Heilsuhegðun nemenda á tímum COVID-19 

Kl. 8:30-10:00

Vaka Rögnvaldsdóttir

Heilsuhegðun ungra Íslendinga: Niðurstöður úr rannsókn á svefn og svefnmynstri unglinga frá grunnskóla í framhaldsskóla

Rúna Sif Stefánsdóttir, aðjúnkt, MVS HÍ; Erlingur Jóhannsson, prófessor, MVS HÍ; Vaka Rögnvaldsdóttir, lektor, MVS HÍ; Sunna Gestsdóttir, lektor, MVS HÍ og Sigríður Lára Guðmundsdóttir, prófessor, MVS HÍ 

Tilgangur rannsóknarinnar var að skoða svefnvenjur og mögulegar breytingar á svefnmynstri íslenskra unglinga frá 15 til 17 ára, þegar nemendur fara úr grunnskóla og í framhaldsskóla. Einnig voru áhrif svefns á námsárangur og hugræna þætti skoðuð. Rannsóknarúrtakið kom frá sex grunnskólum í Reykjavík. Gögnum var safnað vorið 2015 meðal 315 nemenda í 10. bekk. Tveimur árum seinna samþykktu 236 nemendur þátttöku í eftirfylgdinni og hægt var að tengja gögn hjá 145 nemendum. Ein vika af svefni var mældur með actigraph-hreyfimæli, staðsettum á úlnliði. Einkunnir á samræmdum prófum í 10. bekk voru notaðar sem mælikvarði á námsárangur og minni og athygli voru skoðuð með stöðluðu tölvuprófi. Við mat á gögnunum var stuðst við ýmsar tölfræðilegar greiningar, keyrðar í R tölfræðiforritinu. Svefnlengd unglinga styttist að meðaltali um 24 mínútur á nóttu milli 15 og 17 ára. Á skóladögum fóru unglingarnir seinna að sofa 17 ára miðað við 15 ára en ekki var marktækur munur á hvenær unglingarnir fóru á fætur. Mikill breytileiki sást á svefni íslenskra unglinga 15 ára en á tveimur árum jókst breytileikinn enn frekar. Nemendur í fjölbrautakerfi sváfu lengur á skóladögum en nemendur í bekkjakerfi. Stöðugleiki í svefni og háttatími höfðu jákvæð áhrif á námsárangur 15 ára unglinga og þeir nemendur sem sváfu lengur nóttina fyrir hugræna prófið 17 ára, skoruðu hærra. Svefn unglinga styttist og breytileiki jókst frá elsta bekk í grunnskóla og yfir í framhaldsskóla. Lengd svefns, háttatími og breytileiki hefur áhrif á bæði námsárangur og hugræna þætti hjá íslenskum unglingum.  

 

Hefur fæðuval háskólanema breyst í COVID-19?

Gréta Jakobsdóttir, lektor, MVS HÍ; Erlingur Jóhannsson, prófessor, MVS HÍ; Rúna Stefánsdóttir, aðjúnkt, MVS HÍ; Sunna Gestsdóttir, lektor, MVS HÍ; Þórdís Gísladóttir, dósent, MVS HÍ og Vaka Rögnvaldsdóttir, lektor, MVS HÍ  

COVID-19 heimsfaraldurinn hefur haft mikil áhrif á líf margra. Viðamiklar breytingar á daglegu lífi einstaklinga, eins og breytt vinnu- og námsfyrirkomulag, geta haft víðtæk áhrif á lífsstíl og venjur, svo sem fæðuval og drykkjarvenjur. Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvort háskólanemar teldu að fæðuval sitt, neysla á koffínríkum drykkjum og áfengi hefði breyst, samanborið við fyrir COVID-19. Spurningalisti var sendur með tölvupósti á 366 nemendur (32 ára og yngri) á fyrsta ári við Menntavísindasvið Háskóla Íslands í janúar 2021. Kynjahlutfall úrtakshópsins var jafnt. Alls svöruðu 118 nemendur (54% karlar) spurningalistanum. Gild svör voru 115. Voru þátttakendur spurðir um gæði fæðuvals, neyslu grænmetis og ávaxta, koffíndrykkja sem og áfengis og beðnir um að bera saman við eigin neyslu fyrir tíma COVID-19. Hátt í helmingur nemenda mat fæðuval sitt verra samanborið við fyrir faraldurinn og einungis 14% upplifði fæðuval sitt betra. Stór hluti nemenda, 44%, taldi neyslu sína á koffíndrykkjum svipaða og fyrir upphaf faraldursins. Aftur á móti fannst fimmtungi þátttakenda neyslan minni en um fjórðungi fannst neyslan meiri. Um 40% nemenda drukku minna áfengi, en um 14% höfðu aukið áfengisneyslu sína. Af þeim sem töldu mataræði sitt verra borðuðu rúmlega 30% tvo eða fleiri skammta af ávöxtum og grænmeti daglega. Heimsfaraldurinn hefur haft mikil áhrif á venjur fólks og daglegt líf, sem í kjölfarið getur breytt og haft áhrif á fæðuval og drykkjarvenjur. Nærri helmingur nemenda taldi fæðuval sitt hafa versnað, þrátt fyrir að niðurstöður sýni ríflega neyslu grænmetis og ávaxta, og svipaða eða minni neyslu koffínríkra drykkja hjá meirihluta þátttakenda. Ástæður geta verið fjölbreyttar, eins og flutningur til baka í foreldrahús, einangrun, minni fjárráð, kvíði og vanlíðan. 

 

Koffínneysla, svefn og skjátími á tímum COVID-19

Vaka Rögnvaldsdóttir, lektor, MVS HÍ; Gréta Jakobsdóttir, lektor, MVS HÍ; Þórdís Lilja Gísladóttir, dósent, MVS HÍ; Sunna Gestsdóttir, lektor, MVS HÍ; Rúna Sif Stefánsdóttir, aðjúnkt, MVS HÍ og Erlingur Jóhannsson, prófessor, MVS HÍ  

Koffínneysla hefur aukist meðal ungs fólks undanfarin misseri. Fjölbreytt úrval koffíndrykkja er nú á markaði og auðvelt að nálgast þá. Rannsóknir á koffínneyslu benda til þess að koffín hafi áhrif á svefn. Markmið rannsóknarinnar var að bera koffínneyslu, svefnvenjur og skjátíma á tímum COVID-19 saman við fyrir tíma heimsfaraldursins. Í janúar og febrúar 2021 var nemendum á fyrsta ári Menntavísindasviðs Háskóla Íslands boðið að svara rafrænum spurningalista. Listinn var sendur á 366 nemendur 32 ára og yngri. Nemendur fengu sendan tölvupóst með upplýsingum um rannsóknina og þátttöku í rannsókninni var svo fylgt eftir með símtali. Alls svöruðu 118 nemendur (54% karlar) spurningalistanum, af þeim voru 115 gild. Meðalaldur þátttakenda var 24,1 ± 3,4 ár. Þátttakendur voru beðnir um að meta koffínneyslu, svefnlengd, svefngæði, háttatíma, hversu oft þeir legðu sig á daginn og skjátíma sinn á tímum COVID-19 samanborið við sömu hegðun fyrir heimsfaraldurinn. Um 26% háskólanemanna mátu koffínneyslu sína meiri, fjórði hver nemandi svaf skemur og 23% nemenda lengur á tímum COVID-19 en fyrir tíma COVID-19. Um 45% mátu svefngæði sín lakari, um 51% mat háttatíma sinn seinna að kvöldi og um 77% þátttakenda mátu skjátíma sinn lengri en fyrir tíma COVID-19. Þátttakendur sem neyttu meira koffíns á tímum COVID-19 en fyrir tíma heimsfaraldursins, sváfu einnig skemur (30%), upplifðu lakari svefngæði (47%), seinni háttatíma (32%) og aukinn skjátíma (93%). Almennt hafa svefnvenjur fólks breyst á tímum heimsfaraldursins með tilfærslu vinnu almennings og náms skólafólks inn á heimilin. Ætla má að margir háskólanemar vakni stuttu áður en skóli hefst þar sem ekki þarf að gera ráð fyrir tíma í samgöngur á milli staða. Mikilvægt er að fylgjast með með venjum ungs fólks og þróun þeirra á tímum heimsfaraldurs. 

  

Svefn háskólanema á tímum COVID-19

Alda Ólína Arnarsdóttir, meistaranemi, MVS HÍ; Vaka Rögnvaldsdóttir, lektor, MVS HÍ; Erlingur Jóhannsson, prófessor, MVS HÍ; Rúna Stefánsdóttir, aðjúnkt, MVS HÍ; Sunna Gestsdóttir, lektor, MVS HÍ; Þórdís Gísladóttir, dósent, MVS HÍ og Gréta Jakobsdóttir, lektor, MVS HÍ 

Svefn er ein af grunnstoðum lífsins. Þrátt fyrir það eru margir sem ekki að ná að uppfylla viðmið um svefnlengd. Á tímum COVID-19 hefur líf fólks tekið töluverðum breytingum þar sem fólk dvelur meira heima við. Markmið rannsóknarinnar var að bera svefnvenjur háskólanema á tímum COVID-19 saman við fyrir tíma COVID-19. Í upphafi árs 2021 var haft samband við 366 fyrsta árs nema, 32 ára og yngri, við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Upplýsingar um rannsóknina voru sendar í tölvupósti og var þeim síðan fylgt eftir með símtali og nemendum boðið að mæta í Laugardalshöll til að svara spurningalista. Alls svöruðu 118 nemendur (54% karlar) spurningalista í janúar-febrúar 2021. Af þeim báru 92 hreyfimæli í viku sem mældi svefn og hreyfingu og þar af áttu 72 þátttakendur gild gögn (57% karlar). Meðalaldur þátttakenda var 24,3 ± 3,5 ár. Meðal líkamþyngdarstuðull var 23,7 ± 4,3. Meðal svefnlengd var 6,5 ± 0,9 klst. og háttatími var að meðaltali kl. 01:43 ± 1,58 klst. yfir alla vikuna. Karlar sváfu marktækt styttra (6,3 ± 1,0 klst.) en konur (6,7 ± 0,8 klst.). Niðurstöður úr spurningalista sýndu að 27,6% nemenda töldu sig sofa færri klukkustundir, um helmingur svaf svipað margar klukkustundir og um 22,4% taldi sig sofa fleiri klukkustundir á tímum COVID-19 samanborið við fyrir tíma COVID-19. Um 3,9% þátttakenda sögðust fara fyrr að sofa, 40,8% sögðust fara sofa á svipuðum tíma og 55,3% sögðust fara seinna að sofa. Niðurstöður sýna að svefnvenjur ungs fólks hafi tekið breytingum á tímum Covid-19 sem er í samræmi við niðurstöður rannsókna víða um heim. Því er mikilvægt að fylgjast með hvernig heimsfaraldur sem þessi hefur haft áhrif á svefn og svefnvenjur ungs fólks á Íslandi á tímum COVID-19 og eftir að heimsfaraldrinum lykur. 

Andleg og líkamleg heilsa nemenda á fyrsta ári við Menntavísindasvið Háskóla Íslands í COVID-19

Sunna Gestsdóttir, lektor, MVS HÍ; Þórdís Gísladóttir, dósent, MVS HÍ; Vaka Rögnvaldsdóttir, lektor, MVS HÍ; Gréta Jakobsdóttir, lektor, MVS HÍ; Rúna Stefánsdóttir, aðjúnkt, MVS HÍ og Erlingur Jóhannsson, prófessor, MVS HÍ

Mikil umræða hefur verið um áhrif heimsfaraldursins COVID-19 á heilsu almennings. Háskólanemar eru þar engin undantekning, andleg og líkamleg heilsa þeirra hefur vakið töluverðan ugg. Markmið rannsóknarinnar var að skoða andlega og líkamlega heilsu háskólanema í COVID-19 og fyrir heimsfaraldurinn og kanna hvort munur væri á heilsu kynjanna. Í janúar 2021 svöruðu 115 nemendur (63 karlar og 52 konur) á fyrsta ári við Menntavísindasvið Háskóla Íslands spurningalista. Meðalaldur bæði karla og kvenna var 24,1 ár. Andleg líðan var metin með spurningum um einkenni kvíða, þunglyndis, sjálfsálits og líkamsmyndar. Líkamleg heilsa var metin út frá líkamsþyngdarstuðli. Þátttakendur voru jafnframt beðnir um að meta andlega líðan sína, líkamlega heilsu, einmanaleika, streitu, hreyfingu, kyrrsetu og svefngæði samanborið við fyrir heimsfaraldurinn. Karlar höfðu færri einkenni kvíða og þunglyndis en konur og þeir voru með meira sjálfstraust (p<0,05), enginn munur var á líkamsímynd kynjanna. Ríflega 50% þátttakenda áleit andlega líðan sína verri en fyrir COVID-19. Um 69% karla og 38% kvenna töldu líkamlega heilsu sína verri en fyrir heimsfaraldurinn. Hærra hlutfall kvenna en karla upplifði meiri einmanaleika (38% á móti 14%) og streitu (68% á móti 48%) en fyrir COVID-19. Um 71% karla og kvenna töldu kyrrsetu hafi aukist og 56% kvenna en 76% karla töldu hreyfingu sína minni en fyrir heimsfaraldurinn. Tæplega 50% karla og kvenna töldu svefngæði sín verri en fyrir heimsfaraldurinn. Heimsfaraldurinn hefur haft áhrif á fjölmarga áhættuþætti heilsu meðal háskólanema. Almennt upplifðu háskólanemar hnignun í andlegri og líkamlegri heilsu sinni sem mikilvægt verður að snúa við á komandi árum.