósent, MVS, HÍ og Anna Sigríður Ólafsdóttir, prófessor, MVS, HÍ

Mikilvægt er að íþróttafólk á öllum aldri tileinki sér mataræði sem styður sem best við heilsu og árangur. Tiltæk orka (e. energy availability) vísar til þeirrar orku sem eftir stendur fyrir grunnstarfsemi líkamans þegar búið er að draga orku sem varið er við líkamlega þjálfun frá þeirri orku sem fæst úr þeirri fæðu sem neytt er dag hvern. Hlutfallslegur orkuskortur í íþróttum (e. Relative Energy Deficiency in Sport, RED-s) stafar af viðvarandi skorti tiltækrar orku og hefur víðtæk áhrif á íþróttafólk, óháð kyni og getustigi. Áhrif RED-s fela meðal annars, en ekki eingöngu, í sér skerðingu á efnaskiptahraða, hormónastarfsemi og tíðahring kvenna, beinheilsu, ónæmisvörnum, nýmyndun próteina og starfsemi hjarta- og æðakerfis. Slíkar truflanir á líkamsstarfsemi geta haft neikvæð áhrif á heilsu og íþróttaárangur til lengri og skemmri tíma. Í erindinu verður fjallað um stöðu þekkingar á áhrifum RED-s á heilsu og árangur, mikilvægi skimunar og snemmbærs inngrips. Jafnframt mun höfundur kynna markmið og forsendur doktorsverkefnis síns þar sem sjónum verður beint að tiltækri orku, algengi og áhættuþáttum RED-s meðal íslensks íþróttafólks. Rannsóknin, sem er á frumstigi, mun taka til íþróttafólks sem æfir á efstu stigum í ólíkum íþróttagreinum og er markmið hennar þríþætt. Í fyrsta lagi að þróa og sannprófa íslenskuð mats- og skimunartæki. Í öðru lagi að meta algengi RED-s og tengdra áhættuþátta meðal þátttakenda. Í þriðja og síðasta lagi er yfirfærsla á niðurstöðum yfir í gagnreyndar ráðleggingar, forvarnarstarf ásamt fræðslu- og kennsluefni.

Heilsuhegðun og heilsa þátttakenda í ofurhlaupum

Elísabet Margeirsdóttir, aðjúnkt, MVS, HÍ

Rannsóknarverkefnið fjallar um heilsuhegðun og heilsu fullorðinna einstaklinga sem stunda ofurhlaup. Ofurhlaup eru keppnir sem eru lengri en hefðbundið maraþonhlaup (>42,195 km) og fara oft fram við erfiðar aðstæður t.d. í fjalllendi. Algengustu vegalengdir slíkra keppna eru á bilinu 50–170 km og tekur almennt yfir sex klukkustundir og allt að tvo sólarhringa að ljúka þeim. Þátttaka í ofurhlaupum hefur farið hratt vaxandi síðastliðin ár í löndum þar sem almenningshlaup njóta vinsælda. Hlutfall áhugaíþróttafólks í ofurhlaupum er mun hærra en atvinnuíþróttafólks. Hlutfall kvenna í ofurhlaupum hefur aukist til muna síðastliðin ár en telst almennt lágt í lengri vegalengdum (>80 km, 13–20%). Ofurhlaup eru erfiðar áskoranir sem kosta umtalsverðan tíma í undirbúningi og þurfa iðkendur að búa yfir miklu þoli, þreki og þrautseigju. Ofurhlauparar verja miklum tíma í undirbúning miðað við hefðbundin almenningshlaup, en rannsóknir sýna að meirihluti ofurhlaupara býr yfir langri reynslu af hlaupaiðkun. Nýlegar rannsóknir benda þó til að hlutur óreyndari hlaupara hafi aukist með auknum vinsældum íþróttarinnar. Markmið rannsóknarinnar er að skoða þátttöku Íslendinga í ofurhlaupum, heilsu þeirra, heilsuhegðun og hvata að þátttöku. Leitast verður meðal annars við að skoða undirbúning, heilsufar, líkamlegt ástand, mataræði og svefn með spurningalistum. Vegna skorts á vísindalegri þekkingu á iðkun almennings í ofurhlaupum og vaxandi fjölda sem leggur stund á íþróttina er mikilvægt að kanna þau áhrif sem iðkun ofurhlaupa hefur á líkamlega og andlega heilsu, til skemmri og lengri tíma. Sú þekking sem skapast er mikilvæg í lýðheilsufræðilegu samhengi og gerir stjórnvöldum og íþróttahreyfingunni kleift að setja fram leiðbeiningar um iðkun ofurhlaupa.

Næringarþekking meðal íslensks afreksíþróttafólks og þjálfara þeirra: Þróun og forprófun á spurningalista

Lilja Guðmundsdóttir, sjálfstætt starfandi næringarfræðingur, Anna Sigríður Ólafsdóttir, prófessor, MVS, HÍ og Bryndís Eva Birgisdóttir, prófessor, HVS, HÍ

Mataræði spilar stórt hlutverk þegar kemur að frammistöðu í íþróttum og þarf að uppfylla þörf fyrir orku, orkuefni, vítamín, steinefni og vökva, auk þess sem tímasetning máltíða skiptir máli. Rannsóknir á íþróttafólki erlendis hafa þó leitt í ljós að mataræði þeirra endurspeglar oft ekki þær ráðleggingar um næringu sem settar hafa verið fyrir þennan hóp. Ástæður fyrir ófullnægjandi fæðuinntöku eru margvíslegar, en þar getur næringarþekking haft áhrif. Rannsóknir hafa sýnt að næringarþekking íþróttafólks er takmörkuð en lítið er vitað um stöðu þekkingar á Íslandi. Markmiðið með rannsókninni var því að kanna næringarþekkingu hjá íslensku afreksíþróttafólki og þjálfurum þeirra en jafnframt að finna og/eða útbúa hentugt mælitæki fyrir íslenskar aðstæður byggt á erlendum fyrirmyndum. Íslenskt afreksíþróttafólk (n=101) og þjálfarar þeirra (n=11) tóku þátt. Rannsóknin var þversniðsrannsókn þar sem næringarþekking var könnuð með spurningalistum. Meðalskor íþróttafólks var 53.7 ± 12.6 og þjálfara 63.2 ± 8.0 (p = .016). Íþróttafólk í einstaklingsíþróttum skoraði hærra en íþróttafólk í hópíþróttum (59.6 ± 9.4 vs. 50.5 ± 13.0, p = <.001). Tíu af ellefu þjálfurum sögðust hafa veitt íþróttafólki sínu ráðleggingar um næringu á einhverjum tímapunkti. Íþróttafólk og þjálfarar sögðust reiða sig mest á næringarfræðing/næringarráðgjafa í tengslum við upplýsingar um næringu og þar á eftir netleit. Næringarþekking mætti vera betri í báðum hópum, sérstaklega meðal íþróttafólks. Íþróttasambönd og -félög ættu að íhuga að ráða næringarfræðing til starfa til að tryggja að upplýsingar úr gagnreyndum vísindagreinum berist til bæði íþróttafólks og þjálfara. Þetta myndi líklega skila sér í bættri frammistöðu íþróttafólks.

Hvernig gæti uppbygging á markvissri næringarfræðslu fyrir íþróttahreyfinguna farið fram?

Elísa Viðarsdóttir, meistaranemi, MVS, HÍ, MVS, HÍ, Anna Sigríður Ólafsdóttir, prófessor, MVS, HÍ og Bryndís Eva Birgisdóttir, prófessor, HVS, HÍ

Í Evrópu er víða unnið frábært starf þegar kemur að næringarfræðslu og ráðgjöf til íþróttamanna og því áhugavert að skoða hvaða leiðir hafa virkað vel og hverjar ekki í þeirri uppbyggingu sem þar hefur farið fram. Tilgangurinn með verkefninu er að finna skilvirkar leiðir til að auka þekkingu íþróttafólksins okkar á næringu og auka aðgengi að sérhæfðri næringarfræðslu og ráðgjöf tengdri íþróttaiðkun í takt við þarfir og óskir hagsmunaaðila. Verkefnið er unnið með svokallaðri Delphi-aðferð sem byggir á rýnihópaviðtölum og spurningalistum sem lagðir eru fyrir endurtekið með það markmið að ná samhljómi innan sérfræðingahópsins. Tekin voru viðtöl við einstaklinga sem eru leiðandi á þessu sviði í fimm löndum. Í kjölfarið var hannaður spurningalisti út frá sameiginlegum þáttum sem fram komu. Spurningalistinn var lagður í tvígang fyrir hóp stjórnenda/stefnumótunaraðila hjá íþróttahreyfingunni og starfandi íþróttanæringarfræðinga. Greiningin er mikilvæg fyrir framtíðaruppbyggingu íþróttastarfs í landinu og er unnin í samvinnu við Íþróttasamband Íslands og aðildarfélög en niðurstöður verða kynntar í erindinu.