Hreyfing skólabarna 

Kl. 10:10-11:40

Þórdís Lilja Gísladóttir

Afkastageta 14 ára drengja í knattspyrnu á Íslandi

Sigurður Skúli Benediktsson, meistaranemi, MVS HÍ og Erlingur Jóhannsson, prófessor, MVS HÍ 

Markmið þessarar rannsóknar var að kanna holdafar, beinþroska, afkastagetu og þjálfun hjá 14 ára knattspyrnudrengjum á Íslandi og bera saman við norska jafnaldra. Þátttakendur (n=53) voru 14 ára knattspyrnumenn (13,2-14,2 ára) sem æfa og keppa með tveimur knattspyrnufélögum á höfuðborgarsvæðinu. Beinþroski var mældur með röntgenmynd af vinstri hendi og vaxtarhraði mældur (e. PHV). Holdafar var ákveðið út frá líkamsþyngdarstuðli (hæð og þyngd) og fjölmargar ólíkar afkastagetumælingar voru framkvæmdar eins og hámarkssúrefnisupptaka, 40 metra spretthlaup, stökkkraftur, langstökk án atrennu og knattspyrnu miðað YO-YO IR1 þolpróf. Almennur spurningalisti var einnig lagður fyrir drengina. Niðurstöður úr einhliða dreifigreiningu sýndu ekki marktækan mun á beinþroskastigi, líkamsþyngd eða vexti. Þá náðu norskir leikmenn betri árangri en þeir íslensku í hámarkssúrefnisupptökuprófi (60,4 ± 5,9 mL kg-1 min-1 á móti 54,7 ± 5,1 mL kg-1 min-1 VO2max) og einnig hlaupahraða (hraðasti 10 metra millitími: 1,27 sekúndur ± 0,06 á móti 1,41 sekúndur ± 0,10) og 40 metra spretthlaupi. Norskir 14 ára knattspyrnudrengir æfa fleiri klukkustundir í viku, miðað við þá íslensku (p <,05). Fylgni fannst milli beinþroska og spretthlaups (r = -,471, p <,001 ) og stökkkrafts (r = ,359, p <,01) hjá báðum hópum. Þessar niðurstöður gefa til kynna að afkastageta 14 ára drengja í knattspyrnu tengist fyrst fremst þjálfunarskipulagi, æfingamagni og umfangi þeirrar þjálfunar sem þeir stunda. 

 

Hreyfing íslenskra grunnskólanema

Þórdís Lilja Gísladóttir, dósent, MVS HÍ; Rúnar Vilhjálmsson, prófessor, HVS HÍ og Vaka Rögnvaldsdóttir, lektor, MVS HÍ 

Tilgangur rannsóknar var að kanna umfang líkamlegrar hreyfingar íslenskra grunnskólanema í 6., 8., og 10. bekk og tengsl hennar við kyn, aldur, uppruna, fjölskyldugerð, efnahag og búsetu. Sérstaklega var athugað hve hátt hlutfall nemendanna næði ráðlagðri 60 mínútna hreyfingu daglega. Unnið var úr gögnum úr landskönnuninni Heilsa og lífskjör skólanema (HBSC). Þátttakendur í rannsókninni voru 6.102 nemendur í 6., 8. og 10. bekk í grunnskólum landsins. Spurningalistar voru lagðir fyrir nemendur og meðal annars var spurt um fjölda daga á viku sem þátttakendur stunduðu „líkamlega hreyfingu samanlagt í 60 mínútur eða meira á dag“. Þá var einnig spurt um kyn og bekkjardeild, efnahagslega stöðu fjölskyldu, uppruna foreldra, fjölskyldugerð og búsetu. Að meðaltali stundaði nemendahópurinn líkamlega hreyfingu í 4,5 daga í viku. Einungis 21% nemenda náði viðmiði um ráðlagða daglega hreyfingu. Drengir náðu frekar viðmiðum um hreyfingu en stúlkur og fleiri nemendur í 6. bekk samanborið við eldri nemendur. Nemendur sem áttu foreldra af innlendum uppruna stunduðu oftar ráðlagða hreyfingu en þeir sem áttu foreldra af erlendum uppruna. Nemendur sem bjuggu með báðum kynforeldrum náðu oftar viðmiðum um ráðlagða hreyfingu en nemendur í öðrum fjölskyldugerðum. Þá var algengara að nemendur úr vel stæðum fjölskyldum næðu viðmiðum um ráðlagða hreyfingu. Ekki var munur á hreyfingu grunnskólanema eftir búsetu þeirra. Vinna þarf að hreyfieflingu grunnskólanema með fræðslu um gildi hennar, daglegum hreyfistundum á skólatíma og markvissum íþróttatímum. Jafna þarf þátttöku barna í íþróttum utan skólans með aðkomu sveitarfélaganna. Fjölga þarf möguleikum til hreyfingar fyrir alla utanhúss og innan í sveitarfélögum landsins.  

 

Tengsl hreyfifærni, líkamssamsetningar og íþróttaþátttöku hjá unglingum í 7.-10. bekk í grunnskóla

Ísak Óli Traustason, meistaranemi, MVS HÍ  

Leiðbeinandi: Þórdís Lilja Gísladóttir, dósent, MVS HÍ 

Markmið rannsóknarinnar var að kanna tengsl hreyfifærni við líkamssamsetningu og íþróttaþátttöku hjá unglingum í 7.- 10. bekk í grunnskóla ásamt að skoða mun milli kynja. Unnið var úr gögnum úr rannsókninni „Líkamshreysti, hreyfifærni, áhugahvöt, svefn og næring 13-16 ára unglinga“. Þátttakendur í rannsókninni voru úr 7.-10. bekk úr tveimur grunnskólum í Reykjavík. Alls tóku 387 nemendur þátt, 210 drengir og 177 stúlkur. Hreyfifærni var mæld með MABC-2 hreyfifærniprófinu en það inniheldur átta þrautir sem mæla boltafærni, jafnvægi og fínhreyfingar. Líkamssamsetning var metin með því að mæla hæð, þyngd, mittismál, líkamsfituprósentu og reikna út líkamsþyngdarstuðul (BMI). Þátttakendur svöruðu ítarlegum spurningalista um svefn, næringu, áhugahvöt, hreyfingu og íþróttaþátttöku og var notast við spurninguna um íþróttaþátttökuna í þessari rannsókn. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að stúlkur við 12 ára, 13 ára og 14 ára aldur voru með marktækt betri hreyfifærni en drengir á sama aldri. Ekki mældist þó marktækur munur á hreyfifærni hjá 15 ára drengjum og stúlkum. Marktæk neikvæð tengsl voru á milli BMI og hreyfifærni hjá 13 ára drengjum og á milli BMI, mittisummáls, líkamsfituprósentu og hreyfifærni hjá 14 ára drengjum. Íþróttaþátttaka sýndi jákvæð tengsl við hreyfifærni hjá þátttakendum af báðum kynjum. Þátttaka í skipulögðu íþróttastarfi vegur hvað þyngst þegar spáð er fyrir um hreyfifærni hjá 12-15 ára unglingum.