Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og námsframboð Háskóla Íslands

Háskóli Íslands

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og námsframboð Háskóla Íslands

2. október kl. 10:45 til 12:15 Smelltu til að taka þátt á ZOOM!

Auður Pálsdóttir

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna í kennsluskrá Háskóla Ísland

Auður Pálsdóttir, lektor, MVS, HÍ, Lára Jóhannsdóttir, prófessor, VoN, HÍ, Atli Rafnsson, grunnskólakennari, Bjarni Bachmann, grunnskólakennari, Guðjón Már Sveinsson, framhaldsskólakennari, Hafdís Ósk Jónsdóttir, grunnskólakennari og Hildur Hallkelsdóttir, grunnskólakennari

Markmið rannsóknarverkefnis var að fá yfirlit yfir hvar í námskeiðum fræðasviða Háskóla Íslands (HÍ) virðist unnið með sjónarmið sjálfbærrar þróunar í anda heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna (SÞ) samkvæmt kennsluskrá HÍ háskólaárið 2019–2020. Námskeið allra fræðasviða HÍ voru greind þar sem rýnt var bæði í námskeiðslýsingu og hæfniviðmið hvers námskeiðs. Niðurstöður gefa vísbendingar um að hvaða heimsmarkmiðunum virðist vera unnið markvisst innan háskólans en einnig hver þeirra þyrftu að fá meiri athygli. Fjögur fræðasvið voru með skýra tengingu við heimsmarkmið nr. 4 (menntun fyrir alla), þrjú fræðasvið með nokkuð skýra tengingu við nr. 10 (aukinn jöfnuður) og tvö við nr. 3 (heilsa og vellíðan). Áhersla á önnur heimsmarkmið var ólík eftir fræðasviðum en teikn innan háskólans má einnig greina um heimsmarkmið nr. 8 (góð atvinna og hagvöxtur), nr. 9 (nýsköpun og uppbygging), nr. 11 (sjálfbærar borgir og samfélög), nr. 12 (ábyrg neysla og framleiðsla) og nr. 16 (friður og réttlæti). Áhersla á önnur heimsmarkmið virtist lítil eða engin samkvæmt námskeiðslýsingum HÍ. Niðurstöður verða ræddar með hliðsjón af stefnu Háskóla Íslands HÍ 21 og stefnu SÞ. Rætt verður hvort og að hvaða marki þyki gagnlegt að kortleggja námsframboð Háskóla Íslands eftir heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, séð frá sjónarhóli nemenda sem velja sér námsleiðir og kennara sem skipuleggja inntak og aðferðir hvers námskeiðs.

Lykilhæfni heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna í námskeiðum fræðasviða Háskóla Íslands

Bjarni Bachmann, grunnskólakennari, Grunnskólanum í Borgarnesi. Leiðbeinandi: Auður Pálsdóttir, lektor, MVS, HÍ

Markmið þessarar rannsóknar var að greina að hvaða marki virðist unnið að lykilhæfni heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna í námskeiðum fræðasviða Háskóla Íslands (HÍ) samkvæmt kennsluskrá HÍ veturinn 2019–2020. Rannsóknin er hluti af stærra verkefni sem kallast Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og námsframboð Háskóla Íslands. Gögnum um hvert fræðasvið var safnað af þátttakendum rannsóknarverkefnisins. Mótaður var greiningarlykill sem felur í sér átta gerðir af lykilhæfni skilgreindum af SÞ árið 2015 þegar heimsmarkmiðin voru sett fram. Lykilhæfnin er talin forsenda allrar vinnu með heimsmarkmiðin. Þetta eru hæfnin til 1) að hugsa kerfislægt, 2) sjá fyrir það sem óorðið er, 3) að bera saman við hið viðtekna (norm), 4) að skipuleggja, 5) til samstarfs, 6) til gagnrýninnar hugsunar, 7) að þekkja sjálfan sig (sjálfsvitund), og 8) hæfnin til samþættingar. Niðurstöður greiningar leiddu í ljós flestar skráningarnar á lykilhæfni af gerð 3 (hæfni til að bera saman við hið viðtekna) sem felur í sér getu til að skilja og ígrunda venjur og gildi sem liggja að baki athafna fólks, en líka að ræða gildi, meginatriði og markmið sjálfbærrar þróunar. Niðurstöður verða ræddar með hliðsjón af stefnu Háskóla Íslands og stefnu SÞ og varpað fram þeirri spurningu hvort og þá hvernig mætti taka mið af þessum átta gerðum lykilhæfni SÞ við gerð námskeiðslýsinga og hæfniviðmiða námskeiða Háskóla Íslands.

Námsmat á fræðasviðum Háskóla Íslands

Hildur Hallkelsdóttir, grunnskólakennari, Grunnskólinn í Borgarnesi og Auður Pálsdóttir, lektor, MVS, HÍ

Markmið þessarar rannsóknar var að greina hvers konar upplýsingar um námsmat megi greina í námskeiðslýsingum á öllum fimm fræðasviðum Háskóla Íslands (HÍ) í kennsluskrá fyrir veturinn 2019–2020. Rannsóknin er hluti af stærra verkefni sem kallast Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og námsframboð Háskóla Íslands. Mótaður var greiningarlykill, m.a. með hliðsjón af þeim upplýsingum sem ætlast er til að komi fram í kennsluskrá HÍ. Greiningarlykillinn byggir á sjö þáttum sem eru: Lokapróf, vægi lokaprófs, önnur próf, vægi verkefna, verkleg vinna, virkni og aðkoma nemenda að námsmatinu. Gögnum um hvert fræðasvið var safnað af þátttakendum rannsóknarverkefnisins. Niðurstöður benda til að víða í kennsluskrá HÍ megi bæta upplýsingar um námsmat verulega. Þá benda niðurstöður til þess að lokapróf séu stór þáttur í námsmati háskólans og að aðkoma nemenda að námsmati sé takmörkuð. Niðurstöður verða ræddar með hliðsjón af stefnu Háskóla Íslands og stefnu Sameinuðu þjóðanna sérstaklega. Þá verður rætt hvort og hversu ítarlega ætti að birta lesendum kennsluskrár upplýsingar um námsmat, gerð þess og vægi, annars vegar, og hins vegar hvaða áhrif það hefði á möguleg áhrif nemenda á námsmatið , bæði form þess og inntak.

Hnattræn vitund í námskeiðum fræðasviða Háskóla Íslands

Hafdís Ósk Jónsdóttir, framhaldsskólakennari, Flensborgarskólinn í Hafnarfirði. Leiðbeinandi: Auður Pálsdóttir, lektor, MVS, HÍ

Markmið þessarar rannsóknar var að greina vísbendingar um hnattræna vitund í námskeiðslýsingum fræðasviða Háskóla Íslands (HÍ) samkvæmt kennsluskrá veturinn 2019–2020. Rannsóknin er hluti af stærra verkefni sem kallast Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og námsframboð Háskóla Íslands. Samkvæmt áherslum Sameinuðu þjóðanna (SÞ) um sjálfbæra þróun og lögum um HÍ þarf í starfi háskóla að líta til hagsmuna komandi kynslóða. Því ættu háskólanemar að fá tækifæri til að vinna með viðfangsefni sjálfbærrar þróunar í anda sjálfbærnimenntunar og beina sjónum m.a. að illviðráðanlegum vandamálum samtímans. Mörg þessarar vandamála birtast í heimsmarkmiðum SÞ sem færa má rök fyrir að hvíli á hugmyndafræði um hnattræna vitund. Til að greina vísbendingar um hnattræna vitund var mótaður þríþættur greiningarlykill: 1) skilgreiningar á aðstæðum á ólíkum svæðum, 2) aðgerðir til lausna, og 3) viðhorf og vinnubrögð sem auka hæfni til að takast á við lýðræðislegt starf. Gögnum um hvert fræðasvið var safnað af þátttakendum rannsóknarverkefnisins. Niðurstöður benda til að teikn um hnattræna vitund í námskeiðslýsingum HÍ séu ekki algeng, en af þeim sem fundust eru langflestar að finna á menntavísindasviði. Af undirþáttunum fundust flest teikn um þáttinn skilgreiningar á aðstæðum á/eftir svæðum heimsins, sem felur í sér rýni í menningu sem tilheyrir hverju landsvæði fyrir sig, þátttöku í samfélagi nær og fjær, sameign jarðarbúa og því sem tengir lönd saman, ásamt því hvernig íslenskt samfélag speglast í alþjóðlegu samhengi. Niðurstöður eru ræddar með hliðsjón af stefnu HÍ og stefnu SÞ og spurt hvort og með hvaða hætti háskólinn gæti stuðlað að hnattrænni vitund í námsframboði sínu.

Viðfangsefni sjálfbærrar þróunar og sjálfbærnimenntunar í námskeiðum fræðasviða HÍ

Guðjón Már Sveinsson, grunnskólakennari, Kársnesskóli. Leiðbeinandi: Auður Pálsdóttir, lektor, MVS, HÍ

Markmið þessarar rannsóknar var að skoða hvers konar sýn mætti greina á þrjá þætti í námskeiðslýsingum á fræðasviðum Háskóla Íslands veturinn 2019–2020. Rannsóknin er hluti af stærra verkefni sem kallast Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og námsframboð Háskóla Íslands. Mótaður var greiningarlykill til að leita að teiknum um 1) Illviðráðanleg vandamál, sem eru snúin og um þau gilda engar reglur eða tilbúnar lausnir; 2) Veika sýn á sjálfbærni, sem felur í sér að náttúran veitir (mönnum) auðlindir og þjónustu. Sterka sýn á sjálfbærni felst í að allar breytingar á umhverfinu verði að vera innan þolmarka hennar og að ekki sé hægt að endurgera þjónustu náttúrunnar með athöfnum mannanna; 3) Sjálfbærnimenntun af gerðinni ESD 1 (e. Education for Sustainable Development) sem þykir oft byggja á staðreyndum, venjum og hugsunarhætti nútímans, og ESD 2 sem þykir stuðla að gagnrýnni hugsun nemenda og rýni í álitamál. Niðurstöður benda til að á heilbrigðisvísindasviði sé flest teikn um illviðráðanleg vandamál að finna. Fá teikn um veika eða sterka sýn á sjálfbærni fundust en þar sem þau fundust virðist áherslan yfirleitt á veika sýn á sjálfbærni. Vísbendingar um sjálfbærnimenntun af gerð ESD 1 og ESD 2 eru ekki margar, en flestar voru á menntavísindasviði, og af þeim langflestar af gerðinni ESD 2. Þær vísbendingar sem fundust á öðrum fræðasviðum voru flestar af gerðinni ESD 1. Niðurstöður verða ræddar með hliðsjón af stefnu HÍ og spurt hvort og þá með hvaða hætti háskólinn gæti stuðlað að vinnu með þessa þrjá þætti í námsframboði skólans.