Hegðun og líðan grunnskólabarna: Þekking starfsfólks – leiðir til árangurs

Kl. 8:30-10:00

Rannsóknarstofa um þroska, læsi og líðan

Margrét Sigmarsdóttir

Vinnulag grunnskólakennara og faglegur stuðningur vegna hegðunar- og tilfinningavanda nemenda

Sesselja Magnúsdóttir, meistaranemi, HVS HÍ og Bergljót Gyða Guðmundsdóttir, dósent, MVS HÍ

Skólastarf á Íslandi hefur tekið ýmsum breytingum undanfarin ár og nemendahópar íslenskra grunnskóla eru sífellt fjölbreyttari. Starfsumhverfi kennara er krefjandi, til dæmis vegna aukins vinnuálags og krefjandi hegðunar nemenda, sem er mikið áhyggjuefni kennara. Þau úrræði sem kennarar hafa yfir að ráða í þessu samhengi virðast ekki duga, þrátt fyrir viðleitni skólayfirvalda til ýmiss konar úrbóta. Meginmarkmið rannsóknarinnar var að kanna mat kennara á umfangi hegðunarvanda nemenda í grunnskólum í Reykjavík og hvort eða hvaðan kennarar fengju stuðning til þess að mæta þörfum nemenda. Þátttakendur voru 77 grunnskólakennarar og var meirihluti þeirra konur. Niðurstöður sýndu að flestir þátttakendur tókust á við erfiða hegðun nemenda nánast daglega eða oft á dag. Meirihluti hópsins sagðist oft fá stuðning frá samkennurum og/eða stuðningsfulltrúum. Marktæk tengsl mældust milli aga-/hegðunarstefnu skóla og mats þátttakenda á gagnsemi stuðnings við að mæta þörfum nemenda, (15, N=60) = 36,15, p = 0,002. Þær aðferðir sem þátttakendur sögðust beita oftast í tengslum við hegðun nemenda voru að styrkja viðeigandi hegðun og að styrkja ekki óviðeigandi hegðun. Nær allir þátttakendur voru sammála því að nemandi sem sýnir erfiða hegðun lærir minna vegna hennar og meirihluti var sammála um að erfið hegðun fengi þá til að íhuga að hætta að kenna. Þessar niðurstöður benda til þess að hegðunarvandi nemenda í grunnskólum í Reykjavík sé enn töluverður og að þessi hópur kennara hafi hvorki fengið næga þjálfun né stuðning til þess að takast á við þennan umfangsmikla vanda. Helsta takmörkun rannsóknarinnar var smæð og einsleitni úrtaksins.

 

Áhrif virknimats og stuðningsáætlunar á hegðun og námsástundun þriggja grunnskólanemenda

Katrín María Elínborgardóttir, meistaranemi, MVS HÍ og Anna-Lind Pétursdóttir, prófessor, MVS HÍ

Erfið hegðun er hluti af félagslegu samhengi og áhrifaþætti hennar er hægt að flokka í bakgrunnsáhrifavalda, aðdraganda og afleiðingar. Sagt verður frá rannsókn þar sem virknimat var notað til að greina áhrifaþætti á truflandi hegðun og vanvirkni hjá þremur grunnskólanemendum og stuðningsáætlanir framkvæmdar til að bæta hegðun og námsástundun í kennslustundum. Þátttakendur voru þrír strákar í 3. til 5. bekk í tveimur skólum á höfuðborgarsvæðinu með sögu um langvarandi hegðunarvanda. Einn þeirra var auk þess með greiningu um röskun á einhverfurófi. Þrjú teymi háskólanema í námskeiðinu Hegðunar- og bekkjarstjórnun gerðu virknimat og stuðningsáætlanir í samstarfi við grunnskólakennara og foreldra þátttakenda, undir handleiðslu umsjónarkennara námskeiðsins og vettvangskennara í starfsþjálfun nemanna í hagnýtri atferlisgreiningu. Virknimat fól í sér óbeinar aðferðir (t.d. mat á bakgrunnsupplýsingum og viðtöl við kennara, foreldra og nemendur) og beinar athuganir (t.d. á aðdraganda, hegðun og afleiðingum markhegðunar). Einstaklingsmiðaðar stuðningsáætlanir voru útbúnar og framkvæmdar í samræmi við niðurstöður virknimats. Áhrif af stuðningsáætlunum voru metin með margföldu grunnskeiðssniði milli þátttakenda. Helstu niðurstöður voru að þátttakendur drógu úr truflandi hegðun og juku námsástundun sína eftir innleiðingu inngrips. Kári (dulnefni) lagði að meðaltali 34% meiri rækt við námið, Ólafur (dulnefni) 43% og Hannes (dulnefni) 49%. Tilvikum truflandi hegðunar hjá Kára fækkaði að meðaltali úr 48 í 5 á 20 mínútna athugunartímabilum, hjá Ólafi úr 15 í 0 og hjá Hannesi úr 59 í 10 eftir framkvæmd stuðningsáætlana. Niðurstöður benda til þess að einstaklingsmiðaðar stuðningsáætlanir byggðar á virknimati geti dregið úr langvarandi hegðunarvanda grunnskólanemenda.

Dregið úr hegðunarerfiðleikum nemanda með ADHD

Guðrún Jóhannsdóttir, meistaranemi, MVS HÍ; Anna Guðrún Steindórsdóttir, meistaranemi, MVS HÍ; Guðbjörg Guðmundsdóttir, meistaranemi, MVS HÍ; Magnea Dröfn Hlynsdóttir, meistaranemi, MVS HÍ; Unnur Jónsdóttir, meistaranemi, MVS HÍ og Margrét Sigmarsdóttir, dósent, MVS HÍ

Kynnt verður verkefni þar sem notað var virknimat til að útbúa einstaklingsmiðaða stuðningsáætlun. Tilgangur verkefnisins var fyrst og fremst að draga úr truflandi hegðun hjá 10 ára tvítyngdum nemanda með sögu um erfiða hegðun í kennslustundum. Samhliða voru væntingar um aukna námsástundun. Nemandinn er með nýlega greiningu um ADHD. Samantekt var gerð úr þeim gögnum sem safnað var með beinum athugunum og óbeinum aðferðum, svo sem viðtölum við kennara, foreldri og nemanda. Niðurstöður virknimats voru svo notaðar til að hanna einstaklingsmiðaða stuðningsáætlun þar sem inngrip var ákveðið út frá tíðni hegðunarinnar og stóð yfir í tvær vikur. Til að auka líkur á viðeigandi hegðun voru gerðar breytingar á umhverfi barnsins, með því að hafa áhrif á bakgrunnsáhrifavalda, aðdraganda og afleiðingar. Áhersla var á að kenna viðeigandi hegðun og styrkja hana kerfisbundið með táknstyrkjakerfi í formi hvatningarbókar þar sem dregið var markvisst úr notkun táknstyrkingar. Námsástundun og truflandi hegðun var metin með endurteknum beinum áhorfsmælingum í bóklegum kennslustundum sem reynst höfðu nemandanum erfiðar. Niðurstöður sýndu að námsástundun jókst að meðaltali úr 9,8 í 15,25 mínútur á 20 mínútna tímabili meðan á íhlutun stóð og tíðni truflandi hegðunar fór úr 22,5 tilvikum niður í 12 tilvik að meðaltali við lok íhlutunar. Niðurstöður benda til þess að hægt sé að auka samvinnu og námsástundun nemenda með ADHD með því að nota einstaklingsmiðaða stuðningsáætlun sem byggist á virknimati og gagnreyndum aðferðum til íhlutunar.

„Þú þarft að hafa breitt bak til að vinna í svona“: Upplifun og reynsla stuðningsfulltrúa af krefjandi hegðun nemenda í grunnskólum

Árdís Flóra Leifsdóttir, kennari, Sunnulækjarskóla; Bergljót Gyða Guðmundsdóttir, dósent, MVS HÍ og Annadís Greta Rúdólfsdóttir, dósent, MVS HÍ

Stuðningsfulltrúar í íslenskum grunnskólum vinna gjarnan með nemendum sem sýna krefjand

i hegðun og/eða vanlíðan, en kanna þarf betur þekkingu þeirra og reynslu á þessu sviði. Markmið þessarar eigindlegu viðtalsrannsóknar var að kanna ábyrgð og hlutverk stuðningsfulltrúa við að styðja við þennan hóp nemenda, fræðslu- og þjálfunartækifæri, vinnubrögð og líðan þeirra í starfi. Fræðilegt sjónarhorn var fyrirbærafræði og mótunarhyggja. Þátttakendur voru sex og höfðu allir starfað sem stuðningsfulltrúar í grunnskólum með nemendum sem sýndu krefjandi hegðun. Þemagreining leiddi í ljós eftirfarandi þemu: 1) Vanlíðan nemenda ástæða krefjandi hegðunar, 2) yfirveguð og góð samskipti best til að koma til móts við nemendur, 3) stuðningsfulltrúi látinn axla ábyrgð á krefjandi hegðun og vinnufriði í skólastofunni, 4) skortur á stuðningi við krefjandi hegðun, 5) samvinna og samtal milli starfsmanna mikilvæg fyrir líðan og 6) undirbúningur og fræðsla fyrir starfið mikilvæg. Þátttakendur höfðu allir upplifað krefjandi hegðun nemenda, sem þeir töldu að skýrðist af umhverfi/áreiti sem ylli nemendum vanlíðan. Þeir töldu mikilvægt að bregðast við með ró og lögðu sig fram við að eiga gott samband við nemendur. Þátttakendum fannst vanta fræðslu fyrir allt starfsfólk skóla um notkun gagnlegra aðferða í starfi með nemendum. Starfsaðstæður, stuðningur og samskipti við starfsfólk höfðu áhrif á líðan þeirra. Mikilvægt er að tryggja fræðslu og þjálfun fyrir starfsfólk skóla til að takast á við krefjandi hegðun nemenda. Stuðla þarf að góðum starfsanda til að auka vellíðan og úthald starfsfólks, einkum stuðningsfulltrúa. Tryggja þarf að stuðningsfulltrúar fái stuðning til að takast á við krefjandi hegðun nemenda.