Hógværð, agi og hyggindi: Vitsmunalegar dygðir og þekkingarleit

Háskóli Íslands

Hógværð, agi og hyggindi: Vitsmunalegar dygðir og þekkingarleit

1. október kl. 15:30 til 17:00 – Smelltu til að taka þátt á ZOOM!

Málstofustjóri: Róbert Jack

Vitsmunaleg hógværð og heiðarlegt skólastarf

Atli Harðarson, dósent, MVS, HÍ

Í erindinu er í fyrsta lagi rökstutt að hógværð af vissri gerð sé vitsmunaleg dygð því hún hjálpi fólki að afla þekkingar og skilnings og forðast blekkingar og misskilning. Þessi gerð hógværðar, sem einnig má nefna lítillæti eða auðmýkt, felst í réttri forgangsröð langana. Þótt fólk sem hefur hana til að bera geti langað til að skara fram úr tekur það samt, þegar við á, þekkingu og skilning fram yfir eigin vegsemd og hagsmuni. Í öðru lagi er rökstutt að skilningur á hógværð sem vitsmunalegri dygð varpi ljósi á togstreitu milli áherslu á nemendamiðuð námsmarkmið og kröfu um að skóli sé heiðarlegur við nemendur sína. Önnur af tveimur ástæðum þessarar togstreitu er að skóli getur ekki verið heiðarlegur án þess að segja nemendum satt um rök sín fyrir vali á verkefnum og námsefni. Hin ástæðan er að ef nemendur gangast inn á að skólaganga sé til þess eins að auka þeirra eigin hæfni þá eru þeir síður hvattir til að skipa löngun eftir þekkingu og skilningi á réttan stað í forgangsröð sinni. Tilgangur rannsóknarinnar er að öðlast dýpri skilning á gildum og verðmætum sem skipta máli fyrir nám og kennslu. Aðferðin er heimspekileg greining á hugtökum. Meginniðurstaðan er að skilningur á hógværð og heiðarleika hjálpi okkur að hugsa um innihald skólanámskrár og um markmið skólastarfs.

Að kenna hyggindi með platonskri samræðu

Róbert Jack, aðjúnkt, MVS, HÍ

Í aristótelískri mannkostamenntun (e. character education), sem er vaxandi nálgun í skólastarfi, er lögð áhersla á að með aukinni menntun þroski einstaklingurinn með sér vitsmunalegu dygðina hyggindi (frónesis). Vandamál mannkostamenntunar hvað þetta varðar er þó það að þrátt fyrir að Aristóteles lýsi ýmsum einkennum hygginda segir hann lítið sem ekkert um hvernig þroska eigi hyggindin.

Eitt af því sem lagt hefur verið til svo hanna megi menntun í hyggindum er að nýta samræðuaðferðirnar sem birtast í samræðum Platons. Ég hef áður haldið því fram að flest það sem Aristóteles segir að einkenni framferði hyggins einstaklings eigi einnig við um það sem gerist í platonskri samræðu. Þannig tel ég mig hafa lagt grunn að því að nýta platonska samræðuaðferð til að þroska hyggindi í aristótelískum skilningi. Í þessu erindi mun ég ganga út frá þeim einkennum sem Aristóteles segir að hygginn einstaklingur hafi enda lýsir Aristóteles þannig markmiði menntunar í hyggindum. Ég mun svo fjalla um hvernig nýta má ýmis einkenni platonskrar samræðu með hagnýtum hætti til að búa til kennsluaðferð sem stuðlar að auknum þroska hygginda í nútímamannkostamenntun. Tilgangur erindisins er því að varpa ljósi á hvernig nýta má samræðuaðferðir Platons til að búa til kennsluaðferð til að kenna hyggindi. Heimspekileg greining er aðferðin sem beitt er. Niðurstöður eru meðal annars að leita megi til Platons til að búa til kennsluaðferð fyrir hyggindi.