Gerum færni innflytjenda sýnilega – áskoranir og möguleikar í raunfærnimat

Háskóli Íslands

Gerum færni innflytjenda sýnilega – áskoranir og möguleikar í raunfærnimat

1. október kl. 13:45 til 15:15 – Smelltu til að taka þátt á ZOOM!

VISKA – FA / IÐAN / Menntavísindastofnun

Arnheiður Gígja Guðmundsdóttir

VISKA – helstu markmið, verkfæri og afurðir

Fjóla María Lárusdóttir, sérfræðingur, Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og Arnheiður Gígja Guðmundsdóttir, Fræðslumiðstöð atvinnulífsins

Fjallað verður um hvernig hægt er að gera færni innflytjenda á Íslandi sýnilegri með því að nota aðferðir raunfærnimats. Kynnt verða helstu markmið, verkfæri, afurðir og niðurstöður úr þriggja ára stefnumótandi tilraunaverkefni, VISKA (Visible Skills of Adults, – Erasmus KA3) sem leiddi í ljós bæði áskoranir og möguleika til að nýta raunfærnimatskerfið á Íslandi fyrir innflytjendur á vinnumarkaði. Raunfærnimat hefur verið í þróun hér á landi síðan árið 2004 á móti hæfniviðmiðum námskráa á framhaldsskólastigi og reynst mjög vel til að draga fram og staðfesta færni fólks til styttingar á námi. Nú eru um 50 leiðir í boði á framhaldsskólastigi (námskrár í raunfærnimati). Einnig hafa verið þróaðar leiðir þar sem hæfni er metin á móti hæfnikröfum starfa. Um 5500 manns hafa nýtt sér ferlið hingað til, en lítil þátttaka verið á meðal innflytjenda. Skoða þurfti raunfærnimatsferlið, aðferðir og verkfæri með tilliti til markhópsins sem voru pólskir innflytjendur, en stærstur hluti innflytjenda á Íslandi er af pólsku bergi brotinn. Ný verkfæri til raunfærnimats voru þróuð (t.d. mat á yfirfæranlegri hæfni) og önnur þýdd yfir á pólsku. Undirbúningur og þjálfun allra sem komu að matinu; ráðgjafa, matsaðila og túlka var efld m.t.t. markhópsins. Niðurstöður verkefnisins sýna að bæta þarf aðgengi innflytjenda að raunfærnimati og íslensku menntakerfi. Þingsályktun um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda bendir á mikilvægi þess að innflytjendur fái mat á menntun og færni og gefa niðurstöður rannsóknarinnar vísbendingar um hvaða áskoranir og möguleikar bíða úrlausnar.

VISKA – Tilraunahluti verkefnisins

Helen Gray, þróunarstjóri, IÐAN fræðslusetur og Rakel Steinvör Hallgrímsdóttir, náms- og starfsráðgjafi, IÐAN fræðslusetur 

IÐAN fræðslusetur fór fyrir framkvæmd raunfærnimats í VISKA-verkefninu (Visable Skills of Adults) á Íslandi. Markhópurinn samanstóð af Pólverjum starfandi á íslenskum vinnumarkaði. Alls fóru 45 þátttakendur í raunfærnimatinu á móti námskrám í löggildum iðngreinum og hæfniviðmiðum starfa. Lögð var áhersla á að opna núverandi raunfæmimatskerfi fyrir innflytjendum og skoða í gegnum það ferli áskoranir og tækifæri því tengd. Einnig fór fram prófun á samevrópsku vefmatstæki fyrir innflytjendur. Framkvæmdin leiddi meðal annars í ljós eftirfarandi atriði: Almennt er ekki hægt að yfirfæra núverandi raunfærmimatskerfi óbreytt yfir á innflytjendur; hlutverk túlka og sérstök þjálfun þarf að vera skýr og til staðar þegar unnið er með innflytjendur; upplýsingagjöf til innflytjenda um raunfærnimat vantar; aðgengi innflytjenda að raunfærnimati og menntakerfinu er áhyggjuefni; viðbótarþjálfun fyrir matsaðila og aðra sem koma að raunfærmimati fyrir innflytjendur hafði verulega þýðingu fyrir framkvæmdina; hagsmunaaðilar vilja stuðla að færniþróun innflytjenda; umræða um íslenskukunnáttu var áberandi. Ávallt er þörf fyrir að endurskoða, aðlaga og uppfæra stefnumál hverju sinni. Stefnur þurfa að byggja á þörfum, annars er hætta á að illa sé farið með fjármagn, tíma og aðföng. Í VISKA-verkefninu voru dregnar fram áskoranir og tækifæri í tengslum við raunfærnimat fyrir innflytjendur og leitað leiða innan þess til að leysa þær meðan á tilrauninni stóð. Sumar áskoranir eru enn óleystar.

Rannsóknarhluti VISKA-verkefnisins. Gerum færni innflytjenda sýnilega – áskoranir og möguleikar í raunfærnimati

Sigrún Sif Jóelsdóttir, verkefnastjóri, MVSt, HÍ

Hlutverk Menntavísindastofnunar í verkefninu VISKA var að þróa rannsóknaráætlun og matstæki í samvinnu við rannsóknaraðila og framkvæma gagnasöfnun og greiningu. Megindlegum gögnum var safnað í ferlinu og lögð fyrir könnun í upphafi og við lok ferlis. Eigindlegum gögnum var safnað með einstaklingsviðtölum við þátttakendur og rýnihópaviðtölum, annars vegar við stefnumótendur og hins vegar við starfsfólk verkefnis og matsmenn. Þátttakendur voru 26 karlar og 25 konur, fædd 1958–1995, flest í Póllandi. Flest voru húsasmiðir eða matráðar en einnig úr öðrum stéttum. Flest höfðu búið á Íslandi í sex ár eða meira. Menntunarstig í hópnum var hærra en búist var við sem styður að einhverju leyti þá skoðun almennt að það sé ósamræmi á milli menntunar og starfa á vinnumarkaði. Aðspurð hvað hefði komið í veg fyrir að viðkomandi hefði bætt við sig menntun eða bætt stöðu sína á vinnumarkaði hingað til voru tungumálaerfiðleikar oftast nefndir. Þátttakendur lýstu óvissu um hvað tekur við eftir raunfærnimat, sögðu óljóst hvernig ferlið myndi gagnast þeim í skólakerfinu eða hafa áhrif á laun. Vekja þarf almenna vitneskju um ábata með raunfærnimati. Samkvæmt starfsfólki verkefnis og matsmönnum þarf að leggja áherslu á að túlkur við verkefni hafi orðaforða fagstéttar og hæfni í báðum tungumálum. Fólk hafði væntingar um að ljúka námi í samræmi við raunfærnimat, stuðningur frá yfirmanni væri mikilvægur í ferlinu og einnig að innflytjendur þekktu rétt sinn svo vinnuafl þeirra væri ekki misnotað. Stefnumótendur töldu vera aukinn skilning í umræðu á þörf fyrir raunfærnimat en áríðandi að fólk á vinnumarkaði sæi fjárhagslegan ávinning með matinu í samhengi við kjarasamninga.