Hlutverk þroskaþjálfa: Virk þátttaka allra í skóla og samfélagi án aðgreiningar

Háskóli Íslands

Hlutverk þroskaþjálfa: Virk þátttaka allra í skóla og samfélagi án aðgreiningar

2. október kl. 13:45 til 15:15 – Smelltu til að taka þátt á ZOOM!

Inngildandi eða aðgreinandi? Val- og umsóknarferli nemenda með þroskahömlun á framhaldsskólastigi

Anna Björk Sverrisdóttir, aðjúnkt, MVS, HÍ

Að velja framhaldsskóla markar tímamót í lífi hvers unglings. Nemendur hópast á skipulagðar skólakynningar þar sem markmiðið er að afla sér upplýsinga um framboð og inntak náms ólíkra skóla – valmöguleikarnir ótalmargir. Þessi sviðsmynd á þó ekki við um nemendur sem þurfa mikinn stuðning í námi. Þegar aðrir nemendur sækja árlegar skólakynningar eru nemendur sem þurfa mikinn stuðning í námi þegar búnir að velja sína námsleið, þ.e. sérnámsbraut í framhaldsskóla – skipulagðar kynningar ekki fyrir hendi og valmöguleikarnir takmarkaðir. Skóli án aðgreiningar er lögfestur hér á landi en þrátt fyrir það leggja ekki allir sama skilning í hugtakið og það hefur áhrif á skipulag og umgjörð náms. Til þess að auka skilning á hugtakinu er mikilvægt að skoða það í tengslum við ólíka þætti skóla og náms. Í þessu erindi verður sjónum beint að umsóknarferli nemenda með þroskahömlun á framhaldsskólastigi þar sem sérstaklega er vikið að tveimur mikilvægum hugtökum þroskaþjálfafræði og skólaþróunar; inngildingu og félagslegu réttlæti. Niðurstöður eru hluti af doktorsverkefni höfundar. Viðtöl voru tekin við nemendur, foreldra og yfirmenn sérnámsbrauta í framhaldsskólum. Gögn voru skoðuð með hliðsjón af kenningu Iris Marion Young um félagslegt réttlæti og ljósi varpað á hvernig hugtökin um fimm andlit kúgunar (e. five faces of oppression) birtast í umsóknarferlinu. Niðurstöður benda til kerfislægrar mismununar sem felur meðal annars í sér jaðarsetningu nemenda á grundvelli stuðningsþarfa þeirra. Nemendur eru neyddir til að skilgreina sig með ákveðnum hætti, það hefur þversagnakenndar afleiðingar og dregur fram í dagsljósið galla í túlkun og nálgun á hugtakinu „skóli án aðgreiningar“.

Þátttaka er samvinna: Valdefling barna

Arnbjörg Stefánsdóttir, skólastjórnandi, Brekkubæjarskóli, Ruth Jörgensdóttir Rauterberg, aðjúnkt, MVS, HÍ og Heiðrún Janusardóttir, verkefnisstjóri æskulýðs- og forvarnarmála á Akranesi

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna skilgreinir rétt barna til að láta skoðanir sínar í ljós og hafa áhrif í öllum málum sem þau varðar. Börn eru fjölmennasti hópurinn innan skólasamfélagsins. Því er mikilvægt að hafa þau með í ráðum við þróun skóla- og frístundastarfs sem mætir fjölbreytilegum þörfum allra barna. Verkefnið „Þátttaka er samvinna: Valdefling barna“ er samstarfsverkefni Brekkubæjarskóla á Akranesi, frístundamiðstöðvarinnar Þorpsins og rannsakenda við Menntavísindasvið HÍ. Markmið þess eru að valdefla börn til þátttöku í eigin lífi, búa til farveg fyrir raddir þeirra og stuðla í leiðinni að aukinni þátttöku barna í þróun skóla- og frístundastarfs. Eftirfarandi spurningar eru hafðar að leiðarljósi: Hvernig upplifa börnin sitt skóla- og frístundaumhverfi með tilliti til menntunar fyrir alla? Hvernig getum við skapað ramma utan um starfshætti og tryggt öllum börnum möguleika til þátttöku og að upplifa að eiga hlutdeild? Á vorönn 2020 var farið í samstarf við nemendur á unglingastigi. Í gegnum skapandi verkefni og samtöl við rannsakanda gátu nemendur tjáð sig um hvað þeir kunna að meta við skólann sinn, hvaða breytingar þeir myndu vilja gera og hvað gæti orsakað að nemendur upplifðu jaðarsetningu og hindranir til þátttöku. Nemendur höfðu skýrar og fjölbreyttar hugmyndir um hvað betur mætti fara og hvernig mætti stuðla að aukinni þátttöku allra barna. Fram komu áhugaverðar hugleiðingar um hlutverk ólíkra starfsstétta innan skólans og tengsl skóla- og frístundastarfs. Nemendur lögðu áherslu á að skapa „virkan skóla“, þar sem börn taki virkan þátt, hlustað sé á þau og brugðist við því sem þau segja.

Líðan hinsegin ungmenna á Íslandi – Staða rannsókna, næstu skref og úrræði

Sólrún Sesselja Haraldsdóttir, meistaranemi, HVS, HÍ og Bergljót Gyða Guðmundsdóttir, lektor, MVS, HÍ

Hinsegin ungmenni glíma frekar við vanlíðan en ekki hinsegin jafnaldrar, þrátt fyrir að íslenskt samfélag sé almennt talið framsækið í málefnum hinsegin fólks, og sýna 16­–20 ára hinsegin nemendur jafnan meiri einkenni þunglyndis, streitu og reiði en ekki hinsegin jafnaldrar. Sálfélagsleg streita, svo sem erfiðleikar við að koma út úr skápnum og ótti við höfnun aðstandenda, eru áhættuþættir fyrir þunglyndi hjá þessum hópi. Hinsegin framhaldsskólanemar töldu skólaandann og samskipti innan skólans einkennast af skyldubundinni gagnkynhneigð (e. compulsory heterosexuality) sem birtist meðal annars í vanþekkingu á málefnum hinsegin fólks og skorti á stuðningi innan skólans. Samkvæmt rannsóknum getur stuðningur við hinsegin ungmenni verið af ýmsum toga. Hinseginfræðsla hafði til dæmis jákvæð áhrif á viðhorf kennara til hinsegin fólks og málefna þeirra. Þá geta hinseginfélög eða stuðningshópar innan skóla stuðlað að jákvæðara og öruggara skólaumhverfi. Fáar íslenskar rannsóknir eru til um líðan hinsegin ungmenna og árangur þeirra stuðningsúrræða sem í boði eru fyrir þau. Líðan hinsegin ungmenna í grunnskólum á Íslandi verður metin vorið 2021 með spurningalistum sem mæla þunglyndis- og kvíðaeinkenni. Þá verður einnig metið hvort þjónusta sem hefur það markmið að skapa hinsegin ungmennum öruggt umhverfi sé til staðar og hver hún er, innan sem utan skóla. Í þessu erindi verður farið yfir stöðu rannsókna á þessu efni á Íslandi, næstu skref í rannsóknum og hugmyndir að stuðningi við þennan viðkvæma hóp nemenda innan skólasamfélagsins.