Heilsuefling og heilsufar – Forvarnir og skimanir

Háskóli Íslands

Heilsuefling og heilsufar – Forvarnir og skimanir

2. október kl. 9:00 til 10:30 Smelltu til að taka þátt á ZOOM!

Anna Sigríður Ólafsdóttir

Fæðuval og heilsuhegðun barna og unglinga – endurspeglun útlitsdýrkunar?

Gréta Jakobsdóttir, lektor, MVS, HÍ

Óheilsusamlegt mataræði og kyrrseta eru heilsutengd vandamál sem orðin eru algeng um allan heim. Þessi heilsutengdu vandamál hrjá ekki aðeins fullorðna heldur einnig börn og unglinga. Þeir þættir sem spila stórt hlutverk eru okkar eigin hegðun og það val sem við stöndum fyrir á degi hverjum. Mikilvægt er að rannsaka og skoða betur heilsuhegðun og heilsumynstur ungmenna, sem og hvað drífur heilsuhegðunina áfram og hvaða áhrif hegðunin hefur meðal annars á líkamlegt atgervi, andlega líðan, líkamsvitund og heilsuna almennt. Eigin heilsa og barna okkar er samsafn af mörgum þáttum sem mynda flókið net. Með því að rannsaka heilsumynstur, heilsuhegðun og fæðuval ungmenna, og skoða hvernig þessir þættir hafa áhrif á líkamlegt atgervi, andlega líðan og líkamsvitund, fáum við aukinn skilning á þeim vandamálum sem fyrirfinnast og hvernig þróa megi aðferðir og aðgerðaáætlanir til framfara og bættrar heilsu. Meðal þátta sem vaxandi áhyggjur eru af er þrýstingur og upplifun gegnum samfélagsmiðla, en mikilvægt er að ungmenni átti sig á að það að vera heilsusamlegur er flóknara en að líta vel út á myndum. Fjallað verður um og farið yfir þær rannsóknir sem framkvæmdar hafa verið á fæðuvali og heilsuhegðun ungmenna og samspili við samfélagsmiðla og útlitsdýrkun. Niðurstöður þessarar yfirlitsrannsóknar munu gefa mikilvæga sýn inn í þann flókna heim sem heilsa barna okkar er og varpa ljósi á hvað þarf að huga að í framtíðarrannsóknum sem og í aðgerðaáætlunum um lýðheilsu, með það að leiðarljósi að bæta heilsu og lífsgæði ungmenna og komandi kynslóða.

Er krabbameinsskimun ávallt til bóta?

Ástríður Stefánsdóttir, dósent, MVS, HÍ

Í þessu erindi mun ég fjalla um skimanir fyrir krabbameini og velta upp þeirri spurningu hvort þær séu ávallt gagnlegar eða hvort og þá hvernig þær geti valdið skaða. Ég mun byrja á að skilgreina krabbameinsskimanir, rekja markmið þeirra og hvað í þeim felst. Því næst útskýra þann ávinning sem við væntum að fá en einnig rekja þann skaða sem skimanir geta valdið. Lítið hefur almennt verið fjallað um þá áhættu sem felst í þátttöku í krabbameinsskimun, bæði fyrir einstaka þátttakanda en einnig fyrir almenna lýðheilsu. Nokkuð hefur birst af nýjum faraldsfræðilegum greinum um þetta efni á liðnum árum og mun ég rekja efni nokkurra þeirra. Í umfjöllun um skimanir fyrir brjóstakrabbameini hefur til að mynda verið sýnt fram á að „ofgreiningar“ eru algengar. Þar er greint krabbamein á byrjunarstigi og það meðhöndlað með skurðaðgerð og hugsanlega geislum og lyfjum. Þetta byrjunarstig hefði þó ekki nauðsynlega þróast í krabbamein sem hefði valdið einstaklingi skaða. Vandinn við þessar greiningar er að ógerningur er að meta fyrir fram hvaða mein hefðu orðið skaðleg og hver ekki. Einungis er hægt að greina þetta umfang í stórum faraldsfræðilegum rannsóknum þar sem gæði skimana eru metin. Deilt er um umfang ofgreininga en hugsanlegt er að þær geti verið að minnsta kosti um 1 af hverjum 5 greindum krabbameinum við skimun hjá einkennalausum konum á aldursbilinu 50–70 ára. Hér er um að ræða niðurstöður sem vekja upp flóknar og erfiðar pólitískar og siðferðilegar spurningar um skimanir, til að mynda um fórnarkostnað og forgangsröðun, og mikilvægt er að ræða á opinberum vettvangi.

D-vítamínbúskapur fyrir og eftir efnaskiptaaðgerðir á Landspítala

Berglind Lilja Guðlaugsdóttir, verkefnastjóri, MVS, HÍ, Ingibjörg Gunnarsdóttir, prófessor, HVS, HÍ

Langtímaárangur efnaskiptaaðgerða hjá einstaklingum með offitu er almennt góður, með tilliti til þyngdartaps, fylgisjúkdóma offitu og lífsgæða. Hins vegar fela aðgerðirnar í sér auknar líkur á næringarefnaskorti. Markmið rannsóknarinnar var að kanna styrk D-vítamíns í sermi einstaklinga um það bil tveimur vikum fyrir og allt að 18 mánuðum eftir efnaskiptaaðgerðir á Landspítala. Upplýsingar um mælingar á S-25(OH)D og kalkkirtilshormóni (PTH) voru fengnar úr sjúkraskrá allra einstaklinga sem fóru í efnaskiptaaðgerð á Landspítalanum á árunum 2001–2018. Vegna breytinga á mæliaðferð á rannsóknartímabilinu var ófullnægjandi D-vítamínstaða skilgreind sem styrkur S-25(OH)D <45 nmól/L á árunum 2001–2012, en <50 nmól/L 2013–2018. Niðurstöður mælinga á styrk S-25(OH)D voru skráðar í sjúkraskrá 539 einstaklinga fyrir aðgerð og fyrir 462 við 18 mánaða eftirfylgd. Hlutfall einstaklinga með ófullnægjandi D-vítamínstöðu fyrir aðgerð var um 52%, en 30,1% við 18 mánaða eftirfylgd. Þegar einungis er horft til tímabilsins 2013–2018 þá sést að ófullnægjandi D-vítamínstaða var til staðar hjá 28% einstaklinga fyrir aðgerð og 8% 18 mánuðum eftir aðgerð. Ófullnægjandi D-vítamínstaða var nokkuð algeng hjá einstaklingum með offitu sem gengust undir efnaskiptaaðgerð á rannsóknartímabilinu, bæði fyrir aðgerð og allt að 18 mánuðum eftir aðgerð. Niðurstöðurnar benda til þess að þó staðan virðist hafa batnað undanfarin ár þá sé ástæða til þess að leggja aukna áherslu á að leiðrétta næringarefnaskort sjúklinga fyrir efnaskiptaaðgerðir.