Heilsuefling í skólaumhverfi – Alþjóðleg samvinnuverkefni

Háskóli Íslands

Heilsuefling í skólaumhverfi – Alþjóðleg samvinnuverkefni

2. október kl. 10:45 til 12:15 Smelltu til að taka þátt á ZOOM!

Anna Sigríður Ólafsdóttir

WeValueFood: Að mennta, virkja og styrkja neytendur framtíðarinnar

Anna Sigríður Ólafsdóttir, prófessor, MVS, HÍ og Kolbrún Sveinsdóttir, verkefnastjóri, Matís

Í samfélagi dagsins í dag færist fólk sífellt fjær frumframleiðslu matvæla og tenging við hráefni og vinnslu þess er óljós. Tilgangur WeValueFood, sem rannsóknin sem hér er kynnt er hluti af, felur í sér að finna aðferðir til að auka skilning og styrkja viðhorf ungs fólks þannig að það átti sig á gildi og verðmætum matvæla og verði meðvitaðra um mat í víðu samhengi. Þrjár vinnustofur verða haldnar í fjórum löndum; Íslandi, Finnlandi, Póllandi og Bretlandi. Ein verður með háskólanemum, önnur með matvælaiðnaði og þriðja leiðir hópana saman. Markmiðið með vinnustofunum er að styðja við samtal matvælaiðnaðarins við unga fullorðna neytendur. Út frá vinnustofunum verða gerðar ráðleggingar byggðar á sameiginlegum niðurstöðum framtíðarneytenda og fulltrúa iðnaðarins.
Niðurstöðurnar leggja grunninn að áframhaldandi verkefnum sem miða að miðlun til neytenda í gegnum aðrar leiðir en markaðssetningu, meðal annars gegnum upplýsingaflæði og gerð námsefnis, með það að markmiði að auka áhuga á mat og matvælaframleiðslu. Annars vegar felst það í að auka þekkingu ungs fólks á matvælum, en fyrri rannsóknir sýna að börn og ungmenni eiga oft erfitt með að átta sig á uppruna matvæla og aðferðum og tilgangi matvælavinnslu. Hins vegar að takast á við neikvætt viðhorf ungs fólks til matvælavinnslu og þeirrar sýnar að matvælavinnsla eigi ekki samleið með hollustu. Aukinn áhugi og þekking meðal neytenda sem styður við sjálfbærni og samfélagslega ábyrgð matvælaframleiðenda er væntur ávinningur verkefnisins og í samræmi við heimsmarkmiðin.

ProMeal: Afgangar af skólamáltíðum og nesti skólabarna í Svíþjóð, Íslandi og Noregi

Ragnheiður Júníusdóttir, aðjúnkt, MVS, HÍ, Gréta Jakobsdóttir, Anna Sigríður Ólafsdóttir, prófessor, MVS, HÍ og Agneta Hörnell, prófessor, Umeå-háskólinn

Rannsóknin Skólamáltíðir á Norðurlöndum (ProMeal) nær til fjölþættra áhrifa skólamáltíða og nestis á líðan 11 ára skólabarna í Svíþjóð, Íslandi og Noregi. Meðal þátta sem kannaðir eru eru tengsl athygli og einbeitingar á skólatíma og vellíðan í skólamötuneytinu á matmálstíma. Skóladagur barna er oft á tíðum langur og mikilvægt er að skólamáltíðir veiti næga orku og góða næringu til að takast á við daginn. Börn í grunnskólum þessara þriggja landa borða almennt skólamáltíðir sem annaðhvort eru framreiddar í skólunum eða koma með nesti að heiman. Það er hlutverk skóla og forráðamanna að sjá börnunum fyrir næringarríkum og hollum mat á skólatíma en það eru börnin sjálf sem ákveða hvort maturinn er borðaður og einnig hve mikið af honum. Matarsóun er víðtækt vandamál nánast hvar sem er í samfélagi okkar og það á einnig við í skólunum. Fjallað verður um hugsanlegan mun á orkuinnihaldi afganga, annars vegar nestis og hins vegar skólamáltíða. Farið var í 21 grunnskóla, níu í Svíþjóð, sex á Íslandi og sex í Noregi. Teknar voru ljósmyndir af skólamáltíðum (Svíþjóð, Ísland) og nesti (Ísland, Noregur) 11 ára skólabarna. Bæði voru teknar myndir af matmálsdiskunum þegar starfsfólk skólans eða börnin voru búin að skammta sér sem og af afgöngunum. Síðari niðurstöður munu varpa ljósi á gæði máltíðanna burtséð frá orkuinnihaldi þeirra og hve mikið af dýrmætum næringarefnum endar í ruslinu.

UPRIGHT-verkefnið: Samleið við aðalnámskrá, menntastefnu Reykjavíkurborgar og heilsueflandi grunnskóla

Unnur Björk Arnfjörð, doktorsnemi, MVS, HÍ og Anna Sigríður Ólafsdóttir, prófessor, MVS, HÍ

UPRIGHT-verkefnið er samstarfsverkefni sex Evrópulanda með það að markmiði að stuðla að vellíðan unglinga með því að efla seiglu þeirra og getu til að takast á við krefjandi verkefni unglingsáranna, sem er það tímabil ævinnar sem einkennist af örum breytingum. Í UPRIGHT er unnið með fjóra meginþætti, þ.e. núvitund, bjargráð, sjálfstraust og félags- og tilfinningahæfni. Núvitundin umlykur þessa þrjá meginþætti sem allir tengjast á einn eða annan hátt en undir hverjum þætti eru mismunandi undirþættir. Í fyrirlestrinum verður gerð grein fyrir verkefninu og rýnt í möguleikana sem bjóðast í skólastarfi með tengingu við aðalnámskrá, nýja menntastefnu Reykjavíkurborgar og heilsueflandi skólaverkefni Embættis landlæknis.