Háskólar: Kennsluaðferðir

Háskóli Íslands

Háskólar: Kennsluaðferðir

1. október kl. 9:00 til 10:30 – Smelltu til að taka þátt á Zoom!

Rannsóknarstofa um háskóla

Guðrún Geirsdóttir

Er fýsilegt að innleiða fjölbreytta kennsluhætti og námsmat í grunnnámi háskóla? Reynsla af nýju námskeiði í hjúkrunarfræði

Brynja Ingadóttir, lektor, HVS, HÍ, Ásta Bryndís Schram, lektor, HVS, HÍ og Helga Sif Friðjónsdóttir, aðjúnkt, HVS, HÍ

Markmið þessarar rannsóknar var að lýsa undirbúningi og þróun nýs námskeiðs innan hjúkrunarfræði um samskipti og fræðsluhlutverk hjúkrunarfræðinga og meta fýsileika þeirra kennsluaðferða sem voru valdar út frá sjónarhorni nemenda og kennara. Kennsluaðferðir og námsmat var valið út frá gagnreyndri þekkingu innan heilbrigðis- og kennsluvísinda um kennslu í samskiptum. Lögð var áhersla á þjálfun og æfingar, umræður og persónulega ígrundun og skyldumæting var í tíma. Gögnum var safnað samhliða undirbúningi og við kennslu námskeiðsins í tvígang (2018 og 2019). Við gagnasöfnun var notast við dagbækur kennara og nemenda, rafræna spurningakönnun (með fjórum prófuðum matstækjum auk viðbótarspurninga) með þátttöku nemenda, rýnihóp nemenda, og niðurstöður kennslukönnunar og námsmats. Gagnagreiningu er ekki lokið. Fyrstu niðurstöður benda til þess að nemendur (n=144) kunni ágætlega að meta nýjungar og fjölbreytni í kennsluháttum og námsmati, en hún krefst skipulags og samfelldrar virkni í náminu sem getur verið erfitt fyrir nemendur að uppfylla. Fjölbreytt námsmat og endurgjöf til fjölmennra hópa nemenda er jafnframt krefjandi og tímafrek fyrir kennara. Sjá mátti stíganda í námi nemenda og námsmat leiddi í ljós að vel gekk að ná hæfniviðmiðum námskeiðsins. Skortur á hentugu húsnæði og fjölmennir árgangar voru áskorun fyrir kennara og nemendur. Innleiðing fjölbreyttra kennsluhátta krefst góðs undirbúnings. Útskýra þarf vel fyrir nemendum tilgang slíks vals og til hvers er ætlast af þeim sjálfum. Hentugt húsnæði og kostnaður við þjálfun nemenda í litlum hópum eru þættir sem hafa áhrif á fýsileika slíkrar innleiðingar og stuðningur stjórnenda er nauðsynlegur fyrir árangur.

 

Reynslusaga af vendikennslu: Áskoranir og lærdómur

Edda R. H. Waage, lektor, VoN, HÍ

Vendikennsla (e. flipped learning) er ein af þeim kennslufræðilegu nálgunum sem rutt hafa sér til rúms á síðustu tveimur áratugum samhliða framförum og þróun í upplýsingatækni. Vendikennsla fellur þannig í flokk rafrænna kennsluhátta þar sem fyrirframgerðar upptökur á námsefninu eru oftar en ekki í forgrunni. Sú staðreynd segir þó ekki nema hálfa söguna því einn megintilgangur vendikennslu er að skapa aukið svigrúm fyrir nemendamiðað nám í kennslustofunni þar sem byggt er á ýmiss konar aðferðum. Í erindinu segir frá kennsluþróunarverkefni í námsbraut land- og ferðamálafræði þar sem tekin var upp vendikennsla í aðferðafræðinámskeiði. Fjallað er um þær áskoranir sem almennt felast í að venda kennslu frá „hefðbundnu“ kennslufyrirkomulagi er byggir á fyrirlestrum kennara í kennslustofu, yfir í nám þar sem hlutverk og virkni nemenda í kennslustofunni er í forgrunni. Sjónum er þó sérstaklega beint að því hvernig slíkar áskoranir raungerðust í þessu tiltekna námskeiði, hvernig staðið var að verki, hvaða leiðir voru farnar í hinu nemendamiðaða námi, kostum þeirra og göllum, sem og upplifun kennara af þessu breytingaferli. Sá lærdómur sem dreginn er af verkefninu er að vendikennsla snýst ekki aðeins um þær vendingar sem nafngiftin vísar til, heldur er vendikennsluformið skapandi vettvangur fyrir kennslu og nám sem kallar á stöðuga rýni og endurskoðun aðferða.

 

„Fyrst fannst mér skrýtið að vera að taka svona MOOC-námskeið sem hluta af öðru námskeiði en svo var það bara mjög gott“

Sigurbjörg Jóhannesdóttir, verkefnastjóri háskólakennslu í Kennslumiðstöð HÍ

MOOC (Massive Open Online Courses) er skilgreining fyrir stór námskeið sem fara fram í rafrænu námsumhverfi á Internetinu. Nokkrar stórar námsveitur eins og edX, Udacity, Coursera og FutureLearn bjóða upp á hefðbundið háskólanám í slíku formi. Markmið þessa erindis er að segja frá hvað nemendum í tveimur námskeiðum á Félagsvísindasviði Háskóla Íslands (HÍ) fannst um að taka MOOC-námskeið, hjá edX og Udemy, inni í HÍ-námskeiðum og fá þau hlutfallslega metin til námsmats út frá vinnuframlagi þeirra, en hlutfallið byggðist á vinnutímaviðmiði. Nemendur svöruðu spurningakönnunum í lok MOOC-námskeiðanna þar sem þeir voru hvattir til að vera heiðarlegir og gagnrýnir á þátttöku sína og þennan námsmatsþátt inni í HÍ-námskeiðunum. Niðurstöðurnar sýna að nemendur voru mjög ánægðir með að fá MOOC-námskeið metin inn í HÍ-námskeið, eftir að þeir höfðu jafnað sig á þeirri staðreynd að þeir voru að taka námskeið inni í námskeiði. Langflestir nemendanna sögðu að þeir vildu gjarnan taka fleiri slík námskeið og fá metin. Mörgum nemendum fannst of mikill tími fara í námskeiðin miðað við hlutfall þeirra í námsmati. Þær niðurstöður eru ekki í samræmi við þann raunvinnutíma sem nemendur notuðu í námskeiðin. Það sem kom mest á óvart var hversu margir nemendur þekktu ekki MOOC-námskeið. Rætt verður hvort ástæða sé til að nýta MOOC-námskeið í meiri mæli inni í HÍ-námskeiðum til að auka valmöguleika nemenda.

 

Teymisnám í verkfræðikennslu

Tómas Philip Rúnarsson, prófessor, VoN, HÍ

Hefðbundnar kennsluaðferðir í raungreinum og verkfræði miðast oft að því að kenna nemendum um líkön í stað gerð þeirra. Það er að nemendur spyrji gagnrýninna spurninga um líkanagerð og geti hannað ný líkön. Algengt er að hefðbundnar kennsluaðferðir, svo sem töflufyrirlestrar og heimadæmi, leiði nemendur í þá trú að lausn verkefna snúist um að finna „rétta líkanið“ í kennslubókinni eða á veraldarvefnum. Verkfræðinám snýst um að nemendur verði hönnuðir líkana en ekki einungis neytendur þeirra. Á vorönn 2020 beitti ég talsvert ólíkri kennsluaðferð en tíðkast við Verk- og náttúrufræðisvið Háskóla Íslands. Aðferðin kallast „teymisnám“ (e. team based learning), þróuð af prófessor Larry Michaelsen og hefur aðferðin verið notuð víða í kennslu í yfir 40 ár, sérstaklega í heilbrigðisvísindum. Markmið aðferðarinnar er að nemendur vinni í teymum (fimm til sjö einstaklingar) og tileinki sér námsefnið með því að ræða það og leysa raunhæf verkefni ásamt að ræða og kynna lausnir á milli teyma. Nemendum þykir oft erfitt að hanna líkön fyrir raunverkefni, en með því að vinna í teymum eru þau líklegri til árangurs. Teymisnám gengur lengra en annað námsform í þeim skilningi að verkefnin eru opnari, krefjast gagnrýninnar hugsunar og virkrar þátttöku nemenda. Reynslan af þessari kennsluaðferð verður kynnt og hún borin saman við hefðbundnar kennsluaðferðir, „case-based learning“ og „problem-based learning“. Til viðbótar mun ég einnig fjalla um breytta mynd kennslunnar þegar hún færðist alfarið yfir á Zoom-fjarvinnslubúnað í samkomubanninu vegna COVID-19.