Háskólar: Nemendur og námsgengi

Háskóli Íslands

Háskólar: Nemendur og námsgengi

2. október kl. 9.00 til 10.30 Smelltu til að taka þátt á ZOOM!

Rannsóknarstofa um háskóla

Guðrún Geirsdóttir

Brotthvarf nemenda úr námi á tveimur sviðum Háskóla Íslands

Anna Helga Jónsdóttir, dósent, VoN, HÍ, Magnús Þór Torfason, lektor, FVS, HÍ og Margrét Sigrún Sigurðardóttir, lektor, FVS, HÍ

Haustið 2017 var ákveðið að fylgja eftir nýnemum tveggja sviða Háskóla Íslands, Félagsvísindasviðs (FVS) og Verkfræði- og náttúruvísindasviðs (VON), og framvinda þeirra í námi rannsökuð. Eitt af meginmarkmiðum rannsóknarinnar var að varpa ljósi á hversu víðtækt brotthvarf nemenda úr námi er á sviðunum tveimur og hvort fylgni væri á milli tiltekinna bakgrunnsbreyta og brotthvarfs, svo sem kyns, aldurs og framhaldsskóla. Spurningalistar voru einnig lagðir fyrir nemendahópinn þar sem tengsl nemenda við aðra nýnema voru könnuð og seigla (e. grit) nemendanna metin. 610 nemendur hófu nám á FVS og 621 á VON haustið 2017. Í lok júní 2020, þremur skólaárum síðar, höfðu um 28% nemenda FVS-hópsins og 29% nemenda VON-hópsins brautskráðst en um 17% nemenda FVS og um 14% nemenda VON voru enn í sama námi og þeir hófu haustið 2017. Um 21% nemenda FVS-hópsins, og sama hlutfall VON-hópsins, voru skráðir í annað nám en þeir byrjuðu í. Um 34% nemenda FVS-hópsins höfðu hætt námi og sömu sögu má segja um 36% nemenda VON-hópsins. Tvíkosta aðhvarfsgreining var notuð til að kanna möguleg tengsl milli brotthvarfs úr námi og bakgrunnsbreytanna og verða helstu niðurstöður þeirrar greiningar kynntar í erindinu. Að auki verður rætt um hvernig niðurstöður rannsóknarinnar geti mögulega nýst deildum til að minnka brotthvarf nemenda úr námi.

 

Tengslamyndun háskólanema

Magnús Þór Torfason, lektor, FVS, HÍ, Anna Helga Jónsdóttir, VoN, HÍ og Margrét Sigrún Sigurðardóttir, FVS, HÍ

Háskólaárin eru mótandi tími fyrir nemendur og hafa ýmsir rannsakendur bent á mikilvægi tengslaneta háskólanema. Rannsóknir hafa gefið til kynna að öflugt tengslanet í háskólanámi dragi úr brotthvarfi háskólanema auk þess sem tengsl úr háskóla hafa áhrif á árangur í atvinnuleit. Að endingu hefur verið sýnt fram á mikilvægi félagslegra tengsla fyrir andlega líðan fólks. Því eru fjölþættar ástæður fyrir að skoða þátt háskólasamfélagsins í hvernig tengslanet fólks þróast.

Í þessari rannsókn er sjónum beint sérstaklega að tengslamyndun háskólanema, þ.e. hvaða þættir spá fyrir um myndun nýrra tengsla meðal háskólanema. Lögð var könnun fyrir nýnema í tveimur fræðasviðum við Háskóla Íslands þar sem nemendur voru spurðir hverja þeir þekktu við upphaf náms, auk annarra spurninga. Þessir nemendur voru svo aftur spurðir um miðbik annars árs hvaða samnemendum þeir eyddu mestum tíma í skólanum. Svörin voru notuð til að kortleggja tengsl og tengslamyndun nemenda. Sér í lagi var skoðað hvaða þættir spáðu fyrir um fjölda nýrra tengsla – tengsla sem voru til staðar í seinni fyrirlögninni en ekki í þeirri fyrri. Greining á gögnunum gaf til kynna að konur við Háskóla Íslands stofnuðu til fleiri nýrra tengsla á fyrsta eina og hálfa ári sínu í háskólanámi en karlar. Þessi kynjamunur er marktækur meðal nemenda á báðum fræðasviðum sem þátt tóku. Kynjamunurinn var þó meiri á Verkfræði- og náttúruvísindasviði en á Félagsvísindasviði. Niðurstöðurnar gefa til kynna að tengslamyndun í háskóla kunni að vera veigameiri þáttur í uppbyggingu tengslanets kvenna en tengslanets karla.

 

Bakgrunnur og aðstæður nýnema á Menntavísindasviði

Amalía Björnsdóttir, prófessor, MVS, HÍ og Þuríður Jóhannsdóttir, prófessor, MVS, HÍ

Markmið rannsóknarinnar var að kanna aðstæður og bakgrunn stúdenta á Menntavísindasviði HÍ og áhrif þess á framvindu náms og brottfall. Á Menntavísindasviði eru hlutfallslega margir fjarnemar á sumum námsleiðum. Skipulag fjarnáms og staðnáms er sambærilegt, hóparnir sækja sömu námskeið og staðnemar mæta í vikulegar kennslustundir en fjarnemar staðbundnar lotur en stunda námið þess á milli á netinu. Staðnemar eru líklegri til að vera ungir, einhleypir og hafa nýlokið framhaldsskóla en fjarnemar eru oftar eldri með fjölskyldu og vinna mikið með námi. Gögnum var safnað með spurningakönnun haustið 2019 meðal 296 nýnema á fjórum námsleiðum í grunnnámi. 40% þátttakenda eru yfir 25 ára aldri og hlutfallið er í kringum 65% í leikskólakennarafræði og þroskaþjálfafræði. Ríflega helmingur þátttakenda er í sambúð, hæsta hlutfallið er í leikskólakennaranámi 76% og 54% þroskaþjálfanema eru í sambúð. Um 67% allra þátttakenda eru barnlausir, um helmingur leikskólakennaranema og þroskaþjálfanema. Þriðjungur þátttakenda vinnur meira en 30 klst. á viku í launuðu starfi og á það við um yfir helming leikskólakennaranema og þroskaþjálfanema en svipað hlutfall á þessum námsleiðum segir að vinna hafi neikvæð áhrif á námsframvindu. Þegar spurt er um tíma sem notaður er í námið segjast aðeins 23% nota meira en 30 klst. á viku í námið. Hlutfallið er lægst (4%) hjá tómstunda- og félagsmálafræðinemum, en þar er eingöngu í boði staðnám, en hæst hjá grunnskólakennaranemum (30%) þar sem um 60% eru staðnemar. Ljóst er að aðstæður og bakgrunnur stúdenta hafa áhrif á námsframvindu og líklega þarf háskólinn að taka í ríkara mæli mið af því við skipulag námsins.

 

Hvað skýrir hæga framvindu og mikið brottfall úr námi í leikskólakennarafræðum við Háskóla Íslands?

Þuríður Jóhannsdóttir, prófessor, MVS, HÍ og Amalía Björnsdóttir, prófessor, MVS, HÍ

Tilgangur rannsóknarinnar var að leita skýringa á hægri námsframvindu og miklu brottfalli meðal leikskólakennaranema við HÍ. Á Íslandi hefur skortur á leikskólakennurum verið viðvarandi. Fyrir um aldarfjórðungi var leikskólakennaranám flutt á háskólastig og með lögum frá 2008 var krafist meistaraprófs. Eftir lengingu námsins hefur dregið mjög úr fjölda útskrifaðra leikskólakennara og ljóst að ef svo heldur sem horfir mun stórfelld fækkun verða í röðum þeirra. Til að svara því hvað veldur hægri námsframvindu voru aðstæður nema kannaðar, svo sem vinna með námi, fjölskylduaðstæður og fyrri menntun. Auk þess var skoðaður tími notaður í námið, námsform, þ.e. staðnám eða fjarnám, fjöldi eininga sem nemar voru skráðir í og ljúka á fyrsta námsári.

Gögnum var safnað með spurningalistum sem lagðir voru fyrir alla leikskólakennaranema á fyrsta námsári haustið 2018 og 2019 og nema á öðru ári árið 2019. Mikill meirihluti leikskólakennaranema (80%) er í fjarnámi og vinnur fullt starf í leikskóla með námi. Þetta eru konur (79%) um þriðjungur þeirra yfir þrítugt og meirihluti í sambúð og með börn. 70% hafa lokið stúdentsprófi og 63% nota 20 klst. eða minna í námið á viku. Þegar komið er á annað námsár kemur í ljós að 40% hafa lokið sem samsvarar fullu námi á fyrsta námsári. Ljóst er að núverandi skipulag námsins tekur ekki nægilega mið af aðstæðum leikskólakennaranema. Mikil þörf er fyrir menntaða leikskólakennara og grípa þarf til aðgerða til þess styðja námsframvindu þeirra nema sem hefja leikskólakennaranám til að minnka brottfall og stuðla að því að fleiri ljúki námi.