Háskólar: Kennarar og kennsluþróun

Háskóli Íslands

Háskólar: Kennarar og kennsluþróun

2. október kl. 10:45 til 12:15 Smelltu til að taka þátt á ZOOM!

Rannsóknarstofa um háskóla

Guðrún Geirsdóttir

Perceived faculty development needs of tenured and sessional health science faculty

Abigail Grover Snook, adjunct, SHS, UI and Ásta Bryndís Schram, assistant professor, SHS, UI

Introduction: To motivate teacher participation in faculty development, interventions must address perceived needs of teachers. The aim of this study was to examine the perceived faculty development needs (PFDNs) of tenured and sessional faculty at the School of Health Sciences.

Methods: An online survey was conducted where teachers (n = 238) evaluated their need for 22 interventions using a Likert scale. Analysis included chi-square testing comparing tenured and all sessional faculty as well as comparing tenured faculty, classroom sessional faculty, and clinical sessional faculty. Ranking of PFDNs between groups was also compared. Results: Sessional faculty rated all 22 items higher and had strong agreement (=70%) on 18 of the items compared to 6 items for tenured faculty. Significant differences between tenured and sessional faculty were seen in 12 PFDNs. Top needs for all teachers were developing reflective practice, motivating students, designing effective assessments, providing constructive feedback, using educational technology, and constructing quality test questions. Top needs for classroom sessional faculty included teaching strategies for large groups and teaching clinical reasoning/critical thinking. Top needs for clinical sessional faculty included encouraging students to be self-directed, learning how to manage common teaching challenges, mentoring, and communicating goals and expectations to students.

Discussion: In general, sessional faculty expressed stronger needs for faculty development interventions. Faculty development should focus on the similar needs of tenured and sessional faculty but also develop certain interventions more important to classroom and clinical sessional faculty. This information can be utilized to develop interventions that address the PFDNs of teachers.

 

Vendifundir til að styðja við umræðu um kennslu og kennsluþróun

Margrét Sigrún Sigurðardóttir, dósent, FVS, HÍ

Í vendikennslu er fyrirlestrahluti kennslunnar færður út úr kennslustofunni í formi upptöku með það fyrir augum að skapa rými fyrir virkt nám innan kennslustofunnar. Rannsóknir á vendikennslu benda til þess að nemendur séu almennt fremur jákvæðir gagnvart vendikennslu þar sem þeir geta horft á upptökurnar á eigin hraða þegar þeim hentar. Þar sem vendikennsla hefur nýst vel í að virkja nemendur í kennslustofunni vaknaði sú spurning hvort hægt væri að nýta sömu hugmyndafræði í kennsluþróun með „vendifundum“. Hugmyndin á bak við vendifundi er að gera það sem er vel gert í kennsluþróun á Félagsvísindasviði sýnilegt um leið og ákveðnin atriði tengd kennslu eru sett á dagskrá. Með vendifundum vonuðumst við einnig til þess að ná til kennara sem jafnan taka ekki þátt í samtali um kennslu. Fundirnir voru skipulagðir með þeim hætti að 3–4 stuttar upptökur voru sendar á alla kennara sviðsins í tölvupósti. Upptökurnar skiptust í inngangsupptöku, upptökur af kennurum að lýsa reynslu sinni af viðfangsefninu og upptöku þar sem nemandi lýsti reynslu sinni. Umræðuhluti fundarins var svo haldinn á kaffistofu sviðsins í Odda og byggðist upp á óformlegu samtali um viðfangsefni fundarins. Þátttaka í vendifundum var framar vonum skólaárið 2019–2020, áhorf á upptökur var frá 35 áhorfum upp í rúmlega 100 áhorf, og á fundina sjálfa mættu um 10–20 einstaklingar í hvert skipti. Reynsla af vendifundum um kennslumál á Félagsvísindasviði má því teljast góð og verður haldið áfram.

 

Að kenna og stunda eigindlegar rannsóknaraðferðir

Thamar Melanie Heijstra, dósent, FVS, HÍ, Margrét Sigrún Sigurðardóttir, dósent, FVS, HÍ og Gyða Margrét Pétursdóttir, prófessor, FVS, HÍ

Eigindlegar rannsóknaraðferðir eru komnar til að vera í íslensku háskólaumhverfi en margbrotið eðli þessara rannsóknaraðferða gerir það að verkum að það er áskorun að kenna slíkar aðferðir þar sem háskólaumhverfið er með megindlegar áherslur. Markmið þessa erindis er að ávarpa erfiðleikana sem háskólakennarar standa frammi fyrir þegar þeir kenna eigindlegar rannsóknaraðferðir. Erindið byggir á gögnum úr sjö eigindlegum viðtölum við kennara sem stunda og kenna eigindlegar rannsóknaraðferðir háskóla á Íslandi. Niðurstöður sýna að kennarar finna fyrir þrýstingi til að koma eigindlegum rannsóknaraðferðum fyrir í megindlegu kerfi sem snýst um skilvirkni, nýfrjálshyggju og einkunnakerfi. Einnig kemur fram að það getur verið flókið að vera með ramma til að leiðbeina nemendum áfram án þess að segja þeim beint fyrir verkum. Þetta vekur líka upp spurninguna um hversu langt traust á milli nemenda og kennara á að ná. Viðmælendur eru ástríðufullir fyrir kennslu sinni en á sama tíma vonsviknir yfir því að þeir þurfa enn að berjast gegn fordómum um vísindalegt gildi eigindlegra rannsóknaraðferða.

 

Samfélagslegar áskoranir og hlutverk háskóla: Hugmyndir og viðhorf háskólakennara

Valgerður S. Bjarnadóttir, nýdoktor, HA

Markmið þessarar rannsóknar er að öðlast skilning á hugmyndum háskólakennara um hlutverk háskóla, meðal annars þegar kemur að því að fást við samfélagslegar áskoranir á hverjum tíma, svo sem umhverfisvá og falsfréttir. Byggt er á viðtalsrannsókn þar sem rætt var við 26 háskólakennara úr þremur íslenskum háskólum. Viðtölin voru tekin í desember 2019 og janúar 2020. Helstu niðurstöður benda til þess að í hugum viðmælenda sé eitt af grundvallarhlutverkum háskóla að takast á við helstu ógnir samtímans hverju sinni og vera skapandi, ögrandi og jafnvel óþægilegur. Hins vegar eru nokkrar áskoranir þegar kemur að því að sinna þessu hlutverki. Þær snúa bæði að starfsumhverfi kennaranna, þar sem framgangs- og stigamatskerfi vega nokkuð þungt, og breyttu samskiptaformi nemenda og kennara, þar sem sífellt meiri sveigjanleiki í námsfyrirkomulagi hamlar þjálfun í gagnrýninni umræðu og virku samfélagi nemenda. Niðurstöður styðja við mikilvægi þess að viðhalda lifandi og markvissri umræðu um tilgang og lýðræðislegt hlutverk háskóla í samhengi við þróun á námsfyrirkomulagi og starfsumhverfi háskóla.

 

 Að undirbúa nemendur til ábyrgrar þátttöku í lýðræðissamfélagi: Viðhorf háskólakennara

 Guðrún Geirsdóttir, dósent, MVS, HÍ og Anna Ólafsdóttir, dósent, HA

Í erindinu verður greint frá niðurstöðum rannsóknar á viðhorfum háskólakennara til lýðræðishlutverks háskóla og hvort og þá hvernig hugmyndir þeirra og viðhorf endurspeglast í kennslu. Niðurstöðurnar eru hluti af stærra rannsóknarverkefni sem snýr að háskólum og lýðræði. Tekin voru viðtöl við 26 háskólakennara innan tveggja fræðasviða við þrjá íslenska háskóla. Í viðtölunum voru þátttakendur beðnir að reifa hugmyndir sínar um hlutverk háskóla í lýðræðissamfélagi og hvernig þeir teldu námsgreinar á sínu sérfræðisviði undirbúa nemendur undir ábyrga þátttöku í lýðræðissamfélagi eins og kveðið er á um í lögum að háskóli eigi að gera. Þátttakendur voru síðan spurðir hvort, og þá hvernig þessar hugmyndir endurspegluðust í kennsluháttum (námskrárgerð, kennsluaðferðum og leiðum við námsmat), auk þess sem leitað var eftir upplýsingum um aðkomu nemenda að ákvörðunum um ofangreinda þætti. Úrvinnslu gagna er ekki lokið en fyrstu niðurstöður gefa til kynna að háskólakennarar telji hlutverk háskóla í lýðræðissamfélagi mikilvægt en hugmyndir þeirra um hvernig best megi undirbúa nemendur undir ábyrga þátttöku í lýðræðissamfélagi virðast fremur ómótaðar. Að mati viðmælenda fer ekki mikið fyrir umræðu um lýðræðislegt hlutverk háskóla innan deilda og námsleiða á þeirra fræðasviði þó ýmsir innri og ytri þættir hafi þar áhrif á. Niðurstöðurnar gefa vísbendingar um að háskólakennurum finnist ekki augljóst hvernig tengja megi hugmyndir þeirra um lýðræðishlutverk háskóla við kennslu í þeirra greinum.