Hinseginleiki, (ó)hefðbundinn kvenleiki og hið forboðna í íslenskri skólasögu við lok 19. aldar

Háskóli Íslands

Hinseginleiki, (ó)hefðbundinn kvenleiki og hið forboðna í íslenskri skólasögu við lok 19. aldar

2. október kl. 9.00 til 10.30 Smelltu til að taka þátt á ZOOM!

Áhugafólk um hinsegin femíníska skólasögu

Íris Ellenberger

Að ganga gegn hefðinni? Athugun á stöðu og atbeina kennslukvenna í Reykjavík í upphafi almenningsskólans

Ólöf Garðarsdóttir, prófessor, MVS, HÍ

Hér verður sjónum beint að atbeina kvenna í kennarastétt frá lokum 19. aldar til upphafs 20. aldar og leitað svara við að hve miklu leyti kennslukonur á Íslandi gengu gegn viðteknum hugmyndum um kvenleika og kvenhlutverk. Allt frá upphafi almenningsskólans á Vesturlöndum hafa konur verið mikilvægur starfskraftur í skólum og svo var einnig hér landi. Framan af átti þetta einkum við um Reykjavík þar sem konur voru heldur fleiri en karlar í hópi kennara, þegar í upphafi 20. aldar. Með tilurð og vexti almenningsskólans sem og vexti kennaramenntunar bauðst konum leið til menntunar og til sjálfstæðrar tilveru þar sem þær gátu séð sér farborða með starfi sem naut talsverðrar virðingar. Fyrri rannsóknir hafa leitt í ljós að á þessum tíma var talsverður munur á félagslegri stöðu karl- og kvenkennara hér á landi, einkum þó í Reykjavík. Karlar voru langflestir úr bændastétt en kennslukonur flestar börn embættismanna. Þá var fremur sjaldgæft að konur sem helguðu sig kennarastarfinu á fyrri hluta 20. aldarinnar væru giftar eða ættu börn. Allt fram yfir seinna stríð þótti þannig tæplega við hæfi giftar konur sinntu kennarastarfinu samhliða húsmóðurstarfi. Athugun á lífshlaupi kennslukvenna í Reykjavík bendir til þess að nokkrar konur hafi gengið gegn þessari viðteknu venju og sinnt kennslu samhliða móðurhlutverki og húsmóðurstörfum. Langflestar konur sem helguðu sig kennslu kusu þó að ganga ekki í hjónaband. Í fyrirlestrinum verður staða kennslukvenna sem kenndu við Barnaskólann í Reykjavík krufin til mergjar og leitað svara við hvort starfsval þeirra hafi storkað almenningsálitinu um stöðu kvenna í samfélaginu.

Kvennaskólinn, kvennahreyfingin og hinseginleiki meðal kennslukvenna um aldamótin 1900

Íris Ellenberger, lektor, MVS, HÍ

Tengsl kvenna- og stúlknaskóla við samkynhneigð og hinsegin ástir milli kvenna hafa verið viðfangsefni hinsegin sagnfræðirannsókna um áratugaskeið. Þær hafa ekki aðeins leitt í ljós að skólarnir voru mikilvægur vettvangur fyrir hinsegin ástir heldur einnig hlutverk menntunar í að skapa konum tækifæri til að brjótast út fyrir hefðbundinn ramma hjónabandsins, stofna til sambands og búa sér heimili með öðrum konum. Lillian Faderman gekk jafnvel svo langt árið 1991 að lýsa því yfir að menntun ætti mestan þátt í útbreiðslu samkynhneigðar meðal hvítra millistéttarkvenna. Á Íslandi hafa engar slíkar rannsóknir enn verið gerðar, enda fátt um heimildir sem benda í þessa átt. Þó hafa nýjar heimildir uppgötvast í tengslum við heimildasöfnunarverkefnið Huldukonur sem hleypt var af stokkunum árið 2017. Í þessum fyrirlestri verður gluggað í ástarbréf tveggja kennslukvenna sem þær rituðu um aldamótin 1900 til Ingibjargar H. Bjarnason, þá kennara við Kvennaskólann í Reykjavík. Bréfin og samhengi þeirra verður mátað við norrænar, breskar og bandarískar rannsóknir á ástum kvenna innan kvennaskólanna og fyrstu bylgju kvennahreyfingarinnar. Þannig verður leitast við að draga í fyrsta sinn upp mynd af íslenskum birtingarmyndum þeirra hinsegin ásta sem blómstruðu í skjóli kvennaskólanna og kvennahreyfingarinnar.

Öðruvísi útvaldir synir. Hinsegin kynverund og róttækar hugmyndir hjá einum árgangi íslenskra stúdenta á 19. öld

Þorsteinn Önnuson Vilhjálmsson, doktorsnemi, MVS, HÍ

Í fyrirlestrinum verða skoðaðar margvíslegar heimildir – handrit, bréf, dagbækur – um og eftir einn árgang Lærðaskólapilta, útskriftarárganginn 1882. Heimildir þessar opinbera nýjar hliðar á heimi íslenskra menntamanna á 19. öld, þar sem róttækar hugmyndir í bókmenntum fara saman við hinsegin og forboðnar kynverundir, kynsjúkdóma og sjálfsmorð. Í dagbókum bekkjarfélagana Ólafs Davíðssonar og Boga Th. Melsteð og í sjálfsævisögulegum skrifum þriðja bekkjarfélagans, Gísla Guðmundssonar, má finna upplýsingar um hinsegin ástarsambönd og kynlíf milli nemenda Lærða skólans. Auk þess má sjá að þessir piltar, sem margir aðhylltust hina nýju og róttæku raunsæisstefnu í bókmenntum, höfðu það að markmiði að öðlast forboðna þekkingu og reynslu til þess að kynnast „lífinu eins og það var“. Þetta sést hvað helst á harmrænni ævi enn annars bekkjarbróður, Brynjólfs Kúld, og í sjálfsmorði Gísla Guðmundssonar, sem er lýst á listilegan hátt með stílbrögðum raunsæisstefnunnar í skjölum Gísla. Að svo margt eftirtektarvert finnist í tengslum við einn 19 manna árgang innan Lærða skólans kann að gefa tilefni til að líta skólann, nemendur hans og allt samfélag Reykjavíkur 19. aldar nýjum augum.