Hreyfing, svefn og heilsa ungmenna

Háskóli Íslands

Hreyfing, svefn og heilsa ungmenna

2. október kl. 9.00 til 10.30 – Smelltu til að taka þátt á ZOOM!

Rannsóknarstofa í íþrótta- og heilsufræði

Vaka Rögnvaldsdóttir

Breytingar á hreyfingu og íþróttaþátttöku íslenskra ungmenna frá 15–17 ára

Vaka Rögnvaldsdóttir, lektor, MVS, HÍ, Sigríður L. Guðmundsdóttir, dósent, MVS, HÍ, Soffía M. Hrafnkelsdóttir, doktorsnemi, MVS, HÍ, Rúna S. Stefánsdóttir, doktorsnemi, MVS, HÍ og Erlingur S. Jóhannsson, prófessor, MVS, HÍ

Inngangur: Hreyfing er grundvallarþáttur í heilsu mannsins. Alþjóðlegar ráðleggingar fyrir ungmenni gera ráð fyrir að minnsta kosti 60 mínútna daglegri hreyfingu af miðlungs- eða mikilli ákefð til að viðhalda góðri heilsu ásamt styrktarþjálfun fyrir uppbyggingu og viðhald beina og vöðva. Á unglingsárum verða miklar breytingar á hreyfingu einstaklinga og það dregur úr íþróttaiðkun.

Markmið: Markmið rannsóknarinnar var að skoða breytingar á hreyfingu og íþróttaiðkun ungmenna frá 15–17 ára, mældum með hreyfimælum og spurningalistum. Efniviður og aðferðir: Úrtak rannsóknarinnar kom úr sex grunnskólum í Reykjavík. Gögnum var safnað á vormánuðum 2015 meðal 315 þátttakenda, þá 15 ára gömlum. Í framhaldsrannsókn 2017 fengust gögn frá 168 af fyrri þátttakendum, þá 17 ára gömlum. Gögnum um hreyfingu var safnað á báðum tímapunktum með hröðunarmælum og með spurningalistum um íþróttaiðkun og þjálfun. Gild gögn frá báðum tímapunktum áttu 147 einstaklingar (þar af 93 stúlkur). Breytingar á hreyfingu (með hröðunarmæli) milli 15 og 17 ára voru metnar með pöruðu t-prófi. Breytingar á hlutfalli á þátttöku í þjálfun (6 sinnum í viku) og íþróttaþátttöku frá 15–17 ára voru skoðaðar með Fisher’s prófi. Niðurstöður: Meðalaldur var 15,9±0,3 og 17,7±0,3 ár. Íþróttaþátttaka og tíðni þess að æfa ≥6klst/viku drógust saman milli mælinga. Hreyfing, mæld með hreyfimælum, minnkaði um 19% á skóladögum en ekki var marktækur munur á hreyfingu um helgar. Ályktun: Verulega dró úr hreyfingu ungmenna frá 15–17 ára en á þessum aldri ljúka nemendur grunnskólagöngu og hefja nám við framhaldsskóla. Mikilvægt er að greina hvaða þættir hvetja til hreyfingar ungmenna á þessum árum til þess að standa vörð um heilsu þeirra.

 

Þróun þreks og andlegrar líðanar meðal 15 og 17 ára ungmenna á Íslandi

Franziska Jóney Pálsdóttir, meistaranemi, MVS, HÍ, Vaka Rögnvaldsdóttir, lektor, MVS, HÍ og Erlingur S. Jóhannsson, prófessor, MVS, HÍ

Heilsufarsvandamál sem tengjast lifnaðarháttum ungmenna hafa færst í vöxt á undanförnum árum. Breytingar á andlegri líðan og tengsl við líkamlegt atgervi eru mikilvæg í því samhengi. Í ljósi þess var markmið rannsóknarinnar að skoða þróun þreks og andlegrar líðanar (þunglyndis, sjálfsálits og líkamsímyndar) meðal ungmenna frá 15 til 17 ára. Einnig var skoðað hvort þrek við 15 ára aldur spáði fyrir um betri andlega líðan við 17 ára aldur. Þátttakendur voru alls 112, þar af 52 drengir og 60 stúlkur. Þátttakendur svöruðu spurningum um andlega líðan og þrek var mælt með þrepaskiptu hámarksprófi á þrekhjóli. T-próf voru notuð til að skoða kynjamun ásamt að skoða þróun þreks og andlegrar líðanar frá 15 til 17 ára. Einföld línuleg aðhvarfsgreining var notuð til að skoða samband þreks við 15 ára aldur og andlegrar líðanar við 17 ára aldur. Bæði drengir og stúlkur mældust með meira sjálfsálit og jákvæðari líkamsímynd við 17 ára aldur. Á þessum tveimur árum jókst þunglyndi drengja marktækt um 14,6% (p=0,028) en á sama tíma minnkaði þunglyndi meðal stúlkna um 7% (p=0,292). Þrek við 15 ára aldur spáði fyrir um andlega líðan hjá öllum þátttakendum og fyrir þunglyndi hjá drengjum við 17 ára aldur. Þrek ungmenna er mikilvægur þáttur heilsu og spáir fyrir um andlega líðan þeirra seinna í lífinu eins og þessar niðurstöður gefa til kynna. Því er mikilvægt að standa vörð um bæði líkamlega sem og andlega heilsufarsþætti ungmenna í nútíma þjóðfélagi.

 

Tengsl svefns við einkunnir á samræmdum prófum meðal 15 ára reykvískra ungmenna

Rúna Sif Stefánsdóttir, doktorsnemi, MVS, HÍ, Vaka Rögnvaldsdóttir, lektor, MVS, HÍ, Elvar S. Sævarsson, MVS, HÍ, Sigríður L. Guðmundsdóttir, dósent, MVS, HÍ og Erlingur S. Jóhannsson, prófessor, MVS, HÍ

Inngangur: Spurningalistakannanir á svefnlengd og -gæðum unglinga hafa sýnt neikvæð tengsl svefns við námsárangur. Hins vegar er skortur á rannsóknum sem skoða tengslin með hlutlægum mælitækjum svo sem svefnmælum, á þessu mikilvæga tímaskeiði í hugarþroska nemenda. Markmið: Markmið rannsóknarinnar voru að meta tengsl á milli svefnlengdar, gæða og háttatíma hjá 15 ára reykvískum nemendum, mæld með hreyfimælum, og einkunna í samræmdu prófi í 10. bekk.

Efniviður og aðferðir: Gögnum var safnað á vormánuðum 2015 og var alls 411 nemendum 10. bekkjar í sex grunnskólum í Reykjavík boðin þátttaka í rannsókninni. Gild gögn (≥1 frídagur og ≥3 skóladagar úr hröðunarmælum) og einkunnir í íslensku, stærðfræði og ensku á samræmdu prófi fengust frá 248 viðföngum (147 stelpum og 101 strák), meðalaldur var 15,9±0,3 ára. Tengsl milli hlutlægra mælinga á svefni og meðaltal samanlagðra einkunna voru skoðuð með línulegri aðhvarfsgreiningu. Niðurstöður: Á skóladögum sváfu nemendur að meðaltali 6,2±0,7 klst. á nóttu og var meðal háttatími klukkan 22 mínútur yfir tólf á miðnætti. Á frídögum sváfu nemendur 7,3±1,1 klst. á nóttu og háttatími var klukkan 01:42. Neikvæð tengsl fundust á milli svefnlengdar og háttatíma á skóladögum við einkunnir á samræmdu prófi. Hins vegar fundust engin tölfræðilega marktæk tengsl á milli svefnlengdar eða háttatíma á frídögum og einkunna. Ályktun: Reykvískir unglingar sem sofa lengur og fara fyrr að hátta á skóladögum fá hærri einkunnir á samræmdu prófi í 10. bekk. Mikilvægt er að foreldrar og skólasamfélagið hugi að svefnlengd og háttatíma hjá unglingum, styðji við nemendur og skapi ákjósanlegt námsumhverfi.

 

Algengi á neyslu vefaukandi stera meðal ungs fólks, geðheilbrigði þeirra og vímuefnanotkun: Þýðisrannsókn

Sunna Gestsdóttir, lektor, HÍ, Hafrún Kristjánsdóttir, prófessor, HR, Héðinn Sigurðsson, heimilislæknir, Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins og Inga Dóra Sigfúsdóttir, prófessor, HR

Inngangur: Notkun vefaukandi stera (VS) til að bæta árangur í íþróttum og þar með fara á svig við lög, er ekki ný af nálinni. Stór hluti þeirra sem notar VS er ekki keppnisfólk í íþróttum heldur einstaklingar sem æskja stórra vöðva og fituskerðingar. Markmið rannsóknarinnar var að kanna algengi notkunar VS meðal ungs fólks og skoða hvort geðheilsa þeirra og vímuefnanotkun sé frábrugðin þeirra sem ekki hafa notað VS. Aðferð: Þýðisrannsókn var framkvæmd af Rannsóknum og greiningu í framhaldsskólum haustið 2018. Meðalaldur þátttakenda var 17,3 ár. Samtals 10.259 þátttakendur (50% stúlkur, 49% drengir) svöruðu spurningum um kvíða, þunglyndi, líkamsmynd, sjálfstraust, reiði, notkun vímuefna og þátttöku í skipulögðu íþróttastarfi. Tölfræðileg úrvinnsla fólst í t-prófi, kí-kvaðrat prófi og tvíkosta aðhvarfsgreiningu. Niðurstöður: Algengi notkunar VS var 1,6% og 78% notenda voru karlar. Notendur VS höfðu meiri einkenni kvíða, þunglyndis, reiði og voru með minna sjálfstraust samanborið við þá er aldrei höfðu notað VS (p < 0,05). Stærra hlutfall notenda VS hafði reynt sjálfsvíg einhvern tíma á ævinni, notað geðlyf, svefnlyf og neytt vímuefna samanborið við þá sem aldrei höfðu notað VS (p < 0,05). Þátttaka í íþróttum utan íþróttafélaga, reiðivandi og líkamsmynd tengdist auknum líkum á neyslu VS. Ályktun: Neysla VS er ógn við lýðheilsu. Notendur gera sér sjaldan grein fyrir slæmum afleiðingum neyslunnar. Yfirvöld, heilbrigðisstarfsfólk, ungt fólk, foreldrar og aðrir sem vinna með þessum aldurshópi þurfa að vera upplýst um afleiðingar notkunarinnar svo hægt sé að girða fyrir misnotkun.